Ö llum meðalplebbum langar að lifa eins og kóngur eða drottning í eggi og ímynda sér að peningar séu ekkert vandamál. Þeir meðalplebbar gætu gert vitlausari hluti en eyða nótt eða tveimur á hefðarsetrinu Carton House á Írlandi. Ekki hvað síst ef golfáhugi er mikill.

Fullorðins týpan og bakvið eru tveir ágætir golfvellir. Mynd Carton House

Carton House er stórt og mikið fyrrum hefðarsetur í 30-40 mínútna fjarlægð frá höfuðborginni Dyflinni. Þessu ágæta setri hefur fyrir nokkru verið breytt í lúxushótel með veitingastað, bar, og síðast en ekki síst, tveimur ágætum 18-holu golfvöllum á sama blettinum. Ókei, ekki á nákvæmlega sama blettinum en þið vitið hvað við erum að fara 😉

Hótelið er fyrirtak og það getur ritstjórn vottað eftir að hafa eytt hér tíma síðla árs 2019 en þá var þegar búið að ljúka hluta mikilla endurbóta á hótelinu. Herbergin sjálf eru tiltölulega beisik og flest staðsett í nýbyggðri álmu við setrið. Þau ekkert merkileg þannig.

Grínið á einni af brautunum á Montgomerie vellinum. Skjáskot

Það sem hins vegar fær smá gæsahúð til að spretta fram er mikilfengleiki setursins gamla sem enginn veitir þó athygli fyrr en komið er beint að byggingunni. Þetta er ekta gamaldags greifasetur með skreyttum görðum og alles og allt heila klabbið lokað af með gamaldags steinhleðslum. Manni finnst nánast að tvídfatnaður sé hér nauðsyn.

Barinn er írskur og því 100% príma. Veitingahúsið er svona nett klúbbhús og svo eru það golfvellirnir. Annar hannaður af Mark O’ Meara og hinn af Colin Montgomerie. Hvorugur þeirra fara í bækur eða instagram sem himneskir en stöku brautir á báðum völlum eru kostulegar. Sérstaklega á það við um lokaholur beggja valla.

Þetta er semsagt staður þar sem latir golfarar geta látið fara vel um sig án þess að hreyfa augnbrún en fyrir þá ævintýragjörnu eru smábæir í grennd með alvöru írsku fólki og írsku vískíi með. Það þarf þó alltaf bíl til og þor til að aka vinstra megin. Svo er höfuðborgin Dublin aðeins í rúmlega hálftíma fjarlægð.

Almennt gott stopp ef ekkert kemst að annað en golf á golf ofan en lítið við að hafa þess utan. Ferðaskrifstofan GB Ferðir hefur á köflum verið að bjóða túra hingað og sjálfsagt að skoða það en til Írlands er líka komist í beinu flugi með Icelandair og á heimasíðu Carton House má oft finna hreint ágæt tilboð á golfi og gistingu.

Svo er aldrei mínus að skoða gistingu hjá níföldum heimsmeistara í hótelbókunum hér að neðan. Ekki aðeins finnurðu alltaf lægsta verðið heldur og hjálparðu Fararheill að lifa og dafna. Með fyrirfram þökk 🙂