Það er ætíð svo að margar frægustu byggingar og mannvirki heims væru töluvert minna merkileg ef ekkert væri vitað um sögu þeirra eða upphaf. Mýmörg dæmi eru um slíkt og nægir til að mynda að nefna Jónshús í Kaupmannahöfn, heimili Önnu Frank í Amsterdam eða  Chichen Itza í Mexíkó. Og jú, Versali í Frakklandi.

Ekki fyrr var lokið smíði Vaux le Vicomte en eigandanum var umsvifalaust stungið í steininn sökum öfundar. Þar dúsaði hann til æviloka og naut því aldrei ævidaga á sveitarsetri sínu. Mynd FredArt
Ekki fyrr var lokið smíði Vaux le Vicomte en eigandanum var umsvifalaust stungið í steininn sökum öfundar. Þar dúsaði hann til æviloka og naut því aldrei ævidaga á sveitarsetri sínu. Mynd FredArt

Saga þessa ævintýralega konungsseturs sem strangt til tekið væri hægt að skoða vikum saman og vera agndofa allan tímann er nefninlega æði merkileg. Ekki óvænt en merkileg.

Upp úr kafinu kemur nefninlega að höllin glæsta og garðarnir fínu eru meira og minna afleiðing öfundar á sínum tíma og þá kannski loks komið dæmi um jákvæða eiginleika þeirrar tilfinningar.

Í stuttu máli sagt byggði fjármálaráðherra Lúðvíks fjórtánda, Nicholas Fouquet, sér glæsilegan kastala við Vaux le Vicomte og sparaði þar ekki sent til að gera allt sem mest og best. Lauk smíðinni 1661 og blés Fouquet til veislu og bauð vitanlega konungi sínum.

Það hefði hann betur látið ógert. Lúðvík litli varð svo fjúkandi að undirmaður hans ætti prívat og persónulega mun glæsilegri kastala og veiðilendur en konungurinn sjálfur að hann varpaði fjármálaráðherranum umsvifalaust í fangelsi. Í kjölfarið fyrirskipaði hann að arkitektar sínir ættu að gera veiðilendur hans sjálfs við Versali glæsilegri en nokkuð sem finndist í Vaux-le-Vicomte og það varð úr.

Afleiðingar öfundar konungs sem lét Fouquet dúsa í prísund í næstum 20 ár vegna þessa má því sjá í glæstum og næstum ólýsanlegri fegurð Versala og nágrennis.

Yfir sumartímann er bæði dýrt að heimsækja Versali auk þess sem mannfjöldi gerir það minna spennandi en ella. En þá er þjóðráð að heimsækja í staðinn kastala Fouquet sem einnig er stórglæsilegur þó ekki jafnist hann á við Versali. Innandyra í Château de Vaux le Vicomte er forvitnilegt að sjá hvað gerði Lúðvík svo framúrskarandi öfundsjúkan og varð til þess að einhverjar fegurstu byggingar heims litu dagsins ljós.

Château de Vaux le Vicomte er í 50 mínútna akstursfjarlægð frá París. Aðgangseyrir er 2.800 krónur á mann og hér er opið frá mars fram til október ár hvert milli 10 og 18.

Heimasíðan hér.


View Vaux le Vicomte kastalinn í Frakklandi in a larger map