Skip to main content
R itstjórn Fararheill hefur sopið smá fjöru á ferðalögum sínum. Vopnaða árás á Jamaíka, mótorhjólaslys í frumskógi Kosta Ríka, hvolft bátskrifli í firði fullum af búrhvölum í Kanada, reykt yfir sig í Amsterdam, rammvillst í Sánkti Pétursborg, móðgað hóp múslima í Alsír og setið við hlið raunverulegs mafíósa á stuttu flugi til Sikileyjar.
Hluti vegarkaflans yfir Atlasfjöll. Svona er vegurinn upp á við næstu 30 kílómetra. Mynd Hayib Saaid

Hluti vegarkaflans yfir Atlasfjöll. Svona er vegurinn upp á við næstu 30 kílómetra. Mynd Hayib Saaid

Allt það er hjóm eitt miðað við taugatitringinn að láta annars hugar heimamann skutla sér yfir Atlas fjallgarðinn sem aðskilur borgina Marrakesh á láglendi Marokkó og borgina Ourzazate og eyðimörk Sahara á hálendi landsins.

Fjallgarðurinn er sá stærsti í Afríku allri og nær í raun frá Miðjarðarhafinu og niðureftir Marokkó endilöngu.

Tvær leiðir eru færar yfir Atlas frá Marrakesh. Sú einfaldari, Tizi’n’Tichka, liggur beint í austur frá borginni en flóknari en jafnframt mun stórkostlegri er Tizi’n’Test sem liggur suður frá borginni.

Fyrrnefnda leiðin er ógnvekjandi fyrir gangandi vegfarenda. Hvað þá í bíl með bílstjóra sem ekur eins og hann þurfi að komast á klósettið í gær, á tiltölulega niðurníddum sendibíl, án þess að skilja önnur mál en frönsku og með innlenda tónlist svo hátt stillta að hann heyrir ekki að allir trúleysingjarnir í bílnum eru að fara með bænir.

Krappar beygjur á 80 kílómetra hraða í gömlum sendibíl sentimetrum frá tvö þúsund metra frjálsu falli kann að vera draumur Felix Baumgartner en fyrir venjulegt launafólk norðan úr ballarhafi er reynslan minna en góð svo ekki sé meira sagt

Slíkt gæti sloppið ef undir stýri er fagmaður fram í fingurgóma og athyglin hundrað prósent á veginum svo ekki sé talað um að enginn annar sé á þröngum veginum. En það er ekki svo gott því hér er mikil traffík og sérstaklega er varasamt þegar smærri bílar taka fram úr löngum trukkum og aðeins 20 til 30 metrar í næstu beygju. Lágir kantsteinarnir meðfram veginum stoppa ekki hjólbörur ef út í það er farið og þegar komið er upp fyrir tólf hundruð metra eða svo er líka snjór og klakaslettur á veginum.

Sé þetta ekki nógu slæmt er hér oft fólk á þvælingi á miðjum veginum. Flestir sölumenn líta á það sem eðlilegan hlut að hlaupa út á miðjan veg til að vekja athygli á varningi til sölu. Veg sem er um það bil fjórir metrar á breiddina. Nægir að segja að væri starfandi íslensk Umferðarstofa í Marokkó væri alls enginn vegur hér.

Frægur vegur

En vegurinn atarna er sannarlega frægur. Hann þótti á sínum tíma eitthvað mesta þrekvirki sem verkfræðideild franska hersins hafði nokkurn tíma byggt. Þarf enda lítið hugmyndaflug til að átta sig á að þeir sem hér hafa lagt veginn hafa verið í bullandi lífshættu hverja einustu mínútu. Hæsti punktur hans er 2072 metrar en jafnvel þá gnæfa tindar hátt yfir veginum. Liggur vegurinn, á kafla, sem sagt í sömu hæð og hæsta fjall Íslands: Hvannadalshnjúkur.

Sennilega átta menn sig á hvað verið er að fara þegar litið er til þess að á brattasta kafla vegarins tekur það vart undir klukkustund að fara 30 kílómetra því á þeim kafla eru lengstu beinu vegakaflarnir um það bil 15 metrar. Beygjurnar, sem allar gefa ágæta útsýn yfir hyldjúp gljúfrin fyrir neðan, eru 99 talsins.

Annað sem kemur velflestum á óvart er að hér, klukkustund frá hitastækjunni á láglendinu, er yfirleitt afar kalt og hægt er að sjá snjó í fjöllunum allan ársins hring þó hitastig á láglendi fari oft yfir 40 gráður. Hér blæs líka nokkuð.

Er því þjóðráð að vanda valið á leiðsögumanni eða bílstjóra sé hugmyndin að fara yfir Atlas fjallgarðinn. Og taka annaðhvort hjartapillurnar með eða rótsterkt viskí.