Annar bær sem má muna fífil sinn fegurri er Vecindario á suðausturhluta Kanarí. Þar í bæ eru menn aðeins að ná áttum á nýjan leik eftir mögur ár og þar skipar stóran sess það sem heimamenn kalla bestu verslunarmiðstöð suðausturhlutans. Sú verslunarmiðstöð, Centro Comercial Atlantíco, trekkir að fólk víða og þar á meðal marga ferðamenn frá suðurhluta landsins. Innandyra má finna flestar helstu keðjuverslanir auk fjölda veitingastaða.

Bærinn sjálfur er hins vegar dálítið upp og niður og fyrir því er góð ástæða. Fyrir 50 árum síðan var ekkert til hér sem hét Vecindario. Hér voru fjórir tiltölulega smáir bæir hvers íbúar höfðu að aðalatvinnu að rækta tómata.
Sá atvinnuvegur gekk afar vel um tíma og næga vinnu var að hafa. Gallinn þó sá að Franco einræðisherra, sem þá réði öllu á Spáni, lagði blátt bann við að fjölgað yrði húsum hér um slóðir og hafði í huga að auka ræktarland tómata til lengri tíma litið.

Fáum datt í hug að setja sig upp gegn einræðisherranum opinberlega en undir niðri voru margir á móti Franco og hans eilífu reglur, boð og bönn. Það var því í skjóli nætur sem áhugasamir byggðu sér og sínum hús svo lítið bæri á og slíkt gerðu það margir um margra ára skeið að nokkrum árum síðar voru bæirnir fjórir hver ofan í öðrum. Úr varð Vecindario.

Þegar líða tók á síðustu öld fór þó allt á verri veg hér. Þá fóru að koma á evrópska markaði mun ódýrari tómatar frá Afríku og það kippti grundvellinum undan helsta atvinnuvegi hér í bæ.

Ólíkt öðrum stærri bæjum á sunnanverðri eyjunni er Vecindario þó ekki túristabær í þeirri merkingu að hér búa heimamenn og erlendir ferðamenn fremur sjaldséðir nema í verslunum. Sem aftur þýðir að hér er gott að vera ef þú vilt komast frá endalausum hótelum og hlaðborðum og rauðleitu fólki í sandölum.

Ekki er mikið að sjá hér en verslun er stórgóð og hér er fjöldi veitingastaða og verðlag aðeins lægra en þú finnur á Laugaveginum í Playa del Inglés.