U m það er engum blöðum að fletta að allra vinsælasti áfangastaður ferðamanna á Kúbu og reyndar einn helsti ferðamannastaður í karabíska hafinu í heild sinni er Varadero í norðurhluta landsins í um 130 kílómetra fjarlægð frá Havana. Líkt og á öðrum stöðum eru kostir og gallar við dvöl hér en umsagnir almennt þó jákvæðari en ekki.
Þó tæknilega tilheyri Varadero Kúbu má segja að staðurinn eigi ekkert sameiginlegt með öðrum stöðum á þeirri ágætu eyju. Þetta er rúmlega 20 kílómetra langur skagi með dúndurfínum ströndum og hér er Varadero-bær sem skaginn heitir eftir. En að megninu til er Varadero þó þétt setin afgirtum vestrænum lúxushótelum, alls tæplega 80 talsins þegar þetta er skrifað, og vandfundnar strendur hér sem ekki tilheyra einu hóteli eða öðru.
Segja má að snúist fríið um að baða sig í sól í þokkalegum lúxus á fyrsta flokks ströndum sé Varadero sérdeilis góður kostur. Þá er þetta líka sæmilegur staður til að taka inn sumt af því helsta sem Kúba býður upp á sökum fjölda ferðaþjónustufyrirtækja sem hér bjóða þjónustu sína. Margir bjóða dagsferðir til Havana og alltaf er hægt að semja um styttri ferðir annað ef því er að skipta.
Á hinn bóginn er sorglega lítið af kúbverskri stemmningu hér. Eiginlega ekki neitt enda hótelhluti Varadero algjörlega lokaður heimamönnum nema um starfsfólk sé að ræða. Ekki svo að skilja að Kúbverjar geti ekki heimsótt skagann en þar sem hér fara öll viðskipti fram í bandarískum dollurum eða ferðamannapesóum geta þeir ekki keypt neina þjónustu hér.
Sé það mannlíf innfæddra, glaðvær tónlistin eða yndislegar náttúruperlur sem toppa óskalistann er eiginlega ekki hægt að vera á verri stað. Þá er hvergi jafn dýrt að vera en hér en það skýrist auðvitað af þægindum að mestu plús hagnaðarvon stórra hótelkeðja.
Til og frá
Varadero hefur sinn eigin flugvöll sem er næstvinsælasti flugvöllur landsins. Juan Gualberto Gomez flugvöllur, oft kallaður Varadero flugvöllur, er steinsnar frá svæðinu og örfáar mínútur tekur að komast á næstu hótel. Leigubílar eru í boði og flugskutlur sömuleiðis. Í flestum tilvikum í pakkaferðum er þó túrinn á hótel innifalið í verðinu.
Leiki hugur að þvælast um skagann gengur strætisvagn reglulega frá odda Varadero og inn í samnefndan bæ reglulega alla daga. Fínasta leið til að kynnast umhverfinu og víða stoppað. Dagsmiði kostar rétt rúmar þúsund krónur. Stoppustöðvar merktar bláu hjá flestum hótelum.
Fátt er auðveldara en grípa leigubíl hér um slóðir. Slíkir finnast nánast undantekningarlaust við öll helstu hótel og aldrei er vandamál að panta slíkan á hótel ef engin er við dyrnar.
Þó mörg hótelin bjóði upp á ferðir hingað og þangað er oft yndislegra að panta leigubíl til að rúlla í styttri skoðunarferðir. Alltaf er hægt að prútta um verð og bílstjórarnir lagnir að benda á ýmislegt sem merkilegt er sem ekki er minnst á í hópferðum.
Söfn og sjónarspil
Ef sólböð og sundsprettir hætta að heilla eftir nokkra daga eru nokkrir áhugaverðir staðir hér á skaganum.
>> Golfklúbbur Varadero (Varadero Golf Club) – Eini golfvöllur landsins er staðsettur hér og er æði góður í alla staði. Klúbbhúsið sjálft er ein frægasta byggingin hér um slóðir. Það er stórhýsi sem reist var af frönskum milljarðamæringi af Dupont ættinni. Þar líka hægt að gista ef vasar eru djúpir. Það setur þó engan á höfuðið að taka hring hér. Einn slíkur kostar rétt rúmar tíu þúsund krónur. Heimasíðan.
>> Háhyrningalaugin (Delfinario) – Vinsælt stopp ferðafólks hér er háhyrningalaug ein þar sem fram fara bæði sýningar og eins gefst áhugasömum færi að leggjast til sunds með þessum fallegu dýrum. Slíkur sundsprettur kostar um tíu þúsund krónur en heimsókn ein og sér aðeins 2.000 krónur. Heimasíðan.
>> Fögruhellar (Cuevas de Bellamar) – Eitt merkilegasta náttúruundur Kúbu finnst skammt frá Varadero eða mitt á milli flugvallarins og borgarinnar Matanzas. Þetta eru miklir og stórir hellar sem fundust fyrir tilviljun um miðja átjándu öld og hafa síðan verið eitt helsta aðdráttarafl eyjarinnar. Neðst í þeim er að finna vatnslind eina góða sem heimamenn kalla vatn lífsins. Hellarnir skreyttir í bak og fyrir með dropasteinum og kynjamyndum og er ómissandi stopp á Kúbu. Verslun og tveir veitingastaðir finnast við innganginn.
>> Josone garðurinn (Parque de Josone) – Eitt indælasta svæðið á skaganum öllum er þessi litli garður á miðjum skaganum. Dýralíf hér merkilega mikið og fjölbreytt miðað við garð í þéttbýli og sannarlega tímans virði að kíkja og jafnvel dvelja stundarkorn.
>> Tropicana klúbburinn (Tropicana Matanzas) – Allra frægasti klúbburinn í Havana er hinn sögufrægi Tropicana þar sem tónlistin dunar og dansað er út í eitt. Útibú frá þessum fræga stað er að finna í borginni Matanzas sem er í rúmlega hálfrar klukkustundar fjarlægð frá Varadero. Vissulega túristalegt mjög en gamanið er ósvikið og flestir hrífast með. Hafa skal í huga að sýningar hér geta tekið nokkrar klukkustundir í senn.
>> Varadero safnið (Museo de Varadero) – Við mælum ekkert sérstaklega með heimsókn hingað. Þetta er lítið safn rétt hjá Josone garðinum í Varadero bæ. Byggingin falleg og flott dæmi um arkitektúr fyrri tíma en safnið sjálft lítt spennandi nema þú sért áhugamaður um uppbyggingu á þessu svæði.
>> Sumarhús Al Capone (Casa del Al) – Ýmsir þekktir einstaklingar sóttu hingað í sól og sælu á árum áður og þar á meðal hinn illræmdi glæpamaður Al Capone. Sá fílaði staðinn svo vel að hann byggði sumarhús sem nú þjónar hlutverki veitingahúss. Það finnst við Laguna de Paso Malo á vesturenda skagans.
>> Varahicacos þjóðgarðurinn (Reserva Ecologica Varahicacos) – Það mega Kúbumenn eiga að jafnvel hér á þessari níðþröngu strandlengju er samt að finna eitt svæði sem flokkað er sem þjóðgarður og er nánast eini staðurinn sem enn er ósnortinn í Varadero. Töluvert dýralíf hér og lítið um túrista vilji fólk aðeins komast frá. Það skemmir þó fyrir að hér eru hótelbyggingar að færast nær hvert einasta ár.
Verslun og viðskipti
Lítið mál er að skipta erlendum gjaldeyri í túristapesó í Varadero. Sum hótel bjóða þá þjónustu en skiptimiðstöð er líka að finna á flugvellinum, í bönkum hér og á stöðum sem kallast Cadeco. Nokkrar slíkar stöðvar finnast á Varadero.
Kreditkort eru tekin á vestrænu hótelunum og í mörgum verslunum líka en ekki öllum. Þá eru kortin ónothæf á markaðinum í Varadero-bæ.
Það þarf ekki að spyrja að því að þar sem fjöldi erlendra ferðamanna koma saman þar er verslunarmiðstöð. Þrír verslunarkjarnar finnast í Varadero en enginn þeirra þó mjög stór. Plaza las Americas í úthverfi bæjarins þykir sá besti. Centro Comercial Hicacos er annar en úrval takmarkað og þriðji er Plaza las Morlas.
Án alls efa er markaðurinn í Varadero bæ langskemmtilegasti staðurinn til að skoða og kaupa. Þar gott að kunna staf í spænsku til að prútta. Hann er auðfundinn því bærinn er ekki stór.
Að síðustu er ágætt að hafa í huga að verðlag sveiflast mikið milli túristaverslana annars vegar og venjulegra verslana hins vegar. Sé þess kostur reyndu að versla í smærri verslunum og ekki á hótelunum. Það munar nokkuð í verði.
Hótel og híbýli
Slæmt frá að segja að heimamönnum er oft meinað að þvælast hér um mikið nema þeir segja að starfa fyrir erlendu hótelin. Lengi vel var blátt bann við að hér störfuðu Casas Particulares, heimagistingin sem er svo vinsæl annars staðar í landinu. Þetta breyttist árið 2012 en slík gisting þó af mjög skornum skammti. Þá gengur heldur ekki að tjalda hér því það er bannað.
Það er ekkert sem mælir gegn því að bóka gistingu hér gegnum hótelvefi sé fólk á skipuleggja eigin ferðir. Stundum má jafnvel njóta betri kjara á þann hátt. Oftar er þó reglan að kaupa pakkaferð hingað og yfir annatíma, desember til apríl og júlí og ágúst, og fá þá allt innifalið en velflest hótel hér bjóða slíkan pakka.
Líf og limir
Kúba er og hefur ávallt verið mjög örugg heimsóknar. Varadero engin undantekning þar á. Glæpir af nokkru tagi sjaldgæfir og helsta kvörtunarefnið eru stöku leigubílstjórar sem vilja fá meira fyrir sinn snúð en samið var um í upphafi. Það er samt undantekning.
Þörf er á að hafa í huga að straumar eru stríðir hér með ströndum. Flestar strendur hér eru merktar með fánum til að gefa til kynna hvort sjósund sé vænlegt eður ei. Rautt þýðir sundbann, gult að fara verði varlega og grænt eðlilega að allt sé í lagi.