E ndalaust má deila um hvað sé fallegt og dásamlegt í veröldinni og hvað ekki. En sennilega er á ekkert hallað þegar fullyrt er að Breska Kolombía, BC, sé allra fallegasta héraðið í Kanada.

Hin magnaða Capilano hengibrú yfir samnefnda á. Mynd Mike Hewitt

Hin magnaða Capilano hengibrú yfir samnefnda á. Mynd Mike Hewitt

Vissulega finnast í Kanada mörg stórfengleg svæði og nægir í því sambandi að skoða nokkrar yndislegar perlur sem við tókum saman hér fyrir nokkru. Engu að síður er BC heilt yfir það allra fallegasta. Þar er ekki eitt eða tvennt sem ber fegurðinni vitni heldur héraðið allt saman. Klettótt strandlengjan stórfengleg. Skóglendi á heimsmælikvarða, hin stórmerkilegu Boogaboo fjöll og ekki er Cariboo sléttan síðri. Það gildir næstum einu hvert litið er, Breska Kólombía er fegurðin uppmáluð.

Sé ferð til Vancouver á döfinni ætti flestum að gefast tími til að taka inn þó ekki sé nema angan af því sem fylkið býður upp á í Capilano garðinum sem er aðeins spölkorn frá borginni til norðurs.

Capilano er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Vancouver og það ekki að ástæðulausu. Aðeins tíu mínútna akstur frá miðborginni og í vetfangi er fólk statt í útivistarparadís með stóru Ú-i. Þykkur skógur við fallegt vatn og Capilano áin rennur ljúflega hjá.

Stórkostlegur útivistarstaður en jafnvel þó fólk sé ekki á þeim skónum er hægt að taka inn það helsta með bravúr með því að ganga yfir Capilano hengibrúna. Sú hangir í trjátoppnunum í sjötíu metra hæð yfir ánni og sveiflast nokkuð með vindi. Þaðan er fín sýn eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.

Ómissandi stopp og hingað er komist frítt með þartilgerðri farþegaskutlu sem stoppar reglulega hjá stærri hótelum í miðbænum reglulega.