Skip to main content

A ngkor Wat! Sannarlega eitt af undrum veraldar og engin leið að gera því skil með orðum. Angkor Wat verður að upplifa á eigin skinni og hugsa til þess í leiðinni að töluverður hluti þessa mikla hofs eru rústir einar í dag. Með öðrum orðum; hversu mikilfenglegt var það í upphafi?

Til að skoða Angkor Wat virkilega vel þarf góðan tíma en þrír til fjórir tímar eru algjört lágmark. Mynd Pigelle

Til að skoða Angkor Wat virkilega vel þarf góðan tíma en þrír til fjórir tímar eru algjört lágmark. Mynd Pigelle

Angkor Wat merkir hof borgarinnar en þegar það var byggt á tólftu öld, og næstu aldir á eftir, var hér ein mesta borg í sunnanverðri Asíu sem taldi um milljón íbúa þegar mest var. Fáar aðrar borgir heims náðu slíkum hæðum á þeim tíma.

Hofið var upphaflega Hindúahof tileinkað guðinum Vishnu og átti í hugum trúaðra að tákna bústað þess guðs hér á jörð.

Það er ekki aðeins hofið sjálft sem er þess virði að eyða tíma að skoða heldur ekki síður nágrenni hofsins sem staðsett er á æði yndislegum stað eins og sjá má. Mynd stoicviking

Það er ekki aðeins hofið sjálft sem er þess virði að eyða tíma að skoða heldur ekki síður nágrenni hofsins sem staðsett er á æði yndislegum stað eins og sjá má. Mynd stoicviking

Suryavarman konungur sem lét byggja hofið lést áður en verkið var fullkomnað. Nokkrum áratugum síðar náðu óvinir hans tökum á borginni og jöfnuðu hana að mestu við jörðu en létu hofið að mestu vera. Fluttu þeir borgina í kjölfarið mun norðar í landið og við tók langur tími hnignunar og á nokkrum áratugum hafði gróður að mestu falið þetta mikla hof.

Hofið er illa farið af vindum tímans en loks nýlega fengu stjórnvöld peninga til að lagfæra og reyna að koma í veg fyrir meira niðurbrot. Mynd Martínez Juan

Hofið er illa farið af vindum tímans en loks nýlega fengu stjórnvöld peninga til að lagfæra og reyna að koma í veg fyrir meira niðurbrot. Mynd Martínez Juan

Angkor Wat var svo öllum gleymt þangað til á nítjándu öld þegar franskur landkönnuður rakst á það fyrir tilviljun. Var þetta mikla mannvirki þá kyrfilega falið bak skógi og gróðri. Síðan þá hefur hofið mikilfenglega dregið að sér ferðamenn hraðar en mykja flugur.

Þegar þetta er skrifað heimsækja um 2,4 milljónir erlendra ferðamanna rústir hofsins mikla. Það sirkabát sami fjöldi ferðamanna og heimsækir allt Ísland og eins og gefur að skilja er hér fjöldi fólks alla liðlanga daga allt árið um kring.

Slíkur fjöldi er sannarlega leiðigjarn enda annar hver maður að taka sjálfsmyndir og fimmti hver að búa til sitt eigið myndband um staðinn. Þá hafa helstu ferðaþjónustuaðilar í Kambódíu fattað að ekki þarf að eyða neinu til að heilla erlenda ferðamenn. Þú finnur alls enga vitiborna leiðsögumenn á svæðinu. Þeir lesa allir sem einn upp úr sömu bókinni og stara á þig stórum augum ef það kemur spurning sem ekki er tilgreind í leiðsagnarskólanum.

Það er ekki hægt að heimsækja þennan mikla stað lengur án þess að troða öðrum um tær eða hafa fjölda fólks á myndum en til að fá sem allra mest næði mælum við með heimsókn súpersnemma morguns og slepptu því að fá leiðsögumann með þér. Þeir vita lítið annað en það sem þú getur lesið á netinu.