Skip to main content

S é einhver einn erlendur staður í veröldinni þar sem Íslendingar gætu upplifað sig eins og heima á Fróni þá er það í Færeyjum og ekki síst í höfuðborginni Þórshöfn, Torshavn á frummálinu. Því einu gildir hversu frábrugðin húsin eru eða mállýska heimamanna fyndin og skemmtileg þá svífur íslenskur smábæjarandi yfir húsum í Þórshöfn. Þangað er gott að koma, gott að vera og alltaf nett sorg í hjarta þegar Þórshöfn er yfirgefin.

Sjarminn helgast mikið til líka af ótrúlegu vinfengi borgarbúa gagnvart Íslendingum. Nokkuð sem finnst varla í slíkum mæli á byggðu bóli á Fróni og ritstjórn Fararheill man vart eftir stað þar sem jafn auðvelt er að kynnast fólki.

Við mælum heils hugar og hundrað prósent með dvöl hér.

Sagan í fljótu

Þórshöfn er eðli málsins samkvæmt nefnd eftir þrumuguðinum Þór en fyrstu fregnir af byggð á þessum slóðum eru frá tíundu öld. Varð bærinn strax sá þéttbýlasti á öllum Færeyjum, sem samanstendur af átján stærri eyjum auk hundruða minni skera, og ekki leið á löngu áður en hann varð formlega höfuðborg landsins. Færeyingar komu á þingi eins og við snemma og er Þinganes í Þórshöfn staðsetning þeirra fornu þinga og Lögþings Færeyja enn þann dag í dag. Íbúafjöldi borgarinnar er rösklega 20 þúsund manns.

Til og frá

Aðeins einn flugvöllur er í Færeyjum. Vága flugvöllur liggur skammt utan Þórshafnar á eyjunni Vága og tengist Straumey sem Þórshöfn stendur á með göngum. Um 45 mínútna keyrsla er þar á milli en bæði eru í boði rútur og skutlur auk bílaleigubíla. Ferð aðra leið með Bygðaleiðum kostar 1800 krónur. Séu menn vel stemmdir til að spreða peningum eða margir ferðast saman kostar flugskutlan aðra leið 3600 krónur. Þá eru tvær bílaleigur í flugstöðinni.

Samgöngur og snatterí

Tveir jafnfljótir skila langflestum auðveldlega milli staða í Þórshöfn enda bærinn lítill í alla staði. Sá hluti sem mest heillar ferðamanninn er elsti bæjarhlutinn við höfnina og hann er séður allir á nokkrum klukkustundum.

Enginn skal samt örvænta ef þreyta finnst í fæti. Hér ganga strætisvagnar og það ókeypis. Buss og Skúlaleidin kallast samgönguarmur bæjarins og má sjá leiðakortið hér. Með þeim má fara vítt og breitt þó aðeins séu tvær leiðir í boði.

Söfn og sjónarspil

>> Móttökuhúsið (Móttøkuhúsið) – Á horni Tróndargøtu og Kongagøtu stendur fallegt gamalt hús sem bærinn á og nýtir undir opinberar veislur. Þar eru til sýnis verk færeyska málarans Niels Winther og oftar en ekki aðrar farandsýningar nokkuð reglulega.

>> Norðurlandahúsið (Norðurlandahúsið) – Norræna hús þeirra Færeyinga er skoðunar vert og ekki óalgengt að listaviðburðir fari þar fram. Húsið sjálft afsaplega skemmtilegt og vítt útsýni yfir bæinn. Heimasíðan.

>> Litluvíkursmiðjan (Smiðjan í Lítluvík) – Gömul smiðja nú nýtt sem aðsetur færeyskra listamanna af ýmsum toga. Margt forvitnilega þarna til sýnis og oft hægt að hitta á og kaupa af listafólkinu sjálfu.

>> Listahúsið Snarskívan (Snarskivan) – Færeyingar eru nýtnir og tómt rugl að láta pósthús staðarins standa autt utan vinnutíma. Þess vegna er þetta listahús opið öllum er vilja fremja list af einhverju tagi og ótrúlegt hversu fjölbreytt starfsemi þarna fer fram.

>> Færeyska sjósafnið (Føroya Sjósavn) – Hafið, dýrin og mennirnir sem sjó sækja hér í máli og myndum. Heimasíðan.

>> Náttúrugripasafn Færeyja (Føroya Náttúrugripasavn) – Nafnið segir sig sjálft en safnið stendur við Hammerhaimbsgøtu 13.

>> Fornminjasafn Færeyja (Føroya Fornminnissavn) – Eitt vinsælasta safn Þórshafnar er Fornminjasafnið enda mikið af gömlum munum þar varðveittir. Á það sérstaklega við um muni tengdum sjósóknum heimamanna. Heimasíðan.

>> Listasafn Færeyja (Listasavn Føroya) – Falleg bygging og fallegt safn og segir ekki lítið um þá virðingu sem Færeyingar bera fyrir listinni. Reglulega nýjar sýningar heimamanna sem aðkomufólks. Heimasíðan.

>> Bæjarsafnið (Müllers Pakkhús) – Lítið safn tileinkað sögu Þórshafnar og enn og aftur höfuðáhersla á sjósókn frá bænum.

>> Þjóðarpallurinn ( Meiaríið) – Þjóðarpallurinn er færeyska yfir þjóðleikhús en það er til húsa að Tørsgötu í einu af fallegri húsum bæjarins alls. Hér eru reglulega sett upp hin margvíslegu verk. Heimasíðan.

>> Tónleikahúsið (Reinsaríið) – Lítið tónleikahús opið öllum sem hafa eitthvað fram að færa. Byggingin falleg með mikla sögu sem sögð er á myndrænan hátt á veggjum þess.

>> Lögþingið (Løgting) – Eitt allra merkilegasta byggingin af mörgum fallegum í bænum er hús Lögþings Færeyja á Þinganesi en þar stendur byggingin ein síns liðs. Þar hefur þing Færeyja komið saman síðan á tíundu öld.

>> Dómkirkjan (Havnar kirkja) – Ein best varðveittasta byggingin í Þórshöfn er dómkirkjan atarna.

Til umhugsunar: Einn er sá viðburður í Þórshöfn sem af ber en það er hin árlega Ólafsvaka, eða Ólafsvika eins og hún þekkist hér. Sleppa þá bæjarbúar allir af sér þeim fáu beislum sem til staðar eru dags daglega, dyr húsa standa fólki opnar og kurteisi, vinskapur og glaumur er merki allra. Betri hátíð fyrirfinnst vart í heiminum. Ólafsvakan fer ávallt fram síðustu vikuna í júlí.

Matur og mjöður

Nóg að bíta og brenna í Þórshöfn. Bæði alþjóðlegir staðir með hefðbundnar pizzur og borgara en ekki síður nokkrir staðir sem gera út á heimatilbúinn færeyskan mat.

Verslun og viðskipti

Ekkert er út á verslunarhætti í Færeyjum að setja. Verslanir flestar í eða við gamla bæjarkjarnann en úrvalið ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Helst er að leita fanga í Niels Finsens götu eða verslunarkjarnanum SMS. Verðlag er þó almennt ekki sérstaklega hagstætt Íslendingum.

Líf og limir

Hér eru menn álíka öruggir og í bómullarhnoðra. Stöku handalögmál eiga sér stað yfir Ólafsvöku og eins og gengur og gerist á barnum en ekkert umfram það sem eðlilegt getur talist og snertir ferðafólk sjaldnast.

View Larger Map