Þ ó Péturskirkja Rómar standi sannarlega undir væntingum þegar fólk ber þá byggingu fyrst augum eru líka margir þessi dægrin sem dreymt hefur um að skoða bygginguna og Vatíkanið en fallast hendur þegar á staðinn er komið vegna mannfjöldans sem hér er nánast 24/7 (þegar ekki er faraldur.)

Mannþröng er óneitanlega ekki kjöraðstæður til að njóta Péturskirkjunnar og Vatíkansins.

Auðvelt og eðlilegt á láta hugfallast þegar Péturskirkjutorgið í Róm, Piazza San Pietro, er heimsótt þessa síðustu og verstu.  Sú var tíðin fyrir ekki svo mörgum árum að hingað var hægt að koma, setjast niður við torgið og njóta þokkalega án þess að stíga á mann og annan.

Svo er ekki lengur á neinum tíma ársins. Hér er mannþröng frá morgni til kvölds með tilheyrandi leiðindum og stressi. Svona dálítið 17. júní í Austurstræti en alla daga ársins.

Sök sér að fallegt torgið sé mökkað af fólki. Verra að það er líka raunin ef þig dreymir um að skoða Péturskirkjuna sjálfa eða fræg söfn Vatíkansins. Báðir staðir ALGJÖRLEGA ÓMISSANDI en það getur sannarlega tekið á taugarnar að bíða í þeim löngu röðum sem myndast eldsnemma morguns inn á báða staði. Á annatíma á sumrin getur biðin tekið klukkustundir sem er frekar óspennandi undir brennheitri sólinni.

En það eru alltaf ráð undir rifi ef fólk kynnir sér málin 😉 Hér nokkur trix til að skoða dásemdir Vatíkansins án þess að löng bið sé það eftirminnilegasta við heimsókn.

♦  TRYGGÐU ÞÉR „skip the line“ miða ef þú vilt inn á heimsklassa söfnin í Vatíkaninu. Á vef Vatíkansins kosta slíkir miðar aðeins 600 krónum meira en „venjulegur“ miði en sá fyrri leyfir þér að gefa skít í kílómetra langa biðröðina inn á safnið. Hafið í huga að bóka með löngum fyrirvara og þolinmæði er þörf því vefur Vatíkansins er vægast sagt leiðinlegur og oft hreint og beint niðri. Ef ekkert gengur er á köflum mögulegt að kaupa „skip the line“ miða gegnum ferðaþjónustuaðila, en þá kosta þeir líka þrefalt til sexfalt meira. Almennur miði inn á söfnin kostar rúmar tvö þúsund krónur. Einn mínus þó sá að EKKI er hægt að bóka miða á tyllidögum.

♦  ÞAÐ ER fræðilega hægt að kaupa miða inn á söfnin í miðasölunni við Péturstorgið en sem fyrr er biðin löng og ekki alveg gefið að þú komist að áður en miðasalan lokar klukkan 16. Hér skal kyrfilega hafa í huga að meira að segja flýtirúntur um söfnin tekur sjaldan minna en tvær klukkustundir og allt upp í fimm stundir ef þú ætlar að grandskoða allt sem hér er til sýnis. Á móti kemur að það er fyrirtaks líkamsrækt að rölta í gegnum söfnin. Ef þú skoðar alla króka og kima er labbitúrinn „aðeins“ 7,5 kílómetrar.

♦  ÞAÐ KOSTAR ekkert að skoða Péturskirkjuna sjálfa en raðirnar þangað inn hvern dag tvöfalt lengri en langar raðirnar inn á söfnin. Raðirnar helgast af mikilli öryggisgæslu og auðvitað þurfa allir ferðalangarnir að vera með bakpoka og töskur sem þarf að skanna, opna og loka og svo framvegis.

♦  FRÆÐILEGA SÉÐ er ekki hægt að skoða Péturskirkjuna líka þegar þú kaupir miða á söfnin. Fræðilega þarftu, ef þú ert ekki hluti af skipulögðum túr, að skoða söfnin, halda út á ný og fara í næstu röð inn í kirkjuna. En hér er trix í boði ef þú hefur augun hjá þér. Það er nefninlega fært frá Sixtínsku kapellunni inn í kirkjuna sjálfa sem sparar þér auðveldlega klukkustund hið minnsta. Það er hurðin til hægri um leið og þú kemur út úr Sixtínsku. Sá aðgangur á faktískt eingöngu að vera í boði fyrir skipulagða hópa en tveir úr ritstjórn á mismunandi tímum löbbuðu í gegn vandræðalaust án þess að vera hluti af hópi 🙂

♦  EF SVO vill til að þú ert á ferð hér SÍÐASTA SUNNUDAG í mánuðinum þá er frítt inn á söfnin. En raðirnar eru engu minni.

♦  AÐ SÍÐUSTU er allra besta ráðið að verða sér úti um miða í garða Vatíkansins. Að vor- eða sumarlagi eru þeir einir og sér hrein dásemd en slíkur miði veitir LÍKA forgangs aðgang bæði að söfnunum og kirkjunni algjörlega frítt 🙂  Miðinn gildir þó aðeins samdægurs svo taktu þann dag allan frá fyrir túrinn.