Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi er gamalkunnugt máltæki. Aldeilis ágætt að hafa það hugfast á töltinu í stórborginni Hong Kong.

Yfir 50 tegundir snáka lifa í Hong Kong merkilegt nokk. Bit átta tegunda eru lífshættuleg fólki og þessi græni hér að ofan, bambussnákur, þeirra hættulegastur.

Ekki svo að skilja að þúfur finnist mikið í strætum og á torgum þessarar stórborgar. Þvert á móti eiginlega því hér er allt steinsteypt og malbikað út í eitt og græn svæði í borginni álíka mörg og það er fólk með sómakennd í Miðflokknum.

Það er því ekki nokkur maður mikið að velta fyrir sér hættulegum dýrum í þessum steinsteypufrumskógi. Það slæm mistök. Hong Kong og nágrenni er nefninlega heimili yfir 50 tegunda snáka og átta þeirra eru baneitraðir.

Það kann að hljóma fráleitt að snákar séu mikið að skrölta um steinsteypuheim Hong Kong en raunin er önnur. Snákar, eins og önnur dýr sem lifa í námunda við fólk, hafa lært á hlutina. Þar sem rottugangur hefur ávallt verið vandamál í þessari hafnarborg sem öðrum og rottur og mýs eru eftirlætisfæða snáka má gefa sér að snákar finnast á ólíklegustu stöðum.

Þess vegna leita tæplega 200 manns árlega til neyðarmóttöku vegna snákabita í borginni en heilbrigðisyfirvöld vel að sér um hættuna og mótefni við helsta snákaeitri finnst á öllum sjúkrahúsum borgarinnar. Trixið er bara að komast þangað eins fljótt og hægt er ef einn veðurdag þú ert á röltinu og finnur smá sársauka í fæti. Flest bit eru nefninlega lítils háttar skrámur til að byrja með en hálftíma síðar eru ekki mönnum bjargandi af sársauka.