Það er varla þörf á stórkostlegri kynningu um stærstu eyju Kanaríeyjanna spænsku. Tenerife þekkja fjölmargir sólelskandi Íslendingar og þá sérstaklega hin vinsælu strandsvæði á suðvesturodda eyjunnar. Þá líka er velþekkt hæsta fjall Kanaríeyja og Spánar um leið: eldfjallið Teide sem liggur því sem næst í miðju Tenerife.

Tenerife er ekki aðeins stærsta eyjan í Kanaríeyjaklasanum heldur og sá staður þar sem flestir búa hér um slóðir. Íbúatalan náði yfir 900 þúsund manns árið 2014 en inn í þá tölu vantar fjölda annarra sem eiga hér eignir en eru búsettir annars staðar. Það má því skjóta föstu að hér eigi yfir milljón manns heimili yfir annatíma og þá ótaldir þær tugþúsundir ferðafólks sem eyjuna sækir heim alla daga ársins.

Allir vita að hér er hitastig með ágætum 365 daga á ári eða því sem næst. Stöku rigningardagar geta villst hingað og eins kemur oft fyrir að tindur Teide verður mjallhvítur yfir vetrartímann. Það kemur fólki alltaf á óvart að heyra að hægt er að skíða í hlíðum Teide þegar snjó festir sem gerist nokkuð reglulega.

Engum á hins vegar að koma á óvart að eyjan á sitt að mestu leyti undir ferðamönnum. Fiskveiðar og landbúnaður þar langt á eftir.

Til og frá

Tveir flugvellir eru á eynni. Tenerife Sur og Tenerife Norte. Nöfnin segja sig sjálf. Einn fyrir sunnan og einn fyrir norðan. Sá syðri var eingöngu byggður til að stytta leiðina að vinsælustu áfangastöðum eyjarinnar: Los Cristianos, Playa de las Americas, Costa Adeje og Los Gigantes. Áður fyrr þurfti klukkustundar ferðalag til að komast þangað frá nyrðri flugvellinum. Sá þjónustar nú fyrst og fremst höfuðborgina Santa Cruz de Tenerife og líka eina staðinn á norðanverðri eynni sem trekkir ferðafólk í einhverjum mæli: Puerto de la Cruz.

Frá Tenerife Sur tekur um 30 mínútur að komast til Los Cristianos með flugrútu og um 50 mínútur til Costa Adeje. Hægt er að taka þrjá mismunandi vagna til að komast þangað og til baka en leið 111 er sú fljótlegasta og besta. Sá fer frá flugvellinum á hálftíma fresti alla daga eins og sjá má hér. Stakur miði kostar um þrjár evrur en lækka má þann kostnað með því að kaupa áskriftarkort, bono, sem fæst á flugvellinum. Slíkt kort lækkar miðaverð í strætisvagna um tæplega evru. Fylla má á það kort að vild eftir þörfum og dugar í alla vagna á Tenerife.

Leigubifreið er aðeins fljótlegri en rútan en ekki mikið. 20 til 25 mínútur til Los Cristianos og þar sem kostnaður er vart undir 30 evrum á dagtaxta margborgar sig að taka rútuna nema ef margir ferðast saman.

Á hinn bóginn er Tenerife Norte vænlegri er ferðinni er heitið til höfuðborgar eyjunnar eða Puerto de la Cruz. Frá vellinum tekur um 20 mínútur að rúlla inn í borgina og litlu lengur til Puerto de la Cruz. Lendi fólk þar og þurfi til suðuroddans má hins vegar gera ráð fyrir rúmri klukkustund eða svo.

Bílaleiga er mjög vænlegur kostur á Tenerife en þó aðeins ef ætlunin er að skoða sig rækilega um. Á bílaleiguvef Fararheill, sjá forsíðu, má finna meðalstóra bíla niður í 2.600 krónur per dag hér um slóðir. Umferð getur á köflum orðið nokkur á vinsælum stöðum en ekkert til að hafa áhyggjur af. Allir vegir hér góðir.

Landið og miðin

Þó auðvelt sé að njóta hér sólar og hita og vissulega megi finna hér fagra staði er eyjan öll tiltölulega hráslagarleg ef svo má að orði komast. Landslag alls staðar þurrt og hrjóstrugt og lítt heillandi. Þetta á líklega eftir að versna frekar því úrkoma á Tenerife hefur farið minnkandi ár frá ári um tæplega 20 ára skeið þegar þetta er skrifað.

Loftslag og ljúflegheit

Meðalhitastig á Tenerife á ársgrundvelli er 21 gráða og loftslag helst nokkuð jafnt yfir árið. Verstur eða bestur, eftir því hvernig litið er á það, er ágústmánuður en þá hækkar meðalhiti í 24 gráður. Í janúar hins vegar má búast við að hitamælirinn sýni sautján gráður eða svo að meðaltali.

Hér má líka hafa í huga að hitastig á toppi Teide er allt annað og verra. Það snjóar oft á tindinn og stundum vel niður hlíðar fjallsins og frost algengt yfir vetrarmánuði. Ekki klikka á hlýjum fatnaði ef heimsækja á þann fagra tind.

Verslun og verðlag

Tenerife er eins og aðrar Kanaríeyjur á sérstökum undanþágum frá skattayfirvöldum. Þetta er ekki skattaparadís eins og margir halda því hér eru vörur skattaðar en þó aðeins lítillega. Fyrir vikið er verðlag á vörum hreint frábært. Ágætt að hafa í huga að verðlag í höfuðborginni er yfirleitt undantekningarlaust lægra en á sömu vörum á ferðamannastöðunum.

Að sama skapi er rétt að hafa í huga að verulegur verðmunur getur verið á gistingu líka. Fararheill reiknast til að það sé allt að 25% verðmunur á gistingu á fjögurra stjörnu hótelum í Santa Cruz de Tenerife og Puerto de la Cruz norðantil en á sams konar gistingu í suðurhlutanum. Langi fólk til langdvalar án þess að kosta of miklu til er þjóðráð að hafa þetta í huga.

[/vc_message]