Í slenskur orðaforði leyfir vart að gera Sintra og nágrenni skil svo vel sé. Það helgast af því að bærinn sjálfur, umhverfið allt, konungshöllin og mikilfenglegt virkið sem gnæfa hátt yfir bænum á fjallinu Lua og aðrar sérdeilis merkilegar byggingar á víð og dreif við bæinn eru annaðhvort svo stórfenglegar eða stórkostlega undarlegar að orð fá því ekki vel lýst.

Skáldið orðheppna Byron lávarður var hér á ferð á átjándu öld og skrifaði í bækur sínar í kjölfarið að „líklega væri Sintra í öllu tilliti yndislegasti staður í Evrópu.“ Byron bætti um betur í frægu ljóði sínu um Harold pílagríma og kallaði Sintra Eden á jörð. Nú öllu síðar hefur ekkert fallið á fegurðina.

Hæðirnar hér í Sintra voru einmitt fyrsti staðurinn í allri Evrópu sem samþykktur var sem verðugur arfur mannkyns og settur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 1995. Það var vel til fundið og gefur kannski  ákveðnar vísbendingar um hvers lags staður þetta er. Ólíkt mörgum öðrum merkisstöðum sem á þann lista komast gilti það ekki aðeins um mikla fegurð Sintra fjalla heldur og þau menningarlegu verðmæti sem hér má finna. Þar er af nógu að taka.

Ef eitthvað er hægt að setja í mínuskladdann er það nálægðin við höfuðborgina Lissabon. Hingað tekur tæpar 30 mínútur að fara með lúinni lest og allt niður í 20 mínútur á hraðskreiðum bíl. Það merkir að hér er allt of mikið af ferðafólki á annatímum og þeir sem í því lenda njóta staðarins minna en ella og stundum alls ekki.

Sökum þess hve Sintra er lítill en trekkir duglega er verðlag hér fjandanum hærra.  Matur og drykkur og jafnvel strætisvagn bæjarins er mun dýrari en til dæmis í höfuðborginni sjálfri. Kostar miði með strætó hér um slóðir um 900 krónur svo dæmi sé tekið. Til þess verður þó að líta að sá strætisvagn fer upp og niður æði stórfenglegar götur Monte da Lua og stoppar hjá stórmerkum byggingum á borð við Máravirkið og konungshöllinni Palacío Nacional da Pena.

Frá báðum stöðum er útsýnið á góðum degi aldeilis stórkostlegt með stóru ESSI. Sjá má langt eftir strönd Portúgal bæði til suðurs og norðurs og þegar skyggni er gott æði vel yfir til Lissabon og nágrannabæi.

Til umhugsunar: Það er æði vel þess virði að lesa sér til um Sintra áður en hingað er komið. Sagan er stórmerkileg og til marks um hið „dularfulla“ sem er hér í loftinu og margir finna fyrir nægir að geta þess að það fyrsta sem Rómverjar gerðu þegar þeir náðu hingað var að kalla staðinn Cyntia í höfuðið á þeirri guðdómlegu veru sem mánans gætti. Og ávallt þurfti mikið til að Rómverjar tækju mark á hjátrúarfullum heimamönnum hvar sem þeir komu.

Til og frá

Sintra er smábær og sem slíkur er hér enginn flugvöllur sérstakur. En æði auðvelt er að skauta hingað með lestum frá Lissabon sem ganga daglega á milli og það mörgum sinnum. Yfir sumartímann fara lestir á milli á fimmtán mínútna fresti frá Rossio lestarstöðinni yfir daginn og á hálftímafresti á kvöldin. Tekur túrinn rúman hálftíma hvora leið. Yfir veturinn fara lestirnar á hálftíma fresti á milli. Miðaverð fram og aftur er kringum 700 krónum á einstakling.

Einfalt er sömuleiðis að fara á milli með bíl hafi fólk slíkt til umráða. Utan háannatíma er komist á milli á rúmum 20 mínútum en það lengist töluvert ef umferð er þung.

Til umhugsunar: Æði vinsælt er líka fyrir þá sem gista á nálægum ströndum að koma hingað frá Praia das Maçãs en þaðan gengur eldgamall uppgerður sporvagn til og frá yfir sumartímann.

Samgöngur og skottúrar

Bærinn Sintra er mjög lítill og hér engar strætisvagnasamgöngur. En sá er gallinn að bærinn er líka hæðóttur í meira lagi þannig að fólk er meira og minna alltaf að labba upp götur eða niður.

Það er þó vagn sem fer á fimmtán mínútna fresti hring í bænum og upp hæðina að kastalanum og gamla virkinu. Sá vagn, númer 434, er meira túristavagn en strætisvagn sem er ástæða þess að miðaverð er um 750 krónur á mann. Vagninn er bráðnauðsynlegur til að komast upp á hæðirnar sem eru bæði brattar og langar. Ætli fólk að ganga alla leið að kastalanum fagra, svo dæmi sé tekið, tekur það allt að því klukkustund og mestan hluta vel upp í mót.

Annar vagn, líka túristavagn, númer 435, selflytur fólk um bæinn yfir hádaginn en sé fólk í sæmilegu formi ætti þess varla að þurfa.

Svo er aldeilis í góðu lagi að veifa leigubíl ef þvælast á aðeins um. Túrarnir svo stuttir að það setur engann á hausinn.

Til umhugsunar: Ef komist er hjá því ekki heimsækja Sintra yfir helgar. Þá eru hér einfaldlega allt, allt of margir og vesen í umferðinni og að komast inn á veitingastaði, bari og jafnvel raðir í túristavagnana.

Söfn og sjónarspil

>> Máravirkið (Castelo do Muoros)  –  Á einni hæðinni hér yfir bænum stendur ævafornt virki sem Márar byggðu hér eftir að þeir gerðu hér strandhögg og náðu tímabundið völdum á svæðinu.  Smíðinni lauk snemma á 9.öld en vart var síðasti steinninn kominn á sinn stað en Márar þurftu að hörfa frá herjum Afonso Henriques, fyrsta konungs Portúgal, sem um leið lýsti eign sinni á virkið. Márarnir reyndar náðu virkinu aftur einu sinni áður en þeir voru hraktir á braut endanlega. Frá veginum er dágóður spotti upp á virkistoppinn og nokkuð príl upp bratta stigi í virkishúsinu sjálfu en þaðan er dásemdar útsýni. Virkið opið skoðunar alla daga frá 10 til 18. Miðaverð 900 krónur.

>> Pena höllin (Palácio Nacional da Pena)  – Pena höllin er ekki lítið mikilfengleg. Hún stendur á næsta tindi við virkið í svipaðri hæð og er ein af fáum byggingum í landinu öllu sem byggð var í rómantískum byggingarstíl. Megnið af höllinni er opin gestum og þar má finna margvíslega muni frá íbúum þess á fyrri tímum. Skoðunarferð um hana alla tekur um 30 mínútur og er þess virði. Þar er einnig lítil verönd þar sem veitingar eru á boðstólnum og útsýnið ómetanlegt. Ekki síst fyrir þá sök að þaðan sést hvað best þær mismunandi tegundir trjáa sem standa fyrir neðan en fyrirmenn höfðu fyrir því fyrir mörgum öldum að flytja inn tugir tegunda trjáa sem ekki fundust í Portúgal og gróðursetja þau í Sintra. Tala heimamenn enda um að ekki finnist grænari staður í landinu öllu. Hallargarðinn er auðvitað hægt að skoða líka en gefa skal sér góðan tíma því sá er stór og þar er inn á milli hin stórkostlegustu sumarhýsi. Allnokkrar Hollywood kvikmyndir hafa verið teknar í garðinum. Opið daglega 10 – 18. Aðgangseyrir 1.500 krónur.

>> Monserrate höllin (Palácio de Monserrate)  –  Þessi ágæta bygging var varla byggð fyrr en fyrirmenni og konungbornir gerðu hana að sinni og eðlilega því hér var ekkert til sparað. Portúgalar byggðu höllina reyndar fyrir breskan aðalsmann sem þeir gerðu að markgreifa og gerðu hana undir töluverðum íslömskum áhrifum eins og augljóst er þegar rölt er þar í gegn. Fallegur staður og ekki er garðurinn í kring mikið ómerkilegri. Opin 10 til 18 alla daga. Greiða þarf 900 krónur til að skoða bæði garðinn og höllina.

>> Regaleira höllin (Quinto do Regaleira)  –  Þó Monserrat höllin sé fjarri því slor þá fellur sú steindauð í skuggann á þessari höll hér skammt frá. Þessi gengur undir nafninu Höll Monteiro milljarðamærings eftir manninum sem hana byggði en þetta er svo miklu meira en höll að engu tali tekur. Höllin sjálf er öll í rómantískum stíl og ekkert minna en stórglæsileg. Þar innandyra er kapella ein ekki síður glæsileg. En þá er varla hálf sagan sögð því garðurinn hér í kring er listaverk frá a til ö. Það hljómar klisjulega að segja að hlutir séu ævintýralegir en í þröngum stígum meðfram þykkum skógi og plöntum Regaleira garðsins er það bara staðreynd. Í garðinum má finna allmarga yndislega gosbrunna og tvö lítil vötn gerð af manna höndum. Og við erum ekki einu sinni farin að tala um neðanjarðargöngin sem hér er að finna undir öllu. Ótrúlegur staður sem minnir allra helst á kvikmyndir Tim Burton. Það er alls engin tilviljun að allir helstu ferðavefir heims segja Regaleira höllina og garðinn merkilegasta stopp í Sintra. Opið 10 til 17 yfir vetrartímann en 10 til 20 á sumrin. Aðgangseyrir 900 krónur. Heimasíðan.

>> Setaeis höllin (Palácio de Seteais)  –  Enn ein höllin í Sintra og nánast gengt Regaleira höllinni nema þessi er æði mikil um sig og gæti nánast kallast kastali með sínum miklu veggjum. Ólíkt öðrum höllum hér er þessi í einkaeigu og rekin sem lúxushótel. Hana er þó hægt að skoða að vissu marki og enginn verður vonsvikinn að eyða tíma til þess. Hér er útsýni ekkert minna en stórkostlegt og hér er í ágúst haldin ein allra þekktasta danshátíð Portúgal Noites de Bailado. Opin allan ársins hring. Heimasíðan.

>> Capuchos klaustrið (Convento dos Capuchos)  –  Í algerri mótsögn við allar þær stórkostlegu byggingar sem í Sintra finnast kemur svo Capuchos klaustrið. Á engan hátt ljót bygging en hér var minimalismi í hávegum hafður og aldeilis skrýtin tilfinning að labba um ganga og herbergi þröngari en nálaraugað til himnaríkis og allt hoggið í stein. Þá er og merkilegt að hér er plastkorkur í hólf og gólf og svo mikið af honum að klaustrið er meðal heimamanna kallað korkklaustrið. Korkurinn settur til að skapa betri hljóm í húsinu. Merkilegur staður. Opið 10 til 17 alla daga ársins. Aðgangseyrir 800 krónur.

>> Konungshöllin (Palácio Royal)  –  Efist einhver ennþá um hversu merkilegur staður Sintra er þá segir kannski ýmislegt að sjálf Konungshöllin er fjarri því meðal fegurstu bygginga hér um slóðir. Ekki þar fyrir að neinn hafi ekki verið sæmdur af því að gista hér en hún fellur mjög í skuggann. Plúsinn þó að hún er í bænum sjálfum og mjög áberandi með sína tvo keilulaga turna. Höllin sú er byggð í hinum ýmsu stefnum og er ekki mjög falleg en innandyra er eitt allra merkilegasta safn handgerðra flísa sem fyrirfinnast í Portúgal. Eðalfínt safn að skoða. Opin 

>> Leikfangasafnið (Museu de Brinquedo)  –  Við Rua Visconte Monserrat götu í Sintra er að finna æði merkilegt leikfangasafn sem vel er þekkt er í Portúgal. Þar er gaman að koma inn og vitna fjölda fjörgamalla leikfanga sem þó líta út fyrir að hafa komið úr jólapakkanum fyrir stuttu. Eigandinn byrjaði að safna leikföngum fjórtán ára gamall og er enn á vappinu hér í hjólastól enda kominn vel á aldur. Skemmtilegt og töluvert frábrugðið öðru því sem í Sintra má skoða. Opið 10 til 17 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.

>> Teixera safnið (Museu Anjos Teixeira)  –  Það þarf ekki lengi að rölta um Sintra áður en fólk rekst fyrirvaralítið á glæsilega skúlptúra og styttur að því er virðist hér og þar. Þær tilheyra þó allar þessu safni hér og allir gjörningar hér eftir tvo bræður, Artur og Pedro, sem þekktir eru og vinsælir í heimalandinu. Safnahúsið sjálft stendur við Azinhaga de Sardinha og er opið daglega 12-18 nema mánudaga. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Castro safnið (Museu Ferreira de Castro)  – Heimili eins helsta skálds Portúgal sem var þjóðþekktur meðal annars fyrir harkalega mótstöðu gegn Salazar einræðisherra á tímum þegar slíkt gat auðveldlega kostað mann lífið. Fróðlegt fyrir heimamenn en kannski minna fyrir erlenda ferðamenn. Opið daglega 10-18 nema mánudaga. Rua Consiglieri Pedroso. Frír aðgangur. Heimasíðan.

Matur og mjöður

Sökum þess hve Sintra er lítill er ekki úr helling að velja í mat og drykk og flestir staðir sem slíkt bjóða dýrari en gengur og gerist í höfuðborginni skammt frá. Allra besti staðurinn er í fokdýru lúxushóteli, Penha Longa, en þar innandyra eru líka einir fjórir fyrsta flokks staðir. Tveir þeirra reknir af stjörnukokkum. Þeir eru hinn japanski Midori og Arola með áherslu á portúgalska rétti. Þar er líka hægt að eyða nótt en allra ódýrasta herbergi á lágannatíma fæst vart undir 40 þúsund krónum.

Verslun og viðskipti

Nei. Hér er lítið af verslunum og þær fáu dýrar. Mun hagstæðara að kaupa vörur í Lissabon.

Líf og limir

Einna helst eru það þreyttir bílstjórar sem hér eru pirrandi enda væntanlega pirrandi fyrir bæjarbúa þessi eilífi fjöldi ferðafólks. Fátt annað hér er að óttast þó alltaf skuli hafa varann á sér alls staðar.