Fólk sem dvelur langdvölum á Kanarí ætti að þekkja til San Agustín. Það heitir svæðið til austurs af Playa del Inglés, Ensku ströndinni, en það svæði hefur vaxið hratt og mikið upp á skömmum tíma.

Sá uppgangur hófst þó ekki að ráði fyrr en að landsvæði á Ensku ströndinni fór að verða takmarkað en hóteleigendur eru ætíð á höttunum eftir fleiri og betri svæðum undir gistihús, hótel eða verslanir.

Það sem tafði uppgang San Agustín var sú staðreynd að sú fallega strönd sem liggur frá Playa del Inglés og niður til Maspalomas nær ekki hingað nema að litlu leyti. Ströndin hér er annaðhvort svartur sandur eða beinlínis steinfjörur. Sá guli sandur sem þó er hér var að hluta fluttur hingað af mannahöndum.

Skemmst er frá að segja að fljótt og örugglega tryggðu hótel sér besta landið við sjó eða nálægt sjó og nú er svo komið að byggð hafa verið hótel töluvert upp af ströndinni líka. San Agustín er smátt og smátt að breiða úr sér og nánast allt eru það verslunarhúsnæði, leiguíbúðir eða hótel.

Ekkert er merkilegt hér að sjá né gera og ekkert hefur San Agustín framyfir Playa del Inglés. Nema ef vera skyldi að hér er öllu rólegra. Meira næði, minni umferð og hávaði ekki vandamál.

Ekki svo að skilja að umferð og hávaði sé stórt vandamál á Playa del Inglés en þó geta komið stundir þar sem friður er lítill. Sérstaklega er erfitt að fá næði á ströndinni.

Annar lítill plús er sá að gisting hér í San Agustín, er heilt yfir aðeins ódýrari en á nágrannaströndinni. En það auðvitað helgast af því að hér er spottakorn í það líf sem finnst á ensku ströndinni. Þangað tekur þó ekki nema fimm til tíu mínútur að skjótast með leigubíl og litlu lengur með strætisvögnum sem fara reglulega á milli.