Í flokkinn fallegustu bæir á Kanarí leikur lítill vafi á að smábærinn Puerto de los Nieves á vesturströnd eyjunnar kemst kyrfilega á þann lista.

Puerto de los Nieves þýðir Snjóhöfnin í grófri þýðingu og það vekur upp æði margar spurningar því þetta er jú strandbær á Kanarí þar sem snjór er jafn sjaldséður og Geirfuglinn. Nafnið engu að síður staðreynd en ekki liggur alveg ljóst fyrir hvað snjór kemur málinu við. Líklegt er að það tengist nálægðinni við hrikalega kletta og fjöll hér í seilingarfjarlægð. Fjöll sem eru nógu há til að þar falla snjókorn endrum og sinnum.

Þrátt fyrir alvarlegt snjóleysi er Puerto de las Nieves krúttlega sætur bær. Bær reyndar of mikið því þetta er meira þorp en bær. Þetta er bærinn þaðan sem áætlunarferja siglir yfir til Tenerife einu sinni til tvisvar alla daga og sú starfsemi hefur gefið bænum vítamínsprautu í formi ferðafólks. Margir reyndar gera þau mistök að kalla þetta Agaete en það er annar bær nokkuð ofar á svipuðum stað.

Fyrir utan þær vinsældir sem ferjuhöfnin hefur fært þessu litla þorpi er tvennt hér sérstaklega yndislegt. Fyrir það fyrsta er þetta einn allra besti staðurinn á Kanarí til að fylgjast með sólarlaginu. Það ekkert venjulegt sólarlag heldur sökum þess að nánast þráðbeint til vesturs af bænum rís hæsta fjall Kanaríeyja, Teide á Tenerife, og sá tindur enn fallegri en ella þegar sólin lýsir hann upp í bakgrunni.

Hin orsök frægðar Puerto de los Nieves tengist fingri Guðs, hvorki meira né minna. Fingur Guðs, dedo de Dios, var klettadrangur einn stór og mikill skammt frá höfninni. Klettadrangur hvers toppur minnti mjög á risastóran fingur sem benti til himins. Það aftur kom Puerto de las Nieves á kortið meðal heimamanna enda er guðstrú sterk hér sem annars staðar á Spáni. Fingur Guðs var því tekinn bókstaflega af stórum hópi fólks.

Allt er það hið besta mál nema hvað að ferðaþjónustuaðilar hér á eynni auglýsa enn þann dag í dag hve mikið undur Fingur Guðs nú sé og ómissandi að sjá í eigin persónu. Sem er ekkert annað en svik og prettir því hinn frægi fingur féll í sjó niður í miklum stormi hér árið 2005. Drangurinn stendur ennþá vitaskuld en sá ekkert merkilegri en næsti drangur. Fingur Guðs heyrir hins vegar sögunni til.

En þá er saga Puerto de las Nieves ekki öll sögð. Þorpið litla er æði fallegt. Strandlengjan grýtt en sömuleiðis heillandi og aðalgata þorpsins, Paseo de los Poetas, er eðalfín til rölts og ráðagerða. Nokkur fjöldi ágætra veitingastaða finnast hér og allir bjóða þeir glænýjan fisk. Nokkuð sem ekki er of algengt á Kanarí lengur. Hér er líka hægt að sóla sig og jafnvel hoppa út í sjó þó ekki séu hér kjöraðstæður sökum mengandi ferjuhafnarinnar skammt frá.

Alveg sannarlega staður til að eyða tíma sé fólk á ferð um eynna. Bærinn fallegur og beint til suðurs taka við fjallgarðar sem meira að segja vönu fólki frá Íslandi finnst mikið til koma. Svo auðvitað þetta klassíska að taka ferjuna yfir til Tenerife dagsstund eða tvær.