Þ að hljómar kannski kjánalega að segja en Portúgal á sínu eigin litlu Kanaríeyju ef svo má að orði komast. Eyju þar sem sólar nýtur við nánast jafn lengi og á hinum spænsku Kanaríeyjum til suðurs. Eyju þar sem gullinn fallegur sandur skreytir stóran hluta strandlengjunnar og ákaflega auðvelt er að njóta lífsins til fulls.

Hún heitir Porto Santo, Heilaga höfnin, og finnst rúmlega 40 kílómetra til austurs af Madeira. Hún er afar lítil og rýna þarf vel í kort til að finna hana. En fyrir sóldýrkendur er þetta paradís á jörð af mörgum orsökum. Nafnið er tilkomið vegna þess að sá fríði flokkur sem eyjuna fann á sínum tíma hafði gefið upp alla von á að bjargast þegar skip þeirra löskuðust í miklum stormi. Eyjan bjargaði lífi þeirra og þar sem Portúgalar eru trúaðir með afbrigðum fékk eyjan þetta nafn.

Helst er að nefna að þó lítil sé er hér bæði að finna fimm stjörnu sandströnd við lítinn en afskaplega þægilegan bæ þar sem þjónusta er takmörkuð en alls nægileg fyrir gott frí. Hér líka norðanmegin er ströndin klettótt mjög og falleg og þar fá náttúruunnendur ágætan skammt fyrir sinn snúð. Auðvelt er að fara um allt hér og leiði þarf ekki að sækja neinn heim sem hér dvelur. Hér er líka landslag og lítið fjalllendi svona til að setja punktinn yfir i-ið.

Bærinn hér, Vila Baleira, er frægur fyrir að hafa verið raunverulegt heimili landkönnuðarins Kristófers Kólombusar um tíma en karlinn er eins og flestir vita í miklum metum hér um slóðir allar. Safn honum tengt er hér að finna. Hér er þó glæsileg ströndin aðal aðdráttaraflið en þó aðeins að litlu leyti fyrir erlenda ferðamenn. Fólkið sem hingað kemur fyrst og síðast kemur frá systureyjunni Madeira. Porto Santo er því nokkurs konar sumarleyfisstaður fyrir auðugari íbúa Madeira.

Til og frá

Það er ekki alveg gefið að komast hingað. Þó er flogið hingað fjórum sinnum daglega frá Madeira og yfir sumartímann eru flugferðir frá Lissabon í boði líka. Með fyrirvara má fá flug til og frá undir 20 þúsund krónum frá Madeira.

Hin leiðin er ferja sem fer daglega á milli Madeira og Porto Santo. Það er rúmlega tveggja stunda sigling en ferjan er góð og sjóleiðin gefur miklu betri tilfinningu fyrir fegurð bæði Madeira og Porto Santo. Algengt verð með ferjunni báðar leiðir er um tólf þúsund krónur á mann en nokkuð reglulega, og sérstaklega yfir vetrartímann, bjóðast sértilboð niður í sjö til átta þúsund krónur. Með ferjunni er hægt að fara dagsferðir ef tími er takmarkaður.

Eftir að til Porto Santo er komið þarf ekki langan spöl að fara til að komast í bæinn eða ströndina. Fræðilega tekur aðeins 30 mínútur að labba frá flugvellinum og inn í Vila Baleira. Skemmtilegra þó að taka leigara eða skutlu sem nóg er af hér og þá ertu komin á hótel á rúmum tíu mínútum eða svo.

Loftslag og ljúflegheit

Hér er allt í þessu glimrandi.  Meðalhitastig yfir vetrartímann fimmtán gráður en skoppar upp í 22 gráður sumarmánuðina. Sjórinn hér alltaf fínn kringum sautján til tuttugu gráðu heitur.

Að því sögðu þá er Porto Santo á Atlantshafinu og endrum og sinnum þyrlast þar upp stormar og óveður. Þá getur takmarkað sést til sólar yfir hörðustu vetrarmánuðina og á strandstað sem þessum, þar sem annað úrval afþreyingar er takmarkað, skiptir það máli

Söfn og sjónarspil

Ekki verða menn mjög kúltúrsinnaðir á Porto Santo. Þó hér hafi verið byggt frá árinu 1419 er lítið eftir af mjög gömlum byggingum. Þær sem þó eru hér hafa verið endurbyggðar að hluta eða öllu leyti.

>> Kastalatindur (Pico Castelo)  – Hæsta tindur fyrir ofan bæinn er Kastalatindur. Svo nefndur sökum þess að þar stendur lítið virki sem verja átti bæinn og eyjuna fyrir sjóræningjum á sínum tíma. Hægt að aka upp á tindinn en margir kjósa að labba. Útsýni ágætt eins og gefur að skilja en virkið sjálft er ekki ýkja spennandi ásjónar. Fallbyssan sem hér er er þó upprunaleg og var raunverulega notuð fyrir rúmum fimm hundruð árum síðan. Ágætt að muna að hér er útigrill sem allir mega nota svona ef þig langar að staldra aðeins við og njóta matar og útsýnis.
> Palmeiras garður (Quinta das Palmeiras)  –  Ólíkt Madeira er Santo Porto ekki græn eyja í neinum skilningi. Allt hér fremur þurrt og á pari við Kanaríeyjur. Ein undantekning á því er þessi græni garður þar sem mikill fjöldi fugla hefur komið sér fyrir í opnum búrum. Garðurinn, sem er allrar athygli verður er vel frægur meðal eyjaskeggja því eigandinn eyddi áratugum að byggja hann upp og rækta. Flott stopp og sérstaklega fyrir fuglaáhugafólk.
>>  Cardina safnið (Museo do Cardina)  –  Annað ágætt en lítið safn sem er ávöxtur eins manns er Cardina safnið við Estrada Domingo de Ornelas. Hér hefur einyrki safnað saman merkilegum sögulegum minjum um bæinn og eyjuna og þess utan skorið hagmannlega út hin ýmsu verk er eyjunni tengjast úr við. Karlinn lætur ekki þar við sitja heldur bruggar sín eigin vín og þau geta gestir fengið að prófa líka ef áhugi er á. Skemmtilegt stopp.
>> Heimili Kólombusar (A Casa Colombus)  –  Ýmsir aðilar stæra sig af heimsóknum og eða langdvölum Kólumbusar. Þar á meðal Kanarí þó aldrei hafi sannast óyggjandi að karl hafi stoppað þar. Það er hins vegar óumdeilt að það gerði hann á Porto Santo og hann gerði gott betur. Hann gifti sig hér á eynni og bjó hér um tíma. Um það og margt annað um karlinn má fræðast á þessu safni sem sagt er í sama húsi og hann bjó. Það þó tóm steypa enda sú bygging löngu horfin. Engu að síður forvitnilegt. Heimasíðan.

Matur og mjöður

Enginn skyldi óttast skort á neinu við dvöl hér. Hér eru allnokkur hótel af ýmsum gæðaflokkum og eðli málsins samkvæmt þarf fólk að borða. Tæplega 60 veitingastaðir finnast á eynni en flestir eru reyndar aðeins opnir yfir sumartímann og flestir líka aðeins litlir heimilislegir veitingastaðir.

Ágæt afþreying

Fyrir utan að liggja eins og skötur og sleikja sól á fimm stjörnu sandströnd er töluvert annað hægt að bralla á Porto Santo. Nokkur fyrirtæki bjóða skoðunarferðir um eyna og minnst hálfur dagur fer í slíkt. Helst er áhrifamikið að sjá klettótta norðurströndina þar sem ágangur sjávar hefur skorið til hinar ýmsu kynjamyndir í bergið.

Hægt er líka yfir sumartímann að fara bátsferð út í þær tvær minni eyjur eða kletta sem eru rétt úti fyrir Porto Santo. Þær aðeins pínulitlar og enginn hér nema fuglar en héðan flott útsýn yfir sandstrandlengju Porto Santo.

Hér líka skammt frá bænum finnst eini golfvöllur eyjunnar. Sá var einn sá síðasti sem stórkylfingurinn Seve Ballesteros hannaði áður en hann lést. Porto Santo Golfe er góður völlur og ekki of erfiður fyrir háforgjafarfólk.

Sömuleiðis er í boði að fara í skoðunarferðir út á sjó. Hér þvælast um stöku hvalir og höfrungar og kunni fólk köfun er hér fínt að eyða tíma í sjónum.