Þ að má leita töluvert lengi að smábænum Porto Cristo á listum yfir vinsæla strandstaði á Mallorca á Spáni. Ástæðan einfaldlega sú að þessi litli bær er einn af fáum á eynni sem ekki gerir sérstaklega út á ferðamenn.
Porto Cristo er staðsettur á austurströnd Mallorca í um 15 mínútna fjarlægð til suðurs frá Sa Coma og í klukkustundar fjarlægð frá höfuðborg eyjunnar Palma. Hann er vinsæll meðal þeirra sem vilja ekki sjá villt strandlíf eða diskótek á hverju horni heldur kjósa fremur rólegheit og afslöppun. Ein undantekning er þó á þessu. Örskammt frá bænum er að finna Cove de Drac eða Cuevas del Drach sem eru gríðarstórir dropasteinshellar og í botni þeirra eitt stærsta neðanjarðarvatn heims að því að talið er. Sannarlega heimsóknar virði.
Ströndin hér er með ágætum og enn má sjá fiskimenn að störfum hér við kajann. Einhverjum kann að finnast það lítt merkilegt en staðreyndin er sú að frá nánast hverjum bæ hér fyrir 40 árum var stunduð útgerð af einhverju taginu. Aðeins eru nokkrir slíkir staðir eftir meðan ferðafólk hefur tekið yfir hina. Heillandi ef þú vilt okkar álit.
Hitt er svo að þó auðvitað sér hér barir og hótel eins og gengur er úrval afþreyingar lítið sem ekkert. Þetta er eingöngu fínt fyrir fólk sem vill slaka á undir sólinni og labba meðfram ströndinni en annars konar dúllerí er vandfundið. Sem útskýrir líka hvers vegna barnafjölskyldur eru hér ekki algengar. Mest er af miðaldra hjónum sem koma hingað einmitt til að losna við barnaskara og læti.
Nafn Porto Cristo er athyglisvert en það útleggst sem Höfn Krists. Nafnið er sagt tengjast því að fyrir margt löngu strandaði hér bátur sem flutti stóran kross. Krossinn sá fór aldrei lengra og bærinn dró nafn af því.