H inn hefðbundni Íslendingur tengir eflaust Nuuk við djúpar lægðir og leiðindaveður enda hófust vart veðurfréttir hér lengi vel án þess að krappar lægðir sunnan eða austan við Nuuk kæmu við sögu.

Þessi höfuðborg Grænlands er þó öllu meira spennandi en veðurfregnir liðinni ára gætu hafa gefið til kynna. Með tæplega fimmtán þúsund íbúa er Nuuk fjölmennasti staðurinn á þessari stærstu eyju heims og jafnframt elsta byggð í landinu. Hér býr fjórðungur allra sem Grænland byggja og hér eru stofnanir landsstjórnar Grænlands.

Nuuk gengur einnig undir danska nafninu Godthåb, Vonarhöfði, og var það notað áður en Dönum datt í hug að veita Grænlendingum únsu af sjálfsstjórn. Margir Danir nota enn það nafn og fjörður sá er Nuuk stendur við er ennþá Godthåbfjord. Sá fjörður er hvorki meira né minna en annar stærsti fjörður í veröldinni.

Sjálfur er bærinn meira forvitnilegur en beint fallegur eða skemmtilegur. Einna helst er elsti hluti hans í austurhlutanum sjarmerandi og þar má ennfremur finna lítill markað með fiskmeti, Þjóðminjasafn Grænlands sem er sannarlega skoðunar virði svo ekki sé minnst á húsnæði og kirkju sem Hans Egede byggði en sá byggði hér fyrstur manna . Þar er ennfremur stytta honum til heiðurs. Skammt hér frá er kúltúrsafnið Katuaq þar sem merkilega fjölbreytt menningardagskrá fer fram.

Hér er einn flugvöllur í fjögurra kílómetra fjarlægð frá bænum. Mittarfik Nuuk er lítill en dugar til fyrir flestar smærri vélar.

Þar sem bærinn stendur við sjó verður ekki eins kalt hér og margir halda en hitastig nær heldur aldrei almennilegum hæðum þó hásumar sé. Fer hitastig á veturna sjaldan niður fyrir mínus fimm gráður en nái hitinn tíu stigum á sumrin er nánast hitamet slegið.

Þótt Nuuk sé lítill þá er töluvert úrval í boði fyrir gesti og gangandi. Nokkur ferðaþjónustufyrirtæki eru á staðnum og veita ýmsa þjónustu. Bátsferðir, kanósiglingar, jöklagöngur, veiðar, útsýnisflug og annað er í boði en hafa skal í huga að prísinn er nokkuð brattur almennt. Stöku einstaklingar selja ferðamönnum handunna muni og vörur en Grænlendingar eru miklir hagleiksmenn samanber kajaka þeirra sem þykja bera af öllum nútíma útgáfum þó aðeins sé notuð trégrind, selsskinn og reipi til smíðarinnar.

Ein fjögur félög starfrækja bátsferðir héðan. Tvö þeirra með ferjum til annarra bæjarfélaga og tvo reka smærri báta til hvala- og jöklaskoðana. Arctic Umiaq skipafélagið býður ferjusiglingar bæði til suðurs og norðurs héðan en það er að mati margra eina almennilega leiðin til að uppgötva Grænland.

Til umhugsunar: Sökum hræðslu við of mikinn kulda koma langflestir ferðamenn aðeins hingað í júlímánuði og sé ferðast á þeim tíma er ráð að tryggja sér gistingu og ferðir með fyrirvara. Á öðrum tímum er ólíklegt að komast ekki að.

Ferðamönnum hér býr engin hætta sérstök af neinu. Það versta sem ferðamenn lenda í eru drukknir Grænlendingar en nokkra bari er hér að finna. Á einum þeirra, Godthåb Bryghus, er hægt að bragða allgóðan heimabruggaðan grænlenskan bjór.

Þó bærinn sé lítill er mikill hugur í fólki hér. Af því tilefni hefur bærinn stofnað til tveggja forvitnilegra atburða sem vert er að sjá eða taka þátt í. Annars vegar Snjólistahátíð Nuuk, þar sem þáttakendur keppa um besta og fallegasta snjóskúlptúrinn, og hins vegar hið árlega Nuuk maraþonhlaupið en óvíða í heiminum er hægt að taka þátt í slíku við jafn tilþrifamiklar aðstæður. Það hlaup hefur verið haldið árlega um langa hríð en þegar þetta er skrifað hefur hlé verið gert á.

Þá ætti enginn að heimsækja Nuuk né aðra staði á Grænlandi án þessa að prófa mat heimamanna. Í Nuuk eru tveir veitingastaðir sem sérstaklega elda að hætti heimamanna. Það eru Nipisa og Sarfalik og hægt að mæla með báðum.