H ótelið í Cagliari á Sardíníu var á besta mögulega stað í miðbænum. Herbergið allsæmilegt miðað við peninginn og okkur fannst allt í lagi að punga út 1400 krónum aukalega per haus, 2800 á hjónakornin, fyrir morgunmat daglega. En á okkur runnu nokkrar Grímur Thomsens þegar við kíktum á kaffihús í sömu götu.

Kaffi, ávaxtasafi, croissant, jógúrt og álegg eftir þörfum er í boði á flestum hótelum heimsins, En er verðlagningin eðlileg?
Þetta er dálítið klassík spurning fyrir þau okkar sem elska ferðalög en eiga ekki feita falda sjóði í skattaskjólum eins og Júlíus Vífill Ingvarsson. Eigum við að taka morgunverðarpakkann eða ekki?
Ekki svo ýkja mörg ár síðan enginn eyddi sekúndu í hugsun um hvort gista ætti á hóteli með morgunverði eður ei. Í denn tíð kom sjaldan sérstaklega fram hvað morgunverðurinn kostaði og flestir gerðu bara ráð fyrir að hótelmorgunverður væri bara á sama fína verðinu og annað í útlöndum.
En ekki lengur. Nú má glögglega sjá á augabragði hvað hinir og þessir gististaðir heimta fyrir tiltölulega einfaldan morgunverðinn. Jú, víst er munur á því sem gististaðir bjóða upp á en almennt talað eru flestir með það sama í pakkanum: jógurt, ferskir ávextir, brauð, kaffi plús egg og beikon. Kannski örlítið meira úrval á stærri stöðum og auðvitað hlaðborð á þessum stærstu.
Í Cagliari fengum við feita bakþanka fyrir að punga út tæpum þrjú þúsund krónur á parið í morgunmat því gegnt fínu hótelinu var þessi ágæti kaffistaður sem auglýsti morgunverð fyrir heilar 700 krónur per mann. Og við hér að tala um alvöru stöff: Rjúkandi sterkt og linnulaust Lavazza kaffi, ýmis konar brauð, stórt glas af ávaxtasafa og príma þykkan smoothie í þokkabót. Fyrir utan egg og beikon fyrir smotterí aukalega.
Tvær spurningar: hversu mikið þarftu í morgunmat og myndir þú greiða tæpan þrjú þúsund kall fyrir morgunverð fyrir tvo heima á farsæla?
Okkur til efs að margir Íslendingar hendi svo drjúgum peningum í skitinn morgunverð heimavið. Okkur líka til efs að margir troði sig út í eitt snemma dags almennt. Það þýðir jú almennt að dagarnir eru þungir og erfiðir ef við kýlum vömbina um leið og við vöknum. Og fæst okkar erlendis til að vera utanveltu af ofáti heilu og hálfu dagana.
Það þarf ekki Cagliari til. Við hér fundið fyrsta flokks kaffihús með fyrsta flokks morgunverðartilboði í velflestum borgum sem við höfum heimsótt og undantekningarlítið á 30-50 prósent lægra verði en hótelin taka fyrir sama hlut. Það þarf bara aðeins að hafa fyrir að finna staðina 🙂




