N afnið Maspalomas kveikir í mörgum köldum Íslendingnum enda það hverfi við hlið hinnar frægu ensku strandar sem við höfum fjölsótt um áratugaskeið. En er munur á þeim tveimur stöðum og hver þá?

Já og nei eru svörin við þeirri spurningu. Maspalomas byggðist mun síðar upp sem ferðamannastaður en Playa del Inglés, enska ströndin, og byggingar þar og hótel því heilt yfir mun nýrri. Þá eru hótel hér líka töluvert færri en meira hins vegar af íbúðarhótelum og smáhúsum til leigu.

Þetta þýðir einfaldlega að Maspalomas er mun rólegri staður en Playa del Inglés og hingað sækja fleiri Þjóðverjar en annara þjóða kvikindi þó það þýði ekki að hér sé líka fjöldi Svía, Dana, Norðmanna og Finna. Rólegheitin vilja vera svo mikil hér að margir þeir sem vilja aðeins lyfta sér upp að kvöldi dags taka margir næsta leigubíl á ensku ströndina og til baka. Hér er einfaldlega of rólegt á stundum en það hentar líka mörgum og ekki hvað síst barnafólki.

Eini staðurinn hér með þokkalegu lífi svona dags daglega er kringum vitann fræga, Faro de Maspalomas, sem stendur á syðsta odda Kanarí. Í radíus frá þeim ágæta vita er að finna bestu, en jafnframt dýrustu veitingahúsin, og bestu, en jafnframt dýrustu, hótelin á svæðinu. Fararheill reiknast til að gróflega séu hótelin á Maspalomas um 10 prósent dýrari almennt en sams konar hótel á Playa del Inglés.

Það er þó eiginlega svo að það er kjánalegt að tiltaka margt sérstaklega á Maspalomas sökum þess að staðurinn deilir svo mörgu með ensku ströndinni. Þar auðvitað helst falleg ströndin sjálf. Þó hún heiti annað er þetta sama ströndin og hún bæði falleg og hrein. Sömuleiðis deila staðirnir hinum frægu sandöldum Maspalomas. Þær sandöldur eru fallegar sannarlega en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta bara sandur og aðdráttaraflið takmarkað.

Til umhugsunar: Það er til marks um hvað Playa del Inglés og Maspalomas deila mörgu að besta útsýn yfir sandöldurnar er frá Playa del Inglés. Nánar tiltekið við enda Avenida de Tirajana. Það á að heita upplýsingamiðstöð en þar oftar en ekki lokað. Útsýnið þó frítt öllum stundum.

Að sama skapi er einn sæmilegur golfvöllur mitt á milli staðanna líka. Campo de Golf de Maspalomas liggur beint upp af sandöldunum. Völlurinn er auðveldur og þægilegur enda flatur að mestu en þykir ekki sérlega merkilegur sé forgjöfin lág. Hringur hér kostar frá 14 þúsund krónum og upp úr eftir árstíð.

Sennilega það merkilegasta er þó afmarkað náttúrulífssvæði á litlum bletti hér. La Reserva Natural de Maspalomas samanstendur af litlu lóni vestan megin sandaldanna þar sem fuglar og dýr fá smávegis frið. Þó ekki meiri en svo að hægt er að fylgjast með dýralífinu af svölum fjölmargra leiguhúsa og hótela. Sannarlega öðruvísi útsýni en annars staðar á Maspalomas.

Til að komast til og frá Maspalomas gildir það sama og á ensku ströndinni. Flestir vagnar frá flugvellinum inn í Playa del Inglés aka alla leið að vitanum í Maspalomas og til baka og stoppa víða á leiðinni. Leigubíll frá Maspalomas til Playa del Inglés kostar þetta fimm til sjö evrur að meðaltali.