Þ að þarf yfirleitt æði mikið til að Íslendingar taki andköf af hrifningu yfir náttúrufegurð. Engin furða enda búum við sjálf á einhverju fallegasta landi veraldar. Eðli málsins samkvæmt þarf mikið til að við sem lifum með heimsklassa náttúrufegurð nánast í bakgarðinum kippum okkur upp við „náttúrufegurð“ erlendis. Hversu oft höfum við skoðað fossa og flúðir sem erlendis þykja í heimsklassa bara til að yppta öxlum og drífa okkur á næsta bar?
En hin portúgalska Madeira fer langleiðina með að tikka í öll boxin. Enginn vafi leikur á að þetta er ein fallegasta eyja jarðar og þeim er efast er hollast að eyða hér nokkrum mínútum. Lengri tíma þarf ekki til að sannfærast.
Madeira er, eins og Ísland, eldfjallaeyja og þó engin virki hafi mælst hér um ár og aldir er öll eyjan skorin og tætt eftir lætin í fyrndinni. Svo skorin og tætt að hér finnst aðeins einn blettur, um þrír ferkílómetrar alls, sem flokkast getur sem flatlendi. Flatlendi sem merkilegt nokk er hátt uppi í fjöllum í hartnær tvö þúsund metra hæð.
Þetta sagt með þeim formerkjum að hér er loftslag ljúft, en ekki of ljúft. Hér rignir töluvert á ársgrundvelli auk þess sem hér eru fjöll nógu há til að snjór sest hér reglulega á hæstu tinda í janúar og eða febrúar nokkuð reglulega.
Þetta þýðir að Madeira nýtur sólar vel yfir 300 daga á ári, hitastigið fer nánast aldrei undir tíu gráður og hangir reyndar mun oftar í 18 gráðum að meðaltali. Eyjan nýtur að sama skapi nægilegrar vætu til að hér þrífst nánast allt sem þrifist getur.
Settu sól og vætu á ársgrundvelli í samhengi við litla eldfjallaeyju og útkoman er ekkert minna en stórkostleg náttúrufegurð.
Eyjaskeggjar bæta þó um betur. Gott betur. Þeir byggja hús sín á hvaða bjargi sem hér finnst sem merkir að hér er fjöldi bæja og þorpa sem standa svo bratt að stundum virðast þau hanga í lausu lofti. Sem er kostuleg sjón aftur og aftur og aftur. Minna kostulegt reyndar að auka um þau þorp er þannig standa því þótt gerð hafi verið bragarbót hér með hraðbrautum og göngum um allar trissur þarf enn að aka svimandi háa og þrönga vegi til að komast í þorpin og bæina. Þetta er með öðrum orðum eiginlega ekki staður fyrir lofthrædda.
Á korti er Madeira lítil en sökum þess hve mikið mál er að komast um tekur töluverðan tíma að skoða það helsta sem hér finnst. Þó fjöldi ganga hafi verið byggð þá breytir það ekki þeirri staðreynd að miðja eyjunnar og reyndar allur vesturhluti hennar er í 1500 til 2000 metra hæð yfir sjávarmáli. Næstum á pari við hæsta fjall Íslands.
Funchal er höfuðborg eyjunnar, og eina borgin, með rúmlega 220 þúsund íbúa þegar þetta er skrifað en alls búa 280 þúsund á eynni. Sú tala þó dálítið súr því um hundrað þúsund til viðbótar eiga hér heimili en búa erlendis lungann úr árinu. Funchal er jafn glæsileg og eyjan sjálf og ætli fólk að skoða það sem hún býður í þaula dugar ekki skemmra en fimm til sex dagar.
Þó lítil sé þá er svo merkilegt að eyjan skiptist í tvennt hvað loftslag varðar. Austasti hluti hennar, þar sem meðal annars stórmerkilegur flugvöllurinn finnst, er töluvert þurrari en restin af eyjunni og þar minna um gróður og skjól. Austurhluti Kanarí er því dálítið eins og Kanarí. Það er þó aðeins nokkrir kílómetrar áður en komið er að fjöllunum og eftir það er hér allt grænt og vænt eins og grænt og vænt getur orðið.
Sökum þess hve há eyjan er fyrir miðju á ekki að koma á óvart að veðurfar skiptist líka töluvert í tvennt. Sé sól og heiðríkt sunnanmegin eru allar líkur á að það sé skýjað og jafnvel sólarlaust norðan megin og öfugt.
Madeira er ekki sólarstaður í þeim skilningi að hér séu fínar strendur. Vissulega ekkert hægt að kvarta undan sól og hita. Fararheill hefur eytt hér jóladegi í 28 stiga hita. En strendurnar eru annaðhvort svartar eða klettaskornar. Þess utan er beinlínis hættulegt að fara í sjóinn hér víða sökum þungra hafstrauma. Hér finnast þó tvær manngerðar strendur með innfluttum sandi frá Marokkó. Annars vegar við Calheita og hins vegar við Machedo. Skemmst frá að segja að hvorug ströndin hefur náð hylli að ráði og síðarnefndi bærinn lenti í miklum vandræðum þegar í ljós kom að ekki aðeins var sandurinn gyllti mengaður alls kyns drullu heldur og fylgdi með talsvert af sporðdrekum.
Útivistar- og gönguferðir njóta mikillar hylli hér á eyjunni og þá sérstaklega gönguferðir meðfram svokölluðum levadas. Levadas eru litlir steyptir eða hlaðnir skurðir sem grafnir voru um alla eyju til að færa vatn frá fjöllunum niður í bæina. Slíkir skurðir liggja mjög víða upp og niður dali og fjöll og gegnum skóga og rjóður og aldeilis tilvalin leið að fylgja án þess að lenda á villigötum. Levadas-túrar taka frá tveimur klukkustundum og upp í dagsferðir.
Til og frá
Eini flugvöllur Madeira er á austurströndinni og völlurinn eða flugbrautin réttara sagt æði merkileg. Upprunalega flugbrautin byggð utan í fremur brattri hlíð og hún styttri en hárið á Ómari Ragnarssyni. Það hefur breyst til batnaðar nú á allra síðustu árum. Brautin verið lengd út í sjó og hvílir þar á gríðarmiklum súlum. Enn er ekki þrautalaust að lenda hér því allt aðflug krefst krapprar beygju rétt fyrir lendingu.
Flugstöðin sjálf í minni kantinum en ágæt þó. Helst að verðlag sé þar í hæstu hæðum eins og virðist orðin raunin á velflestum flugvöllum heims.
Frá vellinum er komist með flugrútu til Funchal og strætisvagnar fara héðan til nokkurra bæja til norðurs og vesturs en heilt yfir fara langflestir ferðamenn beint til Funchal. Sá túr tekur 20 til 30 mínútur eftir umferð.
Sjá og skoða
Það tæki eilífð að renna yfir allt það sem hér heillar og hægt er að gera. Á vef okkar má finna sérstakan vegvísi um það allra helsta eins og …. En þá er fátt eitt nefnt.
Verslun og verðlag
Leiki hugur á að endurnýja fataskápinn eða kaupa eitthvað veglegt er Madeira fínt stopp. Um mitt ár 2015 var almennt verðlag í verslunum hér 51 prósent lægra en á Íslandi. Sem dæmi kostar stór bjór á bar kringum 260 krónur, fjórar dollur af jógurt í matvöruverslun 150 krónur, kíló af tómötum heilar 190 krónur, málsverður á veitingastað með víni 1500 krónur og svo framvegis og svo framvegis.
Ferðaþorsti og þvælingur
Fjölmörg fyrirtæki bjóða ferðir hingað og þangað um eyjuna og velflestir að bjóða sömu ferðirnar svona heilt yfir. Vinsælast er að fara eina dagsferð um vestanverða eyjuna og eina dagsferð um hana austanverða. Þannig sér fólk á tveimur dögum allt það markverðasta sem Madeira býður upp á. Fararheill lét reyna á þjónustu fjögurra slíkra fyrirtækja og þar fremst jafningja DG Travel.
Þess utan er nauðsyn að gefa höfuðborginni Funchal minnst þrjá til fjóra daga svona til að fá smá bragð en það er töluvert flókið fyrir flesta að þvælast um hana að ráði. Ástæðan sú að hér er á brattann að sækja nánast alls staðar. Ef frá eru taldar þær þær þrjár göturaðir sem næstar eru sjónum er allt annað annaðhvort upp eða niður og það oft mjög bratt. Fólk sem þvælist um fær fljótt tak í kálfana í besta falli.