E inhverra hluta vegna hefur Las Palmas, höfuðborg Kanarí, lítt átt upp á pallborð hjá Íslendingum ef frá ertu taldar stöku skottúrar frá Playa del Inglés í verslanir. Kannski ferðaskrifstofunum um að kenna. Það er jú ekki eins og mikið annað hafi verið í boði undanfarin ár og áratugi en Enska ströndin, Playa del Inglés, og kannski Maspalomas sem er þar við hliðina á.
Kannski þess vegna kemur á óvart að hér eru helstu strendur pakkaðar af Norðmönnum, Svíum, Dönum og Þjóðverjum. Það kemur sem sagt í ljós að Las Palmas er jafn fjölsóttur áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn og hinn víðfræga Enska strönd. Og þegar betur er að gáð kemur í ljós að það var Las Palmas sem vakti fyrst athygli fólks á ferðum hingað til eyjanna. Las Palmas lagði sem sagt grunninn að þeim fjöldatúrisma sem fyrirfinnst sunnar á eyjunni í dag.
Ekki þar með sagt að ferðamannafjöldinn sé sá sami. Hann er yfirgnæfandi á Playa del Inglés en viðráðanlegri í Las Palmas. Hér heitir ekki nema fjórði hver veitingastaður eftir norskum víkingum, dönskum pylsum eða sænskum kokkum.
Las Palmas er sem sagt vinsæll ferðamannastaðar út af fyrir sig burtséð frá því að vera höfuðstaður Kanarí. Eða kannski af því að Las Palmas er borg með flott úrval verslana og afþreyingar sem ekki grundvallast á erlendum ferðamönnum. Sennilega það og sú staðreynd að ströndin hér er ekki síðri en það sem finnst sunnar á eynni. Þvert á móti eiginlega. Hér allavega rekst enginn óvart á nakið fólk í Matador eða Twister eða einhverju þaðan af verra sísona eins og við Playa del Inglés.
Sjálfir vilja heimamenn hér kalla sig Litlu Havana með tilvísun í að strandlengjan hér, Avenida Marítima, liggur eftir endilangri borginni eins og Malecón í Havana og reyndar aðeins lengra. Víst er Las Palmas og Havana kannski ekki svo ólíkar. Havana hefur Castro og Hemingway og Las Palmas með hinn ítalska landkönnuð Cristoforo Colón, betur þekktan sem Christopher Colombus fyrir marga.
Til og frá
Gróflega má segja að flugvöllur Gran Canaria, Aeropuerto de Gran Canaria sé mitt á milli Playa del Inglés og Las Palmas. Frá vellinum tekur um 20 mínútur að komast inn í gamla bæinn og 25 mínútur ætli fólk á Catalina-svæðið en þar eru langflest hótel og gististaðir Las Palmas.
Völlurinn sjálfur er hvorki stór né flókinn og reyndar furðu lítill miðað við þann fjölda fólks sem sækir Kanarí heim á ársgrundvelli.
PS: þeir sem reykja og eða drekka eða bæði ættu að grípa með sér varning úr fríhafnarversluninni við komu. Karton af þekktum tegundum kostar kringum 3.000 krónur eða svo og því töluvert ódýrara en um borð í vélum á leið hingað og mikið ódýrara en þú greiðir fyrir karton í Leifsstöð. Sama gildir um áfengi. Ágætt að hafa í huga við brottför líka.
Leigubíll inn í Las Palmas frá vellinum kostar þetta 3000 krónur eða svo en mun ódýrara er að taka strætisvagn 60. Sá fer á milli á 20 – 30 mínútna fresti og kostar heilar 370 krónur á mann. Sá er númer 60 og stoppar bæði í gamla miðbænum og við Santa Catalina torgið sem er miðpunktur helsta ferðamannasvæðisins við strandlengjuna. Einnig er hægt að taka vagn númer 5 en sá stoppar mun víðar og er lengur á leiðinni.
PS: Ágætt er að hafa í huga fyrir þá sem bóka sín eigin hótel í Las Palmas að hótelin smyrja feitt og mikið á morgunverð. Þúsund krónur þykir bærilega sloppið fyrir morgunverð per dag á hótelunum. En hafi fólk nennu til eru allmargir ágætir staðir um allt sem bjóða léttan morgunverð, kaffi, safa og samloku, niður í 400 til 500 krónur.
Loftslag og ljúflegheit
Yfir engu er að kvarta í Las Palmas frekar en á Playa del Inglés fyrir íslenska sóldýrkendur. Hér er heitt allan ársins hring og yfir sumarmánuðina of heitt ef eitthvað er. Meðaltal yfir sumartímann eru 33 gráður en öllu yndislegra yfir veturinn. Í Las Palmas eru desember, janúar og febrúar að meðaltali um 24 gráður en fara allmikið yfir það á bestu dögunum.
Ef eitthvað má setja út á hér, sem annars staðar á Kanarí og Tenerife er það sú staðreynd að hér er loftmengun töluvert vandamál.
Söfn og sjónarspil
>> Santa Catalina torgið (Parque Santa Catalina) – Þetta heitir miðpunktur þess flokkast sem ferðamannasvæði Las Palmas en það svæði er allra syðst í borginni. Torgið sjálft er stórt og mikið og við það nokkrir ágætir veitingastaðir, upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn og verslanir líka.
>> Elder vísindasafnið (Museo Elder de la Ciencia y Tecnología) – Annað fyrirbæri við Santa Catalina torgið og auðfundið er þetta ágæta vísinda- og tæknisafn. Það er hið besta sinnar tegundar á Kanaríeyjum og hér gefur að líta svo fátt eitt sé nefnt gamaldags eimreið í fullri stærð og flugstjórnarklefa Boeing-þotu. Fínt stopp og aðgangseyrir aðeins um 700 krónur.
>> Triana hverfið (Triana) – Triana er samheiti yfir miðbæ Las Palmas en hluti hans er, merkilegt nokk, á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Merkilegt sökum þess að þetta er þrátt fyrir allt tiltölulega hefðbundinn miðbær með fjölda verslana og veitingastaða og ekki ýkja mikið sem vekur athygli þess utan. Hér eru jú smágötur og ranghalar um allt sem gaman er að valsa um en fátt sem gefur tilefni til að setja Triana niður á blað sem arf mannkyns.
>> Farray torgið (Plaza Farray) – Skammt frá Playa de las Conteras er þetta litla en vinsæla torg. Ekkert óvenjulegt en fimm kaffihús hér og torgið það lítið að hér skapast auðveldlega fínasta stemming ef fólk hefur áhuga á þess lags.
>> Kastali ljósinns (Castillo de la Luz) – Einn merkilegasti viðburður Kanarí gerðist árið 1595 þegar breskir landkönnuðir fengu áhuga á eynni og þá að taka hana með valdi og reisa hér flagg Breta. Þá gripu heimamenn til sinna ráða og höfðu betur gegn innrásarher Francis Drake. Sá sigur vannst mikið til vegna þessa litla kastalvirkis við samnefndan flóa. Kastalann hægt að skoða að vild og ágætur lítill garður í kring.
>> Cairasco torgið (Plaza Cairasco) – Borgarbúar segja þetta torg hið fallegasta í borginni en Fararheill er á báðum áttum. Torgið sjálft lítt spennandi en hér er ágætt útikaffihús, barnaleikvöllur og í kring eru nokkur af fallegri byggingum borgarinnar. Eins og Hotel Madrid sem hér er staðsett og æði vinsælt ef fólk á magn seðla í vasa. Að því sögðu ekkert sem þú missir af ef þú lætur vera að kíkja. Við hlið þess hótels er bygging sem ber heitið Gabinete Literatario og þykir ein fallegasta byggingin í borginni.
>> Alfredo Klaus tónleikahöllin (Auditorio Alfredo Klaus) – Þessi mikla bygging við enda Las Canteras strandar er stór og mikil og þó úr fjarska virðist þetta aðeins vera gamall og stór viti þá bregður mörgum þegar nær dregur. Þetta er tiltölulega nýleg og glæsileg tónleikahöll sem var byggð eins og gamall viti. Kostuleg smíð og falleg bygging sem sést alls staðar að við strandlengjuna. Hér eru oft á tíðum hinum mögnuðustu listamenn að stíga á stokk ef fólk vill menningu beint í æð.
>> Þjóðminjasafnið (Museo Canaria) – Í gamla borgarhlutanum er að finna þetta safn muna frá Kanarí og er þetta besta safn sinnar tegundar á eyjunum öllum. Hér fá fornir tímar sitt pláss og má hér sjá landnám eyjunnar og þróun þess fólks sem hér byggði bú. Allmikið af leirkerum og leirbrotum sem hægt er að fá nóg af en hér líka stórt safn höfuðkúpa og beinagrinda sem hafa fundist við gröft um alla eyju. Síðast en ekki síst er hér hægt að fræðast um hellahíbýlin frægu sem finna má víða á Kanarí.
>> Nýlistasafn Atlantshafsins (Centro Atlantico de Arte Moderna) – Eitt besta listasafn borginnar er þetta ágæta safn.
>> Doramas garður (Parque Doramas) – Annar fallegur borgargarður í Las Palmas. Hér má sjá á einu bretti allar tegundir trjáa og gróðurs sem vex á Kanarí. Ekki missa heldur af Litlu Kanarí, Pueblo Canaria, í einu horni garðsins. Þar hafa listamenn sett upp örlítið þorp í hefðbundnum Kanarístíl og þar selur handverksfólk úr héraði sínar vörur alla daga ársins.
>> Hús Kólombusar (Casa de Colón) – Auðfundið í gamla bænum bakvið dómkirkjuna er hús sæfarans og landkönnuðarins Kólombusar. Sumir vilja halda því fram að hér hafi hann dvalist áður en hann lagði í fræga för sína vestur um haf og uppgötvaði Ameríku en engar sönnur hafa verið færðar á það. Húsið er þó tileinkað honum og hans sögu allri og hér má vitaskuld kaupa minjagripi líka eins og gengur.
>> San Antonio kapellan (Ermita de San Antonio Abad) – Lítil kapella í gamla bænum sem á sér þá sögu helsta að hafa verið byggð um svipað leyti og Spánverjar gerðu hér strandhögg. Auðvitað þurfti fyrsta byggingin að vera trúarhús og það er þetta hér. Kapellan hvorki stór né ýkja falleg þó.
>> Dómkirkjan (Catedral de Santa Ana) – Þessi fimm alda gamla dómkirkja gnæfir yfir gamla bæinn og sést víða að. Þar er í boði að fara upp í klukkuturna hennar og taka inn magnað útsýnið yfir borgina og út á haf. Hún fær þó engin fegurðarverðlaun og er tiltölulega yfirlætislaus innandyra. Athygli vekur að fyrir framan kirkjuna eru nokkrar vígalegar styttur af grænum hundum. Sú skreyting tengist því að fyrrum þótti tignarlegt að eiga hunda meðal fyrirfólks.
>> Pérez Galdos leikhúsið (Teatro Pérez Galdos) – Hún lætur heldur lítið yfir sér þetta leikhús við Plaza Stagna í Triana hverfinu. En þetta er í raun þjóðleikhús heimamanna og byggingin skipar stóran sess í hjörtum eldra fólks hér. Lítið að sjá utanfrá en kunni fólk skil á spænsku fara hér fram hinar allra bestu leikhús og óperur með reglulegu millibili.
>> Nestor safnið (Museo Néstor) – Nafn Nestor Martin Fernandez hringir ábyggilega engum bjöllum hjá Íslendingum en meðal frumbyggja á Kanarí er þetta einn þeirra mesti og besti listamaður.
>> Gamla ráðhúsið (Casas Consistoriales) – Við enda Santa Ana torgs beint á móti dómkirkju Las Palmas stendur þessi neóklassíska bygging sem lengi vel var aðsetur borgarstjórnar og borgarstjóra. Byggt árið 1842 og lagfært frá grunni upp úr síðustu aldamótum. Nú er hér að finna sýningarsal fyrir listaverk borgarinnar sem mörg hver eru komin vel til ára sinna og meðal annars verk margra frægra spænska listamanna.
>> Canteras strönd (Playa de las Canteras) – Einar fimm fínar strendur er að finna innan borgarmarka Las Palmas en þær misgóðar til brúks. Langfremst jafningja er Canteras strönd. Sú er hreinsuð hvern einasta dag og nóg pláss fyrir alla sem þangað koma. Í vesturenda hennar er kjörinn vettvangur fyrir brimbrettafólk og þar einfalt og ódýrt að læra þá kúnst. Víða er í boði að leigja sólstóla eða bekki ef fólk vill ekki fá sand út um allt. Dagsleiga á sólbekk er kringum 400 krónur og engin þörf á að panta fyrirfram. Í og við ströndina eru mörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í þjónustu við ferðafólk. Leigja má köfunarbúnað, brimbretti og kajaka vandræðalaust og ýmis önnur afþreying í boði.
Verslun og viðskipti
Í Las Palmas er enginn skortur á verslunum. Hér eru fjórar meðalstórar verslunarmiðstöðvar þar sem finna má allar vinsælu keðjuverslanirnar og þess utan fjöldi smærri verslana um allan bæ eins og gengur. Þá er stórmarkaðurinn El Corte Inglés hér með verslanir á tveimur stöðum.
Sennilega besta miðstöðin til verslunar er við hlið tónleikahallarinnar á enda Las Canteras strandar. Sú heitir Las Arenas og þar eins og gengur að finna öll helstu og vinsælustu merkjavörurnar ásamt öðrum lítt þekktari verslunum. Önnur stór miðstöð er rétt út frá Santa Catalina torginu. Sú miðstöð, El Muelle, var reist sérstaklega til að selja varning þeim er hingað koma með skemmtiferðaskipum en þau leggjast að bryggju skammt frá Santa Catalina. Sú gekk þó ekki eins og skyldi og þar er töluverður fjöldi plássa tómur. Verð á varningi hér er aðeins dýrari heilt yfir en í öðrum miðstöðvum.
Nokkrir markaðir eru og í borginni. Þeir ágætir heimsóknar en eru keimlíkir öðrum mörkuðum í borgum Spánar og sömu vörur til sölu. Fiskmeti og ávextir og grænmeti fæst ekki betra en hér. Kíktu á Mercado del Puerto ef þú ert í ferðamannahluta Las Palmas eða Mercado Central ef þú ert í miðborginni.
Þá eru Kínverjar farnir að setja mark sitt töluvert á Las Palmas. Hingað komu þeir í stórum stíl með fjármagn í kjölfar efnahagsþrenginga Spánverja 2008 og keyptu upp margar eignir. Mörgum þeirra breytt í hótel eða gistihús en margir opnuðu líka hefðbundnar draslbúðir. Kannski besta dæmið um slíkar verslanir er við Naval götu, La Naval, þar sem níu af hverjum tíu verslunum eru kínverskar búllur.
Stuð og skemmtanir
Þar sem Las Palmas er borg er fjöldinn allur af afþreyingarmöguleikum fyrir utan þetta hefðbundna eins og verslun eða söfn.
Hér er að finna ein fjögur þokkaleg spilavíti og fjölmarga aðra minni staði þar sem auðvelt er að henda peningum á glæ.
Hátíðir og húllumhæ
Eyjaskeggjar skemmta sér ótt og títt og nægir að rölta út á næsta bar á hverju kvöldi til að vitna það. Sú skemmtun þó meira maður er manns gaman enda virðist nútímatækni ekki setja stórt strik á mannamót hér.
Mikið er gert úr trúarathöfnum hér sem annars staðar á Spáni. Í desembermánuði hefst hópur fólks handa við að byggja gríðarstóra skúlptúra úr sandi á Playa de las Canteras. Þau verk vægast sagt glæsileg enda ráðnir til verksins helstu snillingar hverju sinni. Verkunum er viðhaldið vel fram í janúar.
Líf og limir
Almennt eru velflestir staðir á Kanarí mjög öruggir og fyrir borg er afar lítið að óttast í Las Palmas. Hér auðvitað vasaþjófar eins og annars staðar og ber sérstaklega að hafa gætur á rúmenskum glæpahópum sem gjarnan hanga við verslunargötuna Calle Mayor de Triana.
Lögregla er þó afar áberandi bæði í Triana, Santa Catalina og meðfram strandlengjunni og líka sjálfsagt mál því túrismi er risastór atvinnuvegur og enginn staður hefur efni á að fá á sig slæmt orð.