A llt vel siglt fólk þekkir vandamálið. Ferski bjórinn sem þú varst að panta á þetta eðalfína borð á eðalfínum stað við göngugötuna í Alicante eru orðinn hundsúr og flatari en maður sem verður undir valtara á örskotsstundu.
Slæmt að þú átt ekki vin sem er á kafi í bjórframleiðslu. Hann hefði getað sagt þér að láta aldrei nokkurn tíma sólarljós falla á bjór í glasi eða flösku.
Reyndin er nefninlega sú að sólarljós þarf aðeins nokkrar sekúndur til að gjörbreyta bragðeiginleikum bjórs og í 100 prósent tilfella til hins verra. Sólarljós er fráleitt eina ástæða þess að bjór verður flatneskjulegur og bragðvondur en það er meginástæða lélegs bjórs í sólríkari löndum heims.
Við Íslendingar og aðrir þeir ættbálkar sem búa í kulda og trekki norður í ballarhöfum megum nefninlega helst ekki upplifa hitastig yfir frostmarki og sól á lofti án þess að fækka fötum og bregða undir okkur betri fætinum með bjór í hönd.
Þetta skiptir kannski litlu máli þegar bændur eru að fá sér einhvað fjöldaframleitt sull eða þaðan af verra en ef verið er að punga út fyrir alvöru bjórum er það synd hin mesta að geta ekki notið bjórsins hundrað prósent meðan sólin yljar hjartarótum. Vitaskuld er það hægt en geymdu bjórinn í skugga öllum stundum eða drekktu hann úr dós. Humlur í bjór, og það eru humlur í öllum bjór, eru afar ljósnæmar og aðeins nokkrar sekúndur af beinu sólarljósi duga til að breyta bragðgæðunum sem þær veita bjórum í eitthvað óhuggulegt slef.





