Skip to main content
E nginn þvælist mjög lengi um Miami, Havana, Mexíkóborg né aðra þekkta staði í og við Mexíkóflóa án þess að finna cafecito á mat- eða drykkjarseðlinum. En hvað er þetta fyrirbæri?

Cafecito er nánast eini „morgunverður“ fjölda fólks í og við Mexíkóflóann. Mynd Albert

Cafecito merkir bókstaflega lítið kaffi eða lítinn bolla af kaffi. Ekkert svo frábrugðið expresso á Ítalíu, Spáni og í Portúgal.

Munurinn sá að cafecito merkir ekki endilega botnfylli af rótsterku kaffi eins og Ítalir og Spánverjar taka það heldur frekar að um er að ræða rótsterkt kaffi en magnið í bollanum fer bara eftir stemmara hjá afgreiðslufólkinu í það og það skiptið.

Með öðrum orðum, eina stundina færðu bókstaflega aðeins botnfylli af kolsvörtu kaffi en á næsta stað fimm mínútum síðar færðu hálffullan bolla af sama stöffi.

Cafecito má rekja til Kúbu og þaðan má rekja það til Spánar. Spánverjum aldrei leiðst að fá sér „corto“ eldsnemma á morgnana áður en haldið er til vinnu. Corto er nánast bara botnfylli af súpersterku kaffi og kaupendur annaðhvort drekka það svoleiðis og vakna til lífs sem úr móðurkviði væru að koma eða blanda út í mjólk, rjóma eða sykur eftir þörfum. Ákveðið fíkniefni svona í og með.

Nema að kúbverska aðferðin gengur enn lengra. Það er enn sterkari kaffiblanda í cafecito en corto á Spáni og miklu sterkari blanda en gengur og gerist hjá Ítölum með sitt expresso. Svo sterk getur blandan verið að jafnvel verstu skíthælar, dusilmenni og letingjar fara hamförum í starfi í kjölfarið.

Oft ekki sérstaklega gott á bragðið en áhrifin eru óumdeild. Gildir þá einu hvort þú sefur almennt illa, varst að djamma fram undir morgun eða skelfur eins og drusla með kvef, bólusótt og niðurgang. Einn eða tveir „cafecitos” kippa því í liðinn á fimm mínútum sléttum 🙂