G óð ráð eru yfirleitt dýr segir máltækið. En máltæki geta verið röng eins og allt annað undir sólinni 😉

Mannþröng er ekki fyrir alla. Skjáskot

Engum blöðum um að fletta að ef þú ert bjóráhugamaður eða kona er mekka heimsins Októberfest í Munchen í september og október ár hvert. En heimsókn þangað hefur ýmsa galla í för með sér.

Í fyrsta lagi er ekki allra að troðast um í mannmergð 24/7 eins og raunin er á hátíðarsvæði Októberfest í Munchen. Ekki aðeins ertu að rekast utan í mann og annan á vappinu heldur og eru langar raðir í bjórtjöldin og enn lengri raðir á matsölustaðina og enn enn lengri raðir á klósett. Svo ekkert sé nú talað um að næla í leigubíl ef hótelið er ekki í göngufæri frá hátíðarsvæðina. Gefðu þér nokkrar klukkustundir í það.

Í annan stað þá kostar orðið fúlgur fjár að komast á hátíðina atarna. Ekki aðeins er flugið megadýrt yfir þennan tíma heldur öll gisting líka.

En hvað ef þú ert bjórunnandi, langar á góða hátíð en hátíð þar sem þú getur notið alls án þess að troðast um allar trissur?

Skál fyrir þér 🙂

Góðu heilli eru til bjórhátíðir sem eru ekki mikið síðri en Októberfest í Þýskalandi en að mestu leyti án alls þessa leiðinlega.

Hátíðir eins og Mondial de al Biere í Montreal í Kanada en sú fer fram í byrjun júní hvert ár. Litlu síðri, en töluvert lengra að fara, er Marchfest á Nýja-Sjálandi en þar er heimabruggaður bjór í hávegum hafður og eðli máls samkvæmt í marsmánuði ár hvert. Bretar drekka bjór í morgunmat nánast og eðlilegt að þeir haldi sína bjórhátíð. Þær reyndar fjölmargar en sú besta fer fram í byrjun ágúst og kallast auðvitað The Great British Beer Festival. Allir vita að Belgar kunna að brugga sinn mjöð og þjóðin kannski fremst jafningja í bjórfræðum á heimsvísu. Í Brussel fer árlega fram The Belgian Beer Weekend þar sem yfir 200 brugggerðir auglýsa framleiðsluna og það á mun lægra verði en eðlilegt er. Sú hátíð fer yfirleitt fram í byrjun september.

Þær fimm hátíðir sem að ofan eru nefndar eru ekki endilega mestar og bestar en þær eru hvað stærstar. En svo óhætt að muna að hundruðir smærri bjórhátíða finnast um víða veröld og flestar haldnar árlega. Til dæmis Oregon Craft Beer Month sem er mánaðarlöng bandarísk hátíð eins og nafnið gefur til kynna. Aðeins tæplega hundrað bjórframleiðendur að kynna vörur sínar þar. Hin hollenska bjórhátíð, Week van het Nederlandse bier, er aðeins vikulöng en er það ekki nógu langt til að njóta töluvert? Ekki má heldur gleyma hinni yndislegu Český pivní sem fram fer í Tékklandi ár hvert í maí.

Þá eru aðeins nokkrar bjórhátíðir nefndar. Að minnsta kosti tvær slíkar hátíðir fara fram í Istanbúl í Tyrklandi ár hvert. Aðrar tvær stórar eru haldnar í Frakklandi sömuleiðis ár hvert og hvorki Spánverjar né Ítalir láta sitt eftir liggja.

Plúsinn auðvitað sá að þó þéttsetinn sé bekkurinn á flestum þessum hátíðum þarftu ekki að berjast gegnum þvögu af sex milljón manns hvern einasta dag eins og á Októberfest í Munchen 😉