Í öðrum enda hins stóra og yndislega borgargarðs Prater í Vínarborg í Austurríki gefur að líta byggingu sem stingur mjög í stúf við allt annað hér í kring. Um er að ræða hringlaga appelsínugulan hnött með gluggum og rammgerð vírgirðing allt í kring sem lokar fyrir aðgang að þessu undarlega fyrirbæri.
Þetta er Kugelmugel lýðveldið sem er hugarfóstur listamanns að nafni Edwin Lipburger en sá varð æfur á sínum tíma þegar hann fékk ekki leyfi til að reisa kringlótt sumarhús sitt á vinsælu sumarhúsasvæði skammt frá Vín. Hönnunin þótti stinga of í stúf og byggingin stöðvuð. Eigandinn ákvað þá mjög svo frumlegu leið að lýsa formlega yfir sjálfstæði frá Austurríki í mótmælaskyni og komst upp með gjörninginn.
Sjálfstæðið fékkst vissulega viðurkennt með semingi en hnöttinn fjarlægðu stjórnvöld á endanum. En í stað þess að eyðileggja þessa merkilegu byggingu Lipburger reistu stjórnvöld hana upp að nýju í hinum stóra Prater almenningsgarði í Vínarborg. Þar stendur húsið nú rammgirt af til merkis um að hér sé raunverulega annað lýðveldi en Austurríki.
Og nú 3o árum síðar er Kugelmugel lýðveldið orðið eitt heitasta aðdráttarafl borgarinnar þrátt fyrir að það samanstandi af þessari einu byggingu sem er ekki einu sinni mjög fögur að líta. Lipburger sjálfur og uppátæki hans eru þó vinsæl meðal landa hans í heimalandinu en fræg er sagan af því þegar hann var nálægt því að fara í fangelsi fyrir að neita að greiða skatta og sömuleiðis þegar hann hóf að prenta sín eigin frímerki og selja eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Heillist fólk ekki af Kugelmugel er gnótt leiktækja af ýmsu tagi í Prater-almenningsgarðinum og þar meðal annars 64 metra hátt Parísarhjól af gamla skólanum. Þó er annar hluti Prater frátekin fyrir þá sem vilja frið og ró og því hægt að hoppa á milli eftir stemmningu.






