A kkurat þegar maður heldur að maður hafi nú séð allt sem merkilegt er á Spáni poppar upp á radarnum bærinn Guadix skammt frá borginni Granada í Andalúsíu og breytir þeirri sýn.

Og hvað skyldi vera svo merkilegt við Guadix? Töluverður fjöldi íbúa bæjarins búa neðanjarðar. Jamms! Ef það verðskuldar ekki eins og eitt stopp eða ökuferð skal ritstjórn hundur heita eins og hún leggur sig.

Bærinn er landsþekktur á Spáni fyrir hellahíbýli sín, Cuevas, sem reyndar er víða að finna á þessum slóðum en þó ekkert í líkingu við það sem gerist í Guadix. Engin furða að síðan erlendir ferðamenn uppgötvuðu þetta fyrir um 20 árum hafa tæplega þúsund erlendir aðilar keypt sér slíkan helli sem sumardvalarstað og í stað þess að fást næsta gefins eins og var raunin hér fyrir tuttugu árum síðan fara slík híbýli á tugmilljónir króna í dag.

Bærinn að öðru leyti er hvorki merkilegri né ómerkilegri en aðrir í Andalúsíu. Hér eru einar fjórar kirkjur auk eins klausturs og kirkjurnar eru fallegar. Þá er miðbæjartorgið Plaza de Constitución ekki amalegt og þar fæst meiri slökun á einu síðdegi en í hundrað heimsóknum í detox til Póllands. Í bænum er líka safn tileinkað hellunum en í slíkum hafa Spánverjar og á undan þeim Márar búið í hundruð ára.

Til umhugsunar: Hellahverfið er auðfundið en á korti kallast það Barrio de Santiago. Íbúar eru oftast nær glaðir ef erlendir ferðamenn sýna híbýlum þeirra áhuga og bjóða þá gjarnan inn.

Vilji menn bragða á jarðarberjum eins og þau koma af kúnni er það hægt hér því Guadix er miðstöð jarðarberjaræktunar í öllu landinu. Fátt jafnast á við nýtínd ber í heitri sólinni.

Skammt frá bænum eru volgir hverir sem margir taka ástfóstri við en við Íslendingar erum svo góðu vön hvað hveri varðar að þessir blikna á augnabliki.