E f marka má póst sem Fararheill hefur fengið að undanförnu virðist fólk á Fróni láta hugfallast þegar það kemst að því að velflestar villur eða sumarhús á Spáni sem finnast hjá innlendum leigumiðlurum eru uppseldar eða kosta meira en góðu hófi gegnir. Engin ástæða til þess.
Við höfum undrast það töluvert hvers vegna landinn telur það betri kost að eiga í viðskiptum við íslenska aðila þegar kemur að því að leigja sumarhús erlendis. Reynslan af því er nefninlega miður góð gegnum tíðina.
Innlendir leigusalar eru oftar en ekki að bjóða verri kjör á leiguhúsnæði en aðrir þó það sé ekki algilt auðvitað. Aðallega þó sökum þess að úrval hjá þeim innlendu er afskaplega takmarkað. Þessar íslensku eru kannski að bjóða tugi eigna í besta falli meðan stærri erlendir aðilar lista þúsundir og jafnvel tugþúsundir. Enn betra að erlendar leigumiðlanir bjóða af og til sértilboð eða afslætti á leiguverði sem er nokkuð sem sést nánast aldrei hjá íslenskum aðilum.
Við höfum oft áður fjallað um hinar og þessar íbúðaleigur erlendar sem góðar þykja og njóta trausts og sjálf höfum við reynslu af nokkrum slíkum vandræðalaust. Og þar sem góð vísa er aldrei of oft kveðin er sjálfsagt að lista hér nokkrar þær íbúðaleigur sem bjóða mikið úrval eigna á Spáni, Portúgal, Ítalíu og víðar með litlum eða löngum fyrirvara og á verði sem hentar bæði öryrkja á Vopnafirði og útvegsmanni í Vestmannaeyjum.
[alert]Við höfum hjálpað öllum þeim er eftir óska ef eitthvað er óljóst eða torskilið og það á líka við hér. Óhrædd að hafa samband við fararheill@fararheill.is ef eitthvað.[/alert]Þess utan er töluvert af sumarhúsum og villum í ýmsum löndum að finna á hótelbókunarvef okkar hér að neðan. Auðvelt að finna slíkt í flestum löndum heims.