J æja, fólk á ferð um Bangkok í Thaílandi og fengið upp í kok af núðlusúpum og vafasömum fiskréttum á götuveitingastöðum. Nú er tími til kominn að veita sér smá munað. Hvert heldur maður þá?

Útsýn til allra átta og stórgóður matur í ofanálag. Þakveitingastaðurinn Sirocco í Bangkok

Útsýn til allra átta og stórgóður matur í ofanálag. Þakveitingastaðurinn Sirocco í Bangkok

Hér eru fimm staðir í Bangkok sem allir eru taldir með bestu og flottustu veitingastöðum borgarinnar. Hér fæst allt milli himins og jarðar og eldað hundrað prósent eftir óskum hvers og eins. En ekki láta þér eitt augnablik detta í hug að gallabuxur og straujaða skyrtan dugi til að klæða sig upp né heldur að reikningurinn verði í lægri kantinum. Þvert á móti er ólíklegt annað en punga út tugum þúsunda fyrir kvöldverð fyrir tvo.

♥  NAHM >> Ekki er flett neinum tímaritum um mat án þess að rekast fyrr en síðar á nafn Nahm í Bangkok sem þykir nú jafnvel betri kostur en Nahm í London í Englandi sem lengi hefur verið meðal betri staða þar í borg. Báðir reknir af sama aðila og sami kokkur að baki báðum stöðum. Nahm Bangkok er staðsettur í Metropolitan hótelinu og hér er lúxus á lúxus ofan hvert sem litið er.

♥  SIROCCO >> Ekki síðri, og reyndar mun betri hvað útsýni varðar, er þakveitingastaðurinn Sirocco á 63. hæð Dome turnsins. Ekki aðeins er listavel gert í mat og drykk og ekkert til sparað heldur er staðurinn undir beru lofti og aðeins blindur maður verður svikinn af umhverfinu með matnum.

D´Sens er ekki síðri kostur þó ekki sé snætt utandyra. Skjáskot

♥  D´SENS >> Þessi fíni staður sem einnig býður fjarska gott útsýni yfir borgina er í samstarfi við tvo franska kokka sem reka hinn stórgóða Les Jardin des Sens í Montpellier í Frakklandi en sá staður skartar tveimur Michelin stjörnum. Annar hvor þeirra eru hér öllum stundum og maturinn þykir lostæti mikið. D´sens er staðsettur í turni Dusit Thani hótelsins.

♥  TABLES >> Enn einn hótelveitingastaðurinn er þessi hér í Grand Hyatt Erawan hótelinu. Hér fer matseldin fram á borðum gesta eins og hefðin var áður fyrr í Asíu og Evrópu líka lengi vel. Staðurinn hannaður af einhverjum besta arkitekt Thaílands og hér kokka aðeins fyrsta flokks matreiðslumenn sem oftast koma frá Evrópu.

♥  BLUE ELEPHANT >> Matgæðingar segja þennan glæsilega stað vera skör ofar öðrum þegar kemur að himneskum thaílenskum mat. Öll eldamennska tekur mið af eldamennsku fyrri tíma og ekki skemmir að staðurinn er staðsettur í gamalli franskri byggingu. Blue Elephant hefur gengið svo vel að þegar hafa verið opnaðir Blue Elephant staðir í Evrópu.