Í slendingar verða að horfast í augu við að ferðalög erlendis eru aftur orðin dýr og fer fjarri að flugfargjöld séu mesti kostnaðurinn. Mesti kostnaðurinn er vegna litlu krónunnar okkar sem alltaf skal gera brúnt í brók þegar einhver svo mikið sem hikstar í Pakistan. Takk Seðlabanki.
Þannig er mörgum farið að blöskra að greiða 800 krónur fyrir kaffibolla eða 1.800 krónur fyrir bjórglas í borgum á borð við Osló fyrir utan milljónafjárfestingu ætli menn að fá sér bita í svanginn.
En Osló er ekki öll dýr. Þar má eyða nokkrum tíma án þess að tæma sparireikninginn. Þar á meðal
…gönguferðir eru ennþá ókeypis í Osló sem víðar og margt forvitnilegt ber fyrir augu. Akershús virkið er vígamikið og gefur fína útsýn yfir höfnina. Ekki síður er feykigóð útsýn frá Ekeberg hæð og auðvelt að fylgja sporvagnateinunum upp hæðina frá Gamlebyen.
…fyrir alvöru göngufólk er þjóðráð að koma sér að Frogneseteren með sporvagni númer 1 en þaðan er stórkostleg útsýn til allra átta. Frogneseteren er eðalstaður fyrir gönguferðir inn í Oslomarka skóginn fyrir harðasta útivistarfólk enda kappnóg af góðum göngustígum á svæðinu. Aðrir geta fengið sér kaffi og slakað með kaffi eða mat á setrinu sjálfu.
…ekki síðri gönguleið er meðfram Akerselva ánni sem rennur um alla borgina úr Maridalsvatni og út í sjó. Ráð er að koma við á Telthusbakken á þeirri leið og skoða Akerkirkjuna gömlu þar sem sjá má grafir frægra heimamanna á borð við Munch og Ibsen. Um tvær klukkustundir tekur að ganga frá Maridalsvannet og niður í miðborg Oslóar og margt að sjá á leiðinni.
…Slottsparken er alltaf vinsæll bæði hjá heimamönnum og gestum. Má þar vitna vaktaskipti konunglegu varðsveitarinnar daglega klukkan 13:30 og stilla klukkuna eftir því…
…ekki síður er ókeypis að valsa um Vigelandsgarðinn og kynnast fremsta skúlptúrlistamanni Norðmanna sem þar á yfir 200 verk til sýnis. Grasagarðurinn við Munch safnið er yndislegur á sumrin…
…mörg söfn Oslóar hætta að krefjast aðgangseyris á veturna og aldrei hefur kúltur drepið nokkurn mann okkur vitandi. Munch safnið er eitt þeirra sem verður ókeypis um leið og sumarvertíðinni er lokið þann 1. október og er þangað frítt fram í lok mars. Sömu sögu má segja um Stenersen safnið þar sem áherslan er á nútímaverk norskra listamanna og þá er ókeypis inn á Vigelandsafnið yfir vetrartímann…
…sé fólk eirðarlaust eða skítblankt á sunnudögum er hægt að rölta inn í Þjóðminjasafnið, Nasjonalmuseet, og Nútímalistasafnið, Nasjonalmuseet for Kunst, Arkitektur og Design, sem bæði bjóða frían aðgang þennan dag…
…þá er Ráðhús Osló, Oslo Rådhus, opið gestum án endurgjalds og leiðsögn í boði þrívegis á miðvikudögum…
…annað sem nefna má í fríflórunni í Osló er fjöldi baðstranda við Oslófjörð eða lagst fyrir við eitt af fjölmörgum vötnum í Oslomarka sem vitaskuld eru aðeins nýtileg yfir sumartímann. Paradisbugta við Bygdøy er einna vinsælasti ódýfustaður norskra og þangað er hægt að komast þráðbeint með strætó 30A.
…á veturna er Oslófjörður lítt heillandi til dýfinga nema fyrir sjóbaðsunnendur en því skemmtilegra að gaufast um í Oslomarka. Þá skipta margir út gönguskónum fyrir gönguskíðin og allnokkrar brekkur eru vænlegar fyrir svigskíðafólk…
…þá eru líka opin tvö skautasvell í borginni sem frír aðgangur er að. Narvisen skautasvellið við Karl Jóhanns götu er æði vinsælt og hægt er að skauta líka frítt við Frognersetrið fyrrnefnt…
…frítt er líka að fylgjast með við Holmenkollen í febrúar til mars þegar einn áfangi heimsmeistarakeppninnar í skíðaíþróttum fer þar fram. Frítt er líka að fylgjast með tugum tónleika sem standa yfir utan- og innandyra víða í borginni á Musikkfest Osló sem ávallt fer fram í júní ár hvert. Osló á sína eigin Menningarnótt, Oslo Kulturnatt, sem ekki er amaleg heldur. Þann dag er allt galopið og frítt en sú hátíð fer fram í september ár hvert. Mánuði áður í ágúst fer fram Melafestivalen sem er suðupottshátíð kvikmynda, tónlistar og ýmissa menningarviðburða annarra.
Svo má verða sér úti um allra ódýrustu gistingu hér að neðan og koma frá Osló aftur með afgang í buddunni.





