Þ að truflar marga Íslendinga hversu mjög London er almennt dýr ætli menn að lyfta sér upp þar nokkra daga eða svo. Vissulega eru betri hótel og matsölustaðir í dýrari kantinum en á móti kemur að London á sér fáa keppinauta hvað varðar söfn og sjónarspil sem njóta má án þess að greiða pund fyrir.

Eitt allra besta safn Englands og þótt víðar sé leitað er Breska safnið, British Museum, og aðgangur þangað ókeypis
Þá er ekki verið að meina þann unað sem fólk getur haft af mörkuðum eða hátíðum í borginni og því mikla mannlífi sem einkennir London öllum stundum heldur fjölda sögufrægra staða og safna sem kostar ekki neitt að heimsækja. Er reyndar fjöldi ókeypis skemmtunar í London meiri en svo að ferðamenn komist yfir á nokkrum dögum.
Hér er það helsta og forvitnilegasta sem hægt er að njóta án þess að sjá eftir einum skildingi í borginni.
Leiðbeinandi kort af stöðunum neðst:
Breska safnið (British Museum) – Strangt til tekið er hægt að eyða hér einum mannsaldri eða svo ef skoða á allt hér í þaula enda yfir sjö milljónir sýningargripa sem hér finnast. Hver og einn mun pottþétt finna eitthvað undir þessu þaki sem heillar eða vekur forvitni. Bæði er frítt inn á safnið og leiðsögn um safnið er ókeypis. Heimasíðan.
London safnið (Museum of London) – Eins og nafnið gefur til kynna er saga borgarinnar hér kynnt í máli og myndum og hvað sem segja má um hana deilir enginn um að hún er ein merkasta borg sögunnar. Enn betra er að safnið verður dálítið útundan hjá mörgum ferðamanninum og því eru raðir hér yfirleitt engar. Frítt að öllu leyti. Heimasíðan.
Þjóðarsafnið (National Gallery) – Ómissandi fyrir alla listunnendur og hinum mun ekki leiðast heldur. Stórgott safn verka eftir fjölda heimsþekktra listamanna og hálfur dagur hér lágmark. Safnið stendur að auki við Trafalgar torg sem skemmir ekki neitt. Allt ókeypis en verulegur fjöldi fólks sækir safnið og vænlegast að heimsækja snemma morguns til að losna við raðir. Heimasíðan.
Hafsögusafnið (National Maritime Museum) – Fáar ef nokkrar þjóðir státa af eins mikilli sögu tengt hafinu og Bretar sem gerðu strandhögg og lögðu heilu löndin undir sig þegar best lét fyrir þá. Þetta safn í Greenwich hverfinu er afskaplega skemmtilegt og ýkja margt þar sem kemur á óvart. Hér eru fleiri söfn og Konunglega stjörnuskoðunarstöðin að auki. Greiða verður aðgang þangað en frír aðgangur er að Hafsögusafninu sjálfu. Heimasíðan.
Náttúrulífssafnið (National History Museum) – Stórkostlegt safn í fagurri byggingu. Hér má sjá allt mögulegt tengt lífi á jörð hvort sem er heilu beinagrindurnar af risaeðlum eða stóran hluta safns Charles Darwin. Þá er hér lítill dýragarður opinn yfir sumartímann. Heimasíðan.
Tate safnið (Tate Britain) – Annað af tveimur frægustu söfnum Bretlands sem heita sama nafni. Hitt er Tate Modern sem staðsett er annars staðar en er líka að öllu leyti frítt. Tate er mekka breskrar listar frá fimmtándu öld og fram til þeirrar nítjándu. Heimasíðan.
Riddarakirkjan (Temple Church) – Þessi kirkja hefur löngum þótt falleg smíð og munir hennar ekki síðri. Sprenging varð þó á aðsókn hingað í kjölfar kvikmyndarinnar um Da Vinci lykilinn en hluti þeirrar myndar gerðist hér. Alveg þess virði að skoða þó kvikmyndin heilli lítið.
Viktoría & Albert safnið (Victoria & Albert Museum) – Séu skreytingar af einhverju taginu á áhugalistanum er þetta ómissandi safn enda tileinkað öllum skreyttum munum og þeir skipta tugþúsundum. Fatnaður, vopn, rammar, myndir og hvaðanæva annað sem hægt er að skreyta er listivel gert má finna hér. Safnið kemur mörgum á óvart. Heimasíðan.
Fjöldi annarra safna og listhúsa bjóða frían aðgang hluta ársins eða inn á hefðbundnar sýningar en ekki tímabundnar. Ráð er að skoða þessi að neðan að auki því oftast nær er frítt inn á þau líka.
-
Vísindasafnið (Science Museum) – Heimasíðan
-
Serpentine galleríið (Serpentine Gallery) – Heimasíðan
-
John Soane safnið (Sir John Soanes´s Museum) – Heimasíðan
-
Pálskirkjan (St. Paul´s Church) – Heimasíðan
View Frítt í London in a larger map




