Skip to main content

H ótelstjórinn kom sennilega að máli við okkur því við vorum svo ánægð með allt á hótelinu og vorum ófeimin að láta starfsfólkið vita af því. Hann vildi gjarnan að við mæltum með hótelinu á samfélagsmiðlum og bauð okkur á móti frían þríréttaðan kvöldverð lokakvöldið sem við dvöldum þar.

Getur verið að hæstánægt fólk fái sérmeðferð hjá hótelstjórum í þeirri von að flott umsögn skili sér á samfélagsmiðla? PIC bluechic

Eiríkur og Þóra dvöldu í febrúar í vikutíma á fjögurra stjörnu hóteli á Costa Adeje á Tenerife og voru yfir sig ánægð með nánast allt í ferðinni. Herbergið tandurhreint og stórt með svölum yfir sundlaugarsvæðið. Bros og lipurð mætti þeim hjá nánast öllu starfsfólkinu allan tímann.

Þetta var svona karabískt viðmót sem kom á óvart því það hefur ekki verið reyndin á þeim hótelum á Kanaríeyjum sem við höfum áður dvalið á gegnum tíðina. Þjónusta oftast nær svona la-la og stundum verri en það,“ segir Eiríkur.

Það kom þeim hjónum þó á óvart að síðasta daginn í ferðinni heilsaði sjálfur hótelstjórinn upp á þau þar sem þau sátu í sundlaugargarðinum og nutu lífsins.

Það var dálítið spes,“ útskýrir Þóra. „Hann heilsaði okkur skælbrosandi og spurði hvort okkur vanhagaði um eitthvað. Svo sagði hann að starfsfólkið væri mjög ánægt með hversu ánægð við vorum, enda vorum við ekkert feimin að þakka fyrir afar góða þjónustu. Og þjónustan var tipp-topp nánast allan tímann. Svo vildi hann vita hvort við hefðum áhuga að skrifa umsögn um hótelið á Tripadvisor. Við litum hvort á annað og ypptum öxlum enda ekki vön því að skrifa neitt um hótel eftirá. Við viljum bara njóta á meðan er. Þá bauð hann okkur að borða þríréttað á veitingastað hótelsins þá um kvöldið á kostnað hótelsins ef við vildum vera svo væn að skrifa umsögn.“

Hjónakornin íslensku þáðu þetta fína boð og viku eftir að komið var til Íslands skrifaði Þóra litla jákvæða umsögn um staðinn.

Ég hefði mögulega alveg gert það burtséð frá matarboðinu enda vorum við hæstánægð en við stóðum við okkar. Við höfum hins vegar talað dálítið um þetta síðan og ef það er raunin að hótelstjórar eða yfirmenn hótela elta uppi fólk sem er ánægt með allt og bjóða þeim eitthvað svona eins og þeir buðu okkur, þá er kannski minna að marka allar þessar umsagnir á vef eins og Tripadvisor en maður heldur. Því varla er óánægðir viðskiptavinir að fá svona fínt kvöldverðarboð á kostnað hótelsins.“