W innipeg er merkileg fyrir margra hluta sakir. Borgin er höfuðstaður Manitoba, sem er eitt af fámennari héruðum Kanada, þrátt fyrir mikið landrými, gjöful lönd, vötn og ár.

Kanadíska borgin Winnipeg leyndir allverulega á sér.

Kanadíska borgin Winnipeg leyndir allverulega á sér.

Winnipeg var eitt sinn afar mikilvægur hlekkur í lestarsamgöngum N-Ameríku, með tilheyrandi flutning á vörum og byggingarefni. Því var ansi blómlegt um að litast á fyrri hluta síðustu aldar og í kjölfarið risu upp margar glæsilegar byggingar og stórhýsi. Alveg hreint magnað á að líta.

Eftir Birkir Fjalar Viðarsson

Maður finnur fyrir gamla tímanum og miklum karaktereinkennum, ólíkt nokkru sem ég hef áður séð í Kanada. Einhver gaukaði því að mér að miðbær borgarinnar og það svæði sem spratt í kringum lestarstöðvar væri áþekkt Chicago.

Það sem ég hafði samt hvað mest gaman af því að skoða var öll vegglistin í borginni sem hefð hefur verið fyrir síðan snemma á síðustu öld skilst mér! Það eru ófáar byggingar og mannvirki með frábærlega gerðum paint brush, spreyjuðum og máluðum myndum af öllu tagi. Ótrúlega flott! Allt frá verkum sem eru hrein list og enn önnur sem eru til að auglýsa eitthvað en listamenn bæjarins tóku að sér að myndskreyti í staðinn fyrir að henda upp enn einu auglýsingaskiltinu. Og viti menn, það graffar og “bombar” enginn yfir þessar myndir. Það er mikil prýði af þessu. Það stafar af þessi litagleði, hlýja og persónuleiki. Eitthvað sem Reykjavíkurborg ætti að taka sér til fyrimyndar.

Annars er mikið við að vera í þessari borg eins og öðrum sem eru einangraðar eða langt frá öðrum þéttbýlum svæðum. Há- og lágmenning, frábær veitingahús, góð íþróttalið, háskólar, kaffihús á hverju strái, leikhús, roijal ballet, haugur af hljómsveitum, endalausar listahátíðir af ýmsu toga og auðvitað topp uppistandarar. Svo sprakk á mér hausinn þegasr við gengum um flottustu og mest sjarmerandi 2nd hand verslum sem ég hef nokkru sinni komið inn í. Þvílíkur andskotans eðall! Gott ef hún hét bara ekki Osbourne Village Second Hand Gallery. En ég gæti haft rangt fyrir mér. Pottþétt. Ef þér leiðist í Winnipeg, þá er vandamálið þín megin.

En já, það er margt að sjá þarna og reyna. Það sem mér fannst kannski merkilegast var að sökum þess hversu rosalega kalt veðrið verður á veturna, þá verður ísinn á ánnum sem renna í gegn um borgina, svo svakalega þykkur að hann heldur sér vikum saman. Til dæmis var rosalega gott veður þegar við vorum þarna en heimamenn skautuðu á ísnum í og úr vinnu og skólum. Magnað! Borgastarfsmenn ýta snjónum af ísnum og búa til tvær akreinar. Meistaralegt.

Winnipeg á sér skuggahliðar. Örbirgðin er mun sýnilegri en maður á að venjast í þessum heimshluta. Hún lýsir sér þannig að í óvenju mörgum borgarhlutum og aðalgötum hittir maður fyrir fólk sem er heimilislaust, áfengis- og fíkniefnasjúklinga, geðfatlaða sem hafa orðið úti og svo framvegins. Glæpatíðnin er einhver sú hæsta í landinu. Einnig eru þarna ansi bíræfin glæpagengi sem fara ekki leynt með tilvist sína. Og andrúmsloftið var eftir því. Ég þurfti að vera var um mig á sumum svæðum á vissum tímum.

Ég var hrifnastur af svæðinu í kringum Corydon Avenue, Osbourne Street (The Osbourne Village) og Wolseley. Þar var dásamleg og lifandi stemmning og margt að sjá og gera. Myndi hiklaust íhuga að búa þar.

Til að sjá myndir af Winnipeg skoðið Winnipeg: Love & Hate. Þetta blog er án efa flottasta borgasrmyndarblogg sem ég hef skoðað. Og ég skoða mikið af slíkum síðum. Óháð því hvort þið hafið áhuga á borginni eður ei, þá eru þessar myndir algert afbragð.

Nánar um Winnipeg í vegvísi Fararheill hér.