C inque Terre. Það er eitthvað stórfenglegt og töfrandi við nafnið. Löndin fimm! Það er vissulega stórt nafn fyrir lítið svæði. En þvílíkt svæði. Svona svæði sem fyllir mann lotningu yfir bæði mannana verkum ekki síður en verkum Móður náttúru. Svona svæði þar sem maður væri dálítið sáttur við að draga síðasta andardráttinn eftir að hafa lifað góðu lífi.
Einu gildir við hvern er rætt sem hefur ferðast um eða dvalið í Cinque Terre í Ligúría á Ítalíu. Fólk er annaðhvort orðlaust yfir dásemdum staðarins eða dælir út svo mörgum hástemmdum lýsingarorðum að engu tali tekur.
Það vill stundum gleymast að Cinque Terre er þjóðgarður og staðurinn í heild sinni á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Hér standa fimm þorp sem eru hvert öðru fallegra. Öll standa þau í bröttum hlíðum og jafnvel utan í klettabeltum og staðsetningin ein nægir til að flestir taka andköf af hrifningu. Yfir sumartímann verður svæðið enn yndislegra en ella þar sem hér er vín- og ólífurækt á nánast hverjum bletti og tiltölulega berskjaldað svæðið vel varið af grænum plöntunum.
En heimamenn gera gott betur. Iðandi og þægilegt mannlíf sem vissulega er töluvert litað af túrisma en engu að síður lifir þetta gamla, góða enn hér inn á milli. Hér sitja eldri íbúar á eftirlaunum enn á bekkjum sínum og kippa sér lítt upp við rútufarmana af ferðafólki sem hingað streyma í hrönnum. Ennþá má líka finna stöku einstaklinga sem gera út smábáta héðan og allur afli fer eingöngu til veitingahúsa í Cinque Terre. Þá er ekki síður yndislegt að Ítalir hér mála hús sín í mjög mismunandi litum, oft á tíðum skærum litum sem gera þessi stórfallegu þorp enn fallegri úr fjarska.
Margir ferðavefir halda því fram að þeir fimm bæir sem standa við sjóinn séu saman Cinque Terre. Það er ekki alls kostar rétt. Fleiri bæir sem einnig tilheyra svæðinu standa töluvert ofar og fjarri sjó og verða því oft útundan.
Bæirnir sem tilheyra Cinque Terre eru:
MONTEROSSO AL MARE
Af strandbæjum Cinque Terre er það í Monterosso þar sem fallegustu ströndina er að finna og bærinn atarna er líka hvað þægilegasti bærinn að heimsækja því hann stendur ekki svo bratt eins og aðrir. Það merkir líka að hér er lestarstöð í miðbænum og sömuleiðis eru akvegir hér að hluta til. Hægt að aka alla leið niður á strönd ef sá gállinn er á fólki. Hér má meira að segja sjá heimamenn á reiðhjólum sem ekki er fræðilegur ferðamáti í hinum strandbæjunum fjórum. Sömu
Fyrir vikið er íbúafjöldi hér meiri en í öðrum bæjum Cinque Terre og sömuleiðis túrismi meira áberandi hér. Hér allnokkur hótel við ströndina og sum eiga sín sérsvæði á ströndinni þannig að hún er lokuð að hluta nema fyrir þá sem greiða fyrir aðgang.
Monterosso er í raun tveir bæir. Gamli bærinn lítill en heillandi með sínum þröngu götum og forvitnilegum verslunum en fara þarf fyrir San Cristoforo hæð til að komast í nýja bæinn sem eðli málsins samkvæmt er mun minna spennandi. Það eru göng undir hæðina fyrir vegfarendur en miklu yndislegra að ganga meðfram sjónum þar sem annan göngustíg er að finna.
Það er einmitt í gönguferð meðfram San Cristoforo sem sjá má merkilegan skúlptúr ef vel er gáð. Il Gigante, Risinn, er glæsileg höggmynd af guðinum Neptúnusi þar sem hann heldur upp verönd íbúðarhúss eins á klettanibbu. Magnað verk frá árinu 1910 en skemmdist illa í stormi fyrir nokkrum áratugum.
Ekki hér langt frá má skoða Casa Eugenio Montale sem var heimili eins frægasta kvæðaskálds Ítala en sá vann meðal annars til Nóbelsverðlauna fyrir verk sín.
Kirkja Monterosso er Chiesa San Giovanni Battista og stendur ekki í gamla bænum miðjum eins og gengur heldur meira út við sjó. Tiltölulega hefðbundin gotnesk kirkja með einni undantekningu. Turn kirkjunnar var hluti af vígvirki bæjarins gegn óprúttnum sjóræningjum og óvinum á öldum áður.
Aurora turninn, Torre Aurora, er mikið mannvirki niður við sjóinn fyrir neðan kirkjuna. Það er formlega þessi gamli varðturn, byggður á sextándu öld, sem skiptir Monterosso í tvennt milli gamla bæjarins og þess nýja.
VERNAZZA
Það er álit flestra sem hingað koma að Vernazza sé fallegasti bærinn af þeim er teljast til Cinque Terre. Hann er líka sá eini með náttúrulega höfn þó pínulítil sé. Bærinn liggur bratt niður að höfninni sem er þó vel varin af stórum klettahrygg sem skjagar vel út í sjó. Það var einmitt sú náttúrulega höfn sem hér er sem olli því að Vernazza var mikilvægasti og ríkasti bærinn í Cinque Terre á fyrri tíð þegar kaupskip sigldu til og frá með vörur.
Við höfnina er miðborgartorgið og þar stórkostlegt að vera nema yfir sumarmánuðina. Fjöldi ferðafólks er þá svo yfirgnæfandi mikill að það setur stórt strik í reikning. Heimamenn reyna þó að gera sitt besta úr öllu saman og yfir heitasta tímann má sjá marga synda um í höfninni meðal litríkra bátanna. Það er líka hér sem kirkja bæjarbúa, Santa Margherita d´Antiochia stendur og er skoðunar verð.
Gömul varnarvirki má enn sjá hér víða og þar standa leifar Doría kastalans, Castello Doria, hæst og gnæfa yfir höfnina. Kastalinn látið mikið á sjá en þó má glögglega sjá að þetta hefur verið stórkostlegt mannvirki þegar heilt var.
Eitt er það sem gestir gera sér ekki grein fyrir og það sú staðreynd að Vernazza var sópað af kortinu nánast í heilu lagi í miklu flóði sem hér varð árið 1911. Má heita stórmerkilegt að þessa sjást engin merki enda bærinn endurbyggður nánast nákvæmlega eins og hann var fyrir flóðið.
CORNIGLIA
Ef þú þráir afslöppun og hvíld á ferð um Cinque Terre að sumarlagi er Corniglia líklega þinn vænlegasti kostur. Ólíkt hinum fjóru frægu bæjum í grenndinni stendur þessi hvorki í miklum bratta né við sjó og er í raun líkari hefðbundnum ítölskum þorpum en hinum fjóru í kring. Hingað hægt að aka og stræti og torg ekki níðþröng. Það er þó flókið að stoppa ef fólk er á bifreið því bílastæði eru hér af mjög skornum skammti. Merkilegt er þó að lestarstöð Corniglia er við sjávarmál langt fyrir neðan bæinn. Það tekur á að labba upp en smárútur eru þó til taks reglulega að sumarlagi til að ferja fólk upp og niður.
Ekki svo að skilja að þú hafi bæinn út af fyrir þig. Hér er krökkt af ferðamönnum líka en ekki eilífur ys og þys og hamagangur í öskju. Hér raunverulega hægt að fá hádegismat án þess að fara í röð.
Helsta aðdráttaafl Corniglia, fyrir utan að tilheyra þessu fræga svæði, er án efa útsýnið til hafs. Vegna þess hve hátt bærinn stendur miðað við hina þrjá er hér stórfenglegt að horfa til hafs eða eyða tíma að fylgjast með þokkalegri umferð báta og skipa sem fara hér hjá.
Þó tæknilega séð standi Corniglia ekki við ströndina eru þrjár litlar sendnar víkur fyrir neðan þorpið sem eru allar tilvaldar til að stinga sér til sunds eða busla lítillega. Hér aftur er ekki yfirdrifið af fólki flestum stundum en á móti kemur að hér er nokkuð djúpt og enginn er strandvörður að fylgjast með.
MANAROLA
Fjórði bærinn í hópi þeirra fimm sem prýða strandlengju Cinque Terre er líklega þeirra frægastur. Manarola er myndrænn með afbrigðum og líkast til eru að myndir af þessum sem þú sérð í massavís á netinu þegar flett er upp á svæðinu.
Manarola svipar töluvert til Vernazza nema að hér er engin náttúruleg höfn og jafnvel þó hún væri til staðar er ekkert flatlendi niður við strönd sem nothæft væri undir torg eða samkomustað. Manarola er brattur frá barmi niður að sjó en helsti samkomustaðurinn er torg. Það er hér smábátalægi enda verið settur upp varnargarður hér svo þeir sem sjóinn sækja geti gert það með sæmilegu móti. Oftar eru þó skútur hér og litlir skemmtibátar við kajann. Ströndin hér er klettótt mjög og ekki er ráðlegt að synda mikið hér þess vegna.
Lest gengur alla leið niður að sjó hér og frá stöðinni eru undirgöng inn í bæinn. Sömuleiðis er göngustígur meðfram strandlengjunni og þaðan tignarlegt eða óhuggulegt að horfa upp til þorpsins en stór hluti þess er bókstaflega á þverhnípi.
Kirkja er hér á staðnum ofarlega í þorpinu en sú óspennandi að öllu leyti. Það eina sem hér gæti vakið sérstakan áhuga er lítið safn tileinkað hinum sérstaka ítalska drykk sciacchetrá sem hér um slóðir er gjarnan í boði eftir kvöldverð og á upphaflega rætur að rekja til Cinque Terre.
RIOMAGGIORE
Syðsta þorp þeirra fimm frægu er Riomaggiore en það heitir eftir á sem hér streymdi niður gljúfrið sem þorpið stendur í nú. Áin ekki sjáanleg í dag en hún er sannarlega enn til staðar því hún rennur nú undir þorpið. Hér líka er þorpinu skipt í tvennt og það eru lestarteinar sem það gera. Heimamenn kalla efri hlutann borga dei contantini og þar ræða menn landbrúk í hæðunum en neðri hlutinn er borgo dei pescatore eða hverfi fiskimannanna.
Þó þröng sund og stræti sé regla frekar en undantekning í Cinque Terre er göturnar hér enn þrengri en annars staðar og hér virðast vera enn fleiri ranghalar en í hinum þorpunum. Það er furðu auðvelt að villast hér jafnvel þó bærinn sé þegar öllu er á botninn hvolft afar lítill. Það er bratt hér niður og upp og eina flatneskjan er fyrir ofan línu við kirkjuna. Þar líka eina raunverulega torgið í bænum.
Í Riomaggiore er líka enn mesta útgerð sjómanna af öllum bæjunum. Samkvæmt tölum ferðamálaráðs Ítalíu eru enn yfir 300 fiskimenn í bænum sem í heild telur aðeins 1700 íbúa. Hér má því enn finna menn gera að afla sínum seinnipart dags og jafnvel vel fram á kvöld. Það svæði er vinsælt og auðfundið.
Hér eins og annars staðar er of mikið af ferðafólki yfir annatíma til að njóta út í æsar nema fólki finnist mannmergð spennandi. Hér er þó oft meira af ungum pörum en gengur og gerist og ástæðan sú að fyrsti hluti gönguleiðarinnar meðfram ströndinni frá Riomaggiore yfir til Manarola kallast Via dell’Amore eða vegur ástarinnar. Sumir telja það mikla blessun fyrir sambönd að ganga þann spöl. Það er fyrir utan þær tugþúsundir sem ganga alla strandleiðina um Cinque Terre en sú heitir Sentiero Azzurro eða vegurinn blái í lélegri þýðingu.
Í Riomaggiore er að finna ágætt safn um sögu bæjarins og Cinque Terre. Það er Museo delle Cinque Terre Antiche. Þar kemur berlega í ljós hvers vegna svæðið þótti þess virði að flokkast sem mikilvægur arfur mannkyns á heimsminjaskrá SÞ.
GROPPO
Minnsta þéttbýlið í Cinque Terre er Groppo sem er skammt fyrir ofan Manarola. Þetta er agnarlítið þorp sem verður á vegi allra sem hér aka um en aðrir gætu misst af. Svona til að gefa fólki hugmynd um smæðina þá búa hér árið um kring heilir 49 íbúar.
Groppo er krúttlega lítið og fólk fljótara að skoða þorpið en að taka sjálfval í lottó. Ekkert stórmerkilegt er hér að sjá svo sem en við verðum að segja ykkur frá því að besti veitingastaðurinn sem Fararheill prófaði í Cinque Terre er staðsettur hér. Það er fjölskyldustaðurinn Cappun Magru.
VOLASTRA
Séu ólífur í uppáhaldi er til töluvert margt verra í heiminum en stoppa hér stundarkorn eða lengur. Volastra stendur efst á fallegri hæð nánast beint upp af Manarola og ekki langt frá Groppo (sjá kort). Nafnið þessa þorps merkir þorp umkringt ólífum og það er alls engin lýgi. Hér eru ólífuplöntur um allt alls staðar.
Eins og Groppo er þetta lítið þorp og eftir þrjár til fjórar götur er búið að skoða þorpið í heild sinni. Hér er ágæt kirkja og hér fer líka fram þorpshátíð í byrjun ágúst þar sem ólífur eru í aðalhlutverki. Sú hátíð vel sótt af fólki úr héraði.
SAN BERNADINO
Þriðja og síðasta þorpið sem flokkast innan Cinque Terre þjóðgarðsins er San Bernadino sem er enn eitt smáþorpið og þetta nánast beint fyrir ofan Corniglia. Hér aftur engin ósköp um að vera en það er líka rólegheit sem heillað geta ferðalanga um þetta svæði. Sérstaklega ef þvælst er um á annatíma þegar velflestir staðir eru pakkaðir af ferðamönnum.
Stór plús við San Bernadino er útsýnið. Þorpið stendur hátt á hrygg einum og þaðan kannski besta útsýnið til sjós og til bæði Manarola og Corniglia.