E kki eru svo margir áratugir síðan borgin Bangkok var ein mest framandi borg heims. Þótti afar merkilegt að leggja á sig för þangað enda langt að fara og lýsingar þær sem ferðamenn komu með til baka áttu að því er virðist afskaplega lítið skylt við kaldan íslenskan raunveruleika. Nánast eins og um skýjaborg úr gamalli teiknimyndasögu væri að ræða. En ekki lengur.

Bangkok hefur ásamt Tælandi öllu orðið að skólabókardæmi um yfirgengilega græðgi og kæruleysi ekki síst eftir að ferðamenn til landsins fóru að teljast í milljónum fyrir um 30 árum síðan. Tæland hefur ekki beðið þess bætur og Bangkok ekki heldur.

Mesti glansinn er þannig nokkuð farinn af borginni en hrátt undirlagið hefur þó mikið aðdráttarafl og hér þarf ekki sálu að leiðast eina sekúndu.

Bangkok er höfuðborg Tælands og langfjölmennasta borgin í landinu með 11 milljónir íbúa samkvæmt opinberum tölum. Til er fræðimenn sem segja íbúafjöldann mun meiri en það enda hérlend hagstofa víst ekki upp á marga fiska.

Það er líka tilfinning ferðafólks í borginni. Mannþröng er alls staðar í öllum götum og gríðarleg mengun og hávaði fram úr hófi gera marga spennta ferðamenn afhuga Bangkok á nokkrum dögum.

En leiðinleg er hún ekki. Fjölbreytt mannlífið og framandi upplifanir að ógleymdri merkilegri menningu og sögu gera hana að æði spennandi áfangastað.

Vitaskuld er kynlífsiðnaðurinn hér áberandi eins og víða annars staðar á stöku stöðum en á móti kemur að hyggist menn versla er varla til sú borg í heiminum þar sem úrval, löglegt og ólöglegt, er meira og verðlag betra.

Hér sjást líka sömu yndislegu brosin á andlitum heimamanna en munurinn kannski sá að hér virðast þau oftar fals en í strjálbýlli héruðum Tælands. Hér eru margir með dollaramerki í augum og svindl og prettir nokkuð algeng iðja.

Fararheill hefur heimsótt Bangkok þrívegis á liðnum árum og óvíða er fólk meira á lífi en á ferð um Bangkok. Hér úir og grúir af öllu mögulegu undir sólinni og það veltur á persónuleika hvers og eins hvort slíkt hittir í hjartastað eða ekki.

Loftslag og ljúflegheit

Einu gildir hversu mjög menn eru vanir hita og mollu. Engir nema heimamenn labba langa leið í Bangkok án þess að svitna á stöðum sem þú vissir ekki að finndust á líkamanum. Borgin er ekki langt frá miðbaug svo meðalhitinn er alltaf hár en það sem gerir illt verra að loftmengun er hér mikið vandamál og vindhviður blása hér sjaldnar en J.D.Salinger gefur út bækur. Hitinn hér alla daga ársins er Benídorm í júlí sinnum tveir.

Hverfi

Fáir sem dvelja í Bangkok um skamman tíma verða nokkurn tíma varir við eitthvað sem minnir á skipulag í borginni. Hún er í raun einn grautur af húsum, bílum og götum en það helgast af því að á 20 ára tímabili fjölgaði íbúum hér um átta milljónir. Fáar borgir þola svo mikið á stuttum tíma án þessa að glundroði fylgi í kjölfarið og það er reyndin hér.

Það ætti að segja sitt að strangt til tekið er engin miðborg í Bangkok. Þá er nánast út í hróa að ætla að lýsa helstu hverfum því þau eru yfir 50 talsins og velflest utan við helstu áfangastaði ferðafólks. Fyrir fólk sem ætlar að kynnast borginni á viku eða tveimur er best að gleyma því strax því borgin er víðfem og allir hlutir hennar hafa upp á eitthvað að bjóða.

Ratvísi

Ástæða þess að yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna kemur hingað í skipulögðum ferðum með fararstjóra er sú að Bangkok er ein erfiðasta borg heims að rata um. Borgin sjálf er afar óskipulögð og hér er víða hátt byggt svo vonlítið er að ætla sér að rata með kennileytum. Kort gagnast aðeins upp að marki og síðast en ekki síst er svo mikið líf og læti í borginni alls staðar að margir eiga erfitt með að hugsa skýrt.

Besta leiðin til að þvælast um án þess að þekkja til er að gista á hóteli við loftlestarkerfið og læra á það. Það kerfi er einfalt og auðlært og þú kemst alltaf heim aftur svo lengi sem þú rekst á slíkar stöðvar.

Þrjár götur eða svæði sérstaklega er ágætt að leggja á minnið á korti áður en menn demba sér af stað. Það eru Silom, Sathorn, Siam og Rachadamri. Silom og Sathorn tilheyra fjármála- og verslunarhverfi borgarinnar. Þar finnast öll helstu hótel borgarinnar og þar eru velflest sendiráð líka.

Siam torgið er í raun aðeins mikil umferðargata en þar eru þó þrjár af stærstu verslunarmiðstöðvum borgarinnar. Þær eru allar ferlíki að stærð og þess vegna ágætar til viðmiðunar. Siam er líka afar vinsæll meðal ungmenna.

Tvær stórar verslunarmiðstöðvar er líka að finna á Rachadamri götu. Þar er einnig Pratunam útimarkaðurinn mikli en það sem sameinar þessa þrjá staði er að í öllum eru bæði strætisvagnastöðvar og sömuleiðis ganga þangað loftlestir BTS.

Götukerfi og merkingar í Bangkok eru æri flóknar og hæfustu stærðfræðingar ættu erfitt um vik hér. Í verulega einfölduðu máli eru stærri götur merktar thanon, skammstafað th, meðan götur út frá þeim kallast soi. Flækist málið enn því allar stærri hliðargötur hafa svo enn minni hliðargötur sem einnig kallast soi og þessar eiga það til að blandast hverfa á milli. Ekki nóg með það heldur eru heimamenn ekkert að stressa sig á kórréttum götunöfnum. Gatan PahonYotin virðist fyrir útlendingum allt önnur gata en Phahonyotin en er ein og sama gatan í raun.

Einfaldasta, en alls ekki einföld, leiðin til að rata er að leggja hverfanöfn á minnið fremur en götunöfn. Þannig er líka auðveldara að fá heimamenn þér til aðstoðar enda kannast flestir við helstu hverfi. Í versta falli er alltaf hægt að verða sér úti um leigubíl eða létthjól en þeir aðilar rata ótrúlega um borgina.

Snöggsoðin sagan

Bangkok var til fjölda ára bara enn eitt lítið þorp á bökkum Chao Phraya árinnar þangað til ný höfuðborg var þar staðsett árið 1782. Var bærinn nefndur Krung Thep í kjölfar þess sem þýðir gróflega borg englanna. Nafnið á frummálinu er þó ívið lengra. Svo langt reyndar að það er í heimsmetabók Guinness sem lengra staðarnafn heims. Íbúar Bangkok eru langflestir af blönduðu kyni Tælendinga og Kínverja en þar búa ennfremur hundruðir þúsunda erlendra þegna auk fjölda sveitafólks sem þangað streymir daglega í von um betra líf.

Til og frá

Tveir alþjóðaflugvellir eru staðsettir í grennd við borgina og er umferð um þá báða mikil öllum stundum. Sé þörf að fara milli þeirra skal gefa sér þrjár klukkustundir að lágmarki. Suvarnabhumi flugvöllur Í 30 kílómetra fjarlægð frá borginni stendur þessi nútímalegi flugvöllur og er aðalflugvöllur Bangkok. Stór og mikill en ekki vanþörf á enda umferðin mikil. Nafnið er framborið „soo-wanna-poom“. Aðeins er um eitt stöðvarhús að ræða en stærð þess er ægileg og gefa skal sér vænan tíma til að fara um innandyra. Stöðin er nýtískuleg og þar er fjöldi veitingahúsa og kaffistofa. Frítt net er í boði fyrir brottfararfarþega. Hluti hússins samanstendur af verslunum og er stundum erfitt að átta sig á að fólk er í flugstöð en ekki verslunarmiðstöð svo mikið er úrvalið. Hafa skal í huga þó að eftir að farið er um öryggishlið er engin þjónusta af neinu tagi nema salerni.

Leigubílar finnast hér á annarri hæð og kostar far inn í borgina að meðaltali 1900 krónur að meðtöldu tollgjaldi og sérstöku gjaldi sem sett er á frá flugvellinum. Það ferðalag getur tekið allt að klukkustund á álagstímum en 50 mínútur er eðlilegri ferðatími. Fylgja skal leigubílaskiltum í flugstöðinni að þjónustuborði þar sem ferðamenn fá afhendan miða með áfangastað sínum á tælensku fyrir leigubílstjórann. Löng bið getur orðið eftir bílum en þá er einnig hægt að taka fría skutlu að Public Transport Centre sem er önnur bygging en þar bíða enn fleiri leigubílar.

Hér eru líka til leigu lúxusleigubílar sem einnig eru á annarri hæð. Fyrir þá punga menn út tvöföldu verði hið minnsta eða kringum 3000 krónur og jafnvel hærra verð en það. Enn eitt möguleiki fyrirfinnst hér en það er að leggja leið sína upp á efstu hæð við brottfararanddyrið og taka einn þeirra leigubíla sem eru að skila fólki á flugvöllinn. Þannig er hægt að komast aðeins ódýrar inn í borgina en þó aðeins ef leigubílstjórinn skilur hvert þú vilt fara. Þá eru þarna líka á sveimi ólöglegir leigubílar án gjaldmæla hvers bílstjórar lofa öllu fögru en eru alltaf dýrari þegar upp er staðið.

Fyrir þá sem kjósa að eyða sínu fé fremur í skemmtilegri hluti er vænlegast að taka flugskutlur eða rútur frá flugvellinum og inn í borgina. Ódýrast er að taka flugskutluna, Airport Express, frá Public Transport Centre en þangað þarf að taka skutlu frá flugvellinum. Er um næstu byggingu að ræða og ferðin stutt. Þaðan fara bæði fjórar mismunandi flugrútur á klukkustundar fresti til hinna ýmsu betri hótela í borginni. Tekur hver ferð frá 60 til 90 mínútur. Fargjaldið aðra leið er 550 krónur.

Hefðbundnir strætisvagnar eru hér líka og í raun eru þeir ekki mikið lengur inn í borgina en þegar þangað er komið er víða stoppað áður en komið er á miðborgarsvæðið. Eftirtaldir vagnar ganga inn í borgina:

  • 549: Suvarnabhumi-Bangkapi

  • 550: Suvarnabhumi-Happy Land

  • 551: Suvarnabhumi-Victory Monument (BTS)

  • 552: Suvarnabhumi-On Nut (BTS)-Klong Toe

  • 552A: Suvarnabhumi-Sam Ron

  • 553: Suvarnabhumi-Samut Phrakan

  • 554: Suvarnabhumi-Don Muang Airport

  • 555: Suvarnabhumi-Rangsit

  • 556: Suvarnabhumi-Southern Bus Terminal

  • 559: Suvarnabhumi-Rangsit

Kostar far með strætisvögnum heilar 125 krónur sem verður að teljast viðunandi verð. En auðvitað þarf að koma sér frá strætisvagnastöðinni og á hótel eða annað áfangastað og bætist sá kostnaður því við.

Til umhugsunar: Margir ferðalangar til Tælands eru alls ekki á leið til höfuðborgarinnar. Langferðabílar fara frá þessum flugvelli beina leið til staða á borð við Pattaya eða Nong Kai.

Smíði loftlestar frá flugvellinum og að Umferðarmiðstöðinni að Makkesan í borginni hefur verið í gangi um nokkurra ára skeið en ítrekað hafa framkvæmdir tekið lengri tíma en ráðgert var en síðustu fregnir hermdu að taka ætti kerfið í notkun um miðbik árs 2010. Yrði lest áberandi fljótlegasti ferðamátinn inn í borgina. Don Muang flugvöllur Þetta er hinn gamli flugvöllur borgarinnar og töluvert lakari en sá nýi. Hingað fljúga þó mörg flugfélög ekki síst asísk lágfargjaldaflugfélög á borð við Nok eða AirAsia. Þá fer töluvert innanlandsflug um þennan völl.

Leigubíll er fljótlegasta leiðin inn í borgina sem héðan tekur um 30 mínútur að öllu eðlilegu. Nóg er af þeim beint fyrir utan flugstöðina og meðalgjald að meðtöldum tollum ætti ekki að vera hærra en 1400 krónur. Sé fólk á ferð eftir 23 á kvöldin eru leigubílarnir eina leiðin inn í Bangkok. Forðast skal bíla með hvítum númeraplötum. Þeir líta að öðru leyti út eins og hefðbundnir leigubílar en hafa ekki starfsleyfi.

Gengt flugstöðinni er lestarstöð og fargjald inn í borgina fækkar klinkinu í veskinu um heilar 70 krónur. Lestar á þessari leið eru þó miður geðslegar, komnar til ára sinna og ganga stopult. Þá er afar tómlegt í þeim á kvöldin og ekki óalgengt að betlarar komi sér þar fyrir þegar hægja fer um. Annar möguleiki er að taka hefðbundna strætisvagna en til þess þarf að fara yfir sérstaka göngubrú að næsta vegi og stoppa þar næsta vagn. Margir vagnar ganga inn í borgina en vænlegast er að veifa vagni 504. Sá fer að CentralWorld verslunarkjarnanum sem er tiltölulega miðsvæðis í Bangkok. Þar er loftlestarstöð svo handhægt og ódýrt er að halda förinni áfram að því gefnu að áfangastaðurinn eða hótelið sé nálægt loftlestarstöð. Vagn 504 stoppar einnig við Lumpini garð en þar er jarðlestarstöð.

Samgöngur og snatterí

Bangkok er heimsþekkt fyrir umferðaröngþveiti á öllum helstu götur borgarinnar linnulítið frá morgni til kvölds. Hrein firra er að ætla að leigja sér bíl hér og er sterklega mælt gegn því. Öllu betri leiðir eru færar og þrjár talsins. Loftlest (Skytrain BTS), jarðlest(metró) eða ferjur eða bátar um síki og ár sem liggja víða um borgina.

Loftlestakerfið: Samanstendur af tveimur línum; Ljósgrænu línunni, Sukhumvit, og Dökkgrænu línunni, Silom, sem liggja saman á einum stað. Leiðakort má sjá hér. Kerfið er afar fljótlegt og einfalt og langbesta leiðin til að þvælast um borgina án þess að fá hreinlega viðbjóð fljótlega vegna hávaða, öngþveitis og mengunar á götunum.

Eðli málsins samkvæmt fara loftlestir um á brúm sem þvera borgina. Hver stöð er á tveimur hæðum. Á þeirri fyrri er miðasala og brautarpallur á þeirri efri. Loftlestakerfið dekkar megnið af miðborg Bangkok og er hentugt til heimsóknar á Síamtorgið. Stakur miði kostar frá 50 krónum og upp í 190 krónur eftir fjölda hverfa sem ferðast er um. Víða er aðeins hægt að kaupa miða í sjálfsölum og til þess þarf 5 eða 10 baht í klinki. Góð kort á ensku er að finna á öllum stöðvum. Nokkrar tegundir korta eru einnig til sölu í þeim miðasölum sem opnar eru. Dagskort með ótakmörkuðum ferðum kostar 450 krónur. Stimpla þarf alla miða og kort við upphaf ferðar í þartilgerðum hliðum en passa þarf upp á miða og kort því þau þarf aftur að stimpla á áfangastað. Gleypa vélarnar alla staka miða þar en kortin skila sér aftur.

Til umhugsunar: Aðeins fjórar af stöðvum loftlestanna bjóða aðgengi fyrir fatlaða; On Nut, Chong Nonsi, Asok Sukhomvit og Siam.

Umsjónaraðili loftlesta borgarinnar er Bangkok Mass Transit System Company. Heimasíða þeirra hér. Jarðlestakerfið: Jarðlestastöðvar Bangkok eru merktar MRT en aðeins er um eina línu að ræða eins og sakir standa. Sjá kort hér. Tengist jarðlestin loftlestakerfinu á þremur mismunandi stöðum en fargjaldakerfin eru ólík og miðar í jarðlest ganga ekki í loftlestina né heldur öfugt. Miðaverð er þó hið sama; stakur miði kostar frá 50 krónum og uppúr eftir lengd ferðalags. Sjálfsalar eru í öllum stöðvum og miðasala líka og allar jarðlestarstöðvar eru aðgengilegar fötluðum.

Til umhugsunar: Öryggi er í hávegum haft á jarðlestarstöðvunum. Láttu þér ekki bregða þó farið sér gegnum bakpoka eða töskur við aðgönguhlið. Það er aðeins reglubundið eftirlit. Ennfremur skal hafa í huga að bannað er að hafa stórar töskur meðferðis og jarðlest því enginn kostur til eða frá flugvelli eða lestarstöð.

Siglingar: Stundum geta bátar verið fljótari í ferðum en önnur samgöngutæki og það á við um marga báta sem þjónusta farþega á Chao Phraya ánni sem liðast eins og snákur um Bangkok. Ódýrasti og fljótasti mátinn er með Chao Phraya Express bátunum sem eru strætisvagnar árinnar og fara hana fram og til baka allan sólarhringinn. Þægilegast er að komast að ýmsum merkum minjum borgarinnar úr bátum sem þessum. Allar bryggjur er vel merktar á ensku og það eina sem helst skal varast er að taka báta með grænum eða gulum flöggum við hún. Þeir stoppa aðeins á allra helstu stöðum en eru fyrir vikið enn fljótari í förum. Sjá nánar á þessu korti. Stakt fargjald með Express bátunum eru 44 krónur og dugar það frá Wat Rajsingkorn til Nonthaburi. Mikið er að sjá á þeirri leið. Tíðni bátanna er frá sjö mínútum og upp í 20 mínútur allan sólarhringinn.

Skipti peningar ekki öllu máli er kannski ráð að taka far með túristabátum er fara sömu leið og Express bátarnir. Þeir eru þó þægilegri og boðið upp á leiðsögn á ensku. Dagspassi með slíkum bátum kostar 550 krónur. Þeir ganga á 30 mínutna fresti til 3 á næturnar. Enn aðrir smærri bátar ferja fólk um Khlong Sean Saeb sem er eitt stærsta síki borgarinnar og liggur þvert meðfram Petchaburi vegi. Eru þess lags bátar nánast eingöngu notaðir af heimamönnum til og frá vinnu og því er hægt að sjá hina raunverulegu Bangkok úr slíku farartæki. Þeir eru þó ekki fyrir alla enda jafnan troðið í þá og þeir eru ekki ýkja merkilegir að sjá. Þurfa menn að vera fljótir úr og í því þeir stoppa aðeins augnablik við bryggjur á leiðinni. Þá er ekki fýsilegt að lenda í síkinu eða fá skvettur yfir sig enda allt vatn hér herfilega mengað. Miða skal versla af miðasölumönnum um borð sem þekkjast á hjálmum þeim er þeir nota. Kostar far milli 50 og 70 króna. Vænlegasti staðurinn til að fara um borð í slíkan farkost er undir bryggjunni við Central World Plaza.

Að síðustu er allt falt fyrir fé hér sem annars staðar. Vilji menn skoða hluti utan alfararleiða er hægt að leigja báta víða en það er þó dýrt. Eðlilegt verð ætti að vera kringum þúsund krónur á klukkustund en bátseigendur margir vilja ekki leigja báta sína undir tvö þúsund krónum.

Strætisvagnar: Fullyrða má að meðan strætisvagnar hér skipta hundruðum og eru ódýrasti ferðamátinn í borginni borgar sig ekki fyrir ferðafólk að notast við þá að ráði. Fjöldi leiða er yfirþyrmandi og leiðakerfið ruglingslegt nema menn þekki borgina vel. Þá eru þeir ekki ýkja þægilegir og flestir bjóða enga loftkælingu á ferðum sínum. Verst er samt kannski að það er afskaplega auðvelt að villast með þeim, bílstjórar tala ekki ensku og fyrir utan miðborgina eru stoppistöðvar ekki með upplýsingar á öðru tungumáli en tælensku. Þá lenda vagnarnir iðulega í umferðarteppum og eru kjaftfullir svo sæti er engan veginn tryggt. Ferð með strætisvagni er þó ávísun á ævintýri og vilji menn láta á það reyna má finna takmarkaðar upplýsingar hér. Gróf útlistun á strætisvögnum borgarinnar er svona:

  • Grænir vagnar – Í raun aðeins sendiskutlur og fólki troðið inn eins og sardínum. Bílstjórar þessara bíla þykja ávallt eiga sér ósk um hryllilegan dauðdaga og aka bílunum þannig. Fargjald fyrir slíkt ævintýri eru 25 krónur.

  • Rauðir vagnar – Stærri og plássið betra og að auki loftkældir. Fargjaldið 22 krónur.

  • Hvítir og bláir vagnar – Aka sömu leiðir og þeir rauðu og eru jafn þægilegir en reknir af einkafyrirtæki og því fargjaldið tveimur krónur dýrara.

  • Bláir og gulir vagnar – Þessir eru hvað þægilegastir en fargjald fer eftir lengd ferðalags.

  • Appelsínugulir – Bestu vagnarnir í Bangkok og allir loftkældir. Fargjald fer eftir lengd ferðalags.

  • Bleikir vagnar – Smárútur sem helst sjá í miðborginni. Loftkældir og nútímalegir. Fargjaldið 100 krónur og hafa verið rétt klink til greiðslu.

Til umhugsunar: Strætisvagna skal forðast eins og heitan eld nema fólk sé virkilega reiðubúið að eyða löngum stundum í umferðarteppu og hafi einhverja hugmynd um hvert verið er að fara. Þó vagnar eigi að fara sömu leiðir er það ekki alltaf raunin. Alla vagna þarf að stoppa með því að veifa og greitt er miðasala í vögnunum. Passa skal miðann. Farangur er ekki leyfður í öðrum vögnum en þeim sem til flugvallarins fara.

Leigubílar: Þrátt fyrir allt eru leigubílar sennilega besti kostur þeirra ferðamanna sem stoppa stutt í borginni eins og raunin er með meirihluta þeirra. Þeir eru tiltölulega fljótir í ferðum þegar öngþveiti stöðvar ekki alla umferð og eru ódýrir miðað við allt og allt. Allir leigubílar eru loftkældir með mæli. Startgjaldið er 140 krónur og ferðir innan borgarmarkanna kosta sjaldnast meira en 400 krónur alls. Rautt ljós í framrúðu gefur til kynna að leigubíll sé laus. Eina vandkvæðið er að fáir bílstjórar kunna staf í öðru en tælensku og því nauðsyn að kunna að bera fram áfangastað sinn á tælensku eða hafa nafnið skrifað niður á miða.

Ódýrara er að veifa leigubíl á götunni en að taka einn sem bíður. Þekkt er að bílstjórar fara gjarnan með ferðamenn til verslana sem greitt hafa bílstjóranum fyrir að koma með viðskipti. Það er ekki endilega slæmt en hafa skal það í huga enda þær verslanir yfirleitt dýrari en aðrar slíkar. Margir bílstjórar reyna líka „mælirinn bilaður“ trixið til að rífa upp verðið þegar á leiðarenda er komið. Ganga skal úr skugga um það áður en lagt er af stað og þess vegna skipta um bíl ef bílstjórinn sýnir ekki lit. Á stöku leiðum er fljótlegra að fara hraðbrautir og spyr bílstjóri að því hvort það henti hverju sinni. Það flýtir mikið en farþegar verða að greiða tollinn sjálfir á leiðinni. Að síðustu er mikilvægt að eiga smáa seðla til greiðslu. Annars er hætta á að vandkvæði skapist vegna skiptimyntar.

Mótorhjól: Eigi ferðamenn sér dauðaósk er einfaldasta leiðin til að uppfylla þá ósk að setjast á bak motosai. Það eru lítil mótorhjól sem sendast með fólk hingað og þangað styttri ferðir en þau komast yfirleitt hjá öllum umferðarhindrunum nokkuð auðveldlega. Enn einn ferðamátinn sem nýtist vel ef hraði skiptir öllu máli en ekki gefið að þú lifir ferðina af. Ökumenn þessara hjóla aka eins og brjálæðingar og slys eru tíð. Verð eru samkomulagsatriði við upphaf ferðar en farðu ekkert án hjálms en lög gera ráð fyrir að ökumenn og farþegar noti hjálma.

Tuk Tuk – Tæland væri varla Tæland ef engir væri tuk tuk vagnar á götum. Þessi þriggja hjóla farartæki eru jafn hötuð og þau eru elskuð. Vissulega er heillandi að prófa einu sinni en þeir eru tiltölulega dýrir miðað við önnur farartæki og það sem verra er að ökumenn fara undantekningarlítið með erlenda farþega í ákveðnar verslanir sem gefa þeim hlutdeild af allri sölu ef af slíku verður. Þeir gætu því farið með fólk allt annað en óskað er eftir og lítið þýðir að kvarta í fólki sem ekki talar annað en tælensku.

Hjól: Það kann að hljóma fáránlega en það getur verið ágæt lausn að leigja hjól og þvælast þannig um borgina. Sérstaklega er það heillandi í stærri görðum borgarinnar og hjólreiðafólk nýtur sömu réttinda í umferðinni og gangandi vegfarendur.

Söfn og sjónarspil

Það skal viðurkennast að mörg safna sem finnast í Bangkok eru stórundarleg og mjög mörg þeirra heilla eingöngu afar sérstakan og takmarkaðan hóp. Þá eru og mörg þeirra enn þann dag í dag eingöngu miðuð við Tælendinga sjálfa og upplýsingar á öðrum tungumálum oft af skornum skammti.

>> Gamla borgin (Ancient City) – Borgin atarna stendur örlítið utan við borgina sjálfa ekki langt frá Suwananbhumi flugvelli en ferðalagið er þess virði. Þarna má sjá Tæland gamalla tíma en tugir eftirlíkinga af mörgum helstu minjum landsins alls má hér sjá og upplifa. Sumar eftirlíkinganna eru í fullri stærð en aðrar minni. Hér er líka gott að koma til að heyra þögn og finna smá frið eftir eril borgarinnar. Sjá myndband hér. Meðal helstu minja sem sjá má hér eru Khao Phra Wihan, Prasat Hin Phanom Rung, Wat Mahathat Sukhothai, Phra Phutthabat Saraburi, Phrathat Mueang Nakhon, Prathat Chaiya og fleiri. Strætisvagn 511 (Pinklao til Paknam) að endastöð og þaðan smárúta 36 sem fer alla leið til borgarinnar. Opið alla daga milli 8 og 17. Aðgangseyrir 1200 krónur fyrir fullorðna en 800 fyrir börn og unglinga. Heimasíðan.

>> Fiðrilda- og skordýrasafn Bangkok (Bangkok Butterfly Garden and Insectarium) – Þetta safn kemur afskaplega þægilega á óvart. Ekki er um hefðbundið safn að ræða þar sem glæsileg fiðrildi og miður glæsileg skordýr eru fest á pinna í glerkössum heldur eru dýrin hér í sínu eigin opna umhverfi. Yfir 500 tegundir fiðrildra má sjá flögra hér um og fjölda annarra skordýra. Þá er hér sérsafn fyrir smáfólkið. Hægt er að leigja hjól við innganginn og er mælt með því enda garðurinn sjálfur afar fallegur og nóg að sjá. Í raun er um þrjá garða að ræða því við hlið þessa eru Garðar Sirikit drottningar (Queen Sirikit Gardens) og Rotfai garðar (Rotfai Gardens). Loftlest að Mochit eða jarðlest að Chatuchak Park. Opið alla daga nema mánudaga milli 9:30 til 16:30. Aðgangur ókeypis.

>> Brúðusafnið (Bangkok Dolls & Museum) – Við Ratchaprarop veg í Makkasan hverfinu stendur brúðugerðin Bangkok Dolls sem er heimsþekkt fyrir sérkennilegar brúður sínar og safnarar eyða gjarnan háum upphæðum hér. Athyglisvert fyrir alla sem áhuga hafa á slíku. Opið daglega milli 8 og 17. Aðgangur ókeypis.

>> Safn Tælandsbanka (Bank of Thailand Museum) – Hallir og peningar til sýnis hér á stórum grundum við Chao Phraya ánna. Saga fjármálalífs Tælands frá upphafi og byggingar sem safnið hýsa merkilegar og fallegar. Fljótabátur að bryggju Rama VIIII sem er undir glæsilegri brú kenndri við sama mann. Opið virka daga milli 9:30 til 16. Heimasíðan.

>> Barnasafnið (Children´s Discovery Museum) – Ekki safn barna heldur fyrir börn. Staðsett í garði Sirikit drottningar við hlið Fiðrildasafnsins. Hér geta börn lært um lífið og tilveruna á lifandi og spennandi hátt. Þó það hafi verið reist fyrir tælensk börn er gaman að vafra þarna um og smáfólki frá öðrum löndum mun ekkert leiðast. Loftlest til Mochit. Garðurinn er gegnt Chatuchak helgarmarkaðnum. Opið 9 – 17 virka daga nema mánudaga og 10 – 18 um helgar. Aðgangseyrir 300 krónur fullorðnir en 200 fyrir smáfólkið.

>> Steinasafnið (Rare Stone Museum) – Staðsett í Bang Rak hverfinu í úthverfi borgarinnar er þetta merkilega safn fágætra steina og kristalla sem fundist hafa í landinu og reyndar á heimsvísu. Yfir tíu þúsund fágætir steinar alls og margir stórkostlegir. Safnvörður hefur þó fundið einhverja tilhneigingu til að auka fjölbreytnina og þarna má, merkilegt nokk, líka finna safn öskubakka sem smíðaðir eru úr steini. Opið daglega milli 9:30 og 17:30. Aðgangur heilar 600 krónur.

>> Safnahúsið (House of Museum) – Enn eitt dæmið um merkilegt safn. Tvær þriggja hæða byggingar með áherslu á gamalt og gott sem í þessu tilfelli er safn 50 ára gamalla muna víðs vegar að. Ekkert hræðilega spennandi nema vörur í verslunum og heimilismunir frá árinu 1950 falli fólki í geð. Aðeins aðgengilegt með bíl eftir Phutthamonthon sai 2 og við enda þess vegar til vinstri eftir Sala Thammasop vegi. Aðeins opið um helgar milli 10 og 17. Miðaverð 200 krónur. Heimasíðan.

>> Lyfjasafn Tælands (Museum of Thai Pharmacy) – Forvitnilegt safn skammt frá Siam torgi við Sukhumvitveg 38. Velflest þekkt og óþekkt lyf sem notuð hafa verið af landsmönnum hér til sýnis og ennfremur saga lækna og lyfja í landinu. Opið virka daga milli 10 og 16. Aðgangur ókeypis. Heimasíðan.

>> Frímerkjasafnið (Philatelic Museum and Library) – Vandfundinn er sá ferðamaður sem fer alla leið til Bangkok til að líta frímerkjusöfn augum en sé einhver þarna úti er þetta ómissandi staður. Staðsett á 2. hæð pósthússins við Sam Sen Nai og þar gefur að líta frímerki frá upphafi frímerkja í landinu. Opið miðviku- til sunnudaga milli 8:30 og 16:30. Ókeypis aðgangur.

>> Maha Chakri fornleifasafnið (Princess Maha Chakri Sirindhorn Anthropology Museum) – Einfalt og þjált nafn en safnið sjálft aðeins fyrir harða aðdáendur fornleifa er fundist hafa í Tælandi en úrvalið er mikið. Þá er og mikið gert úr lífi og sögu Prinsessunar Maha Chakri. Mánu- til laugardagar milli 9 og 16. Frítt inn. Heimasíðan.

>> Suan Pakkad höllin (Suan Pakkad Palace) – Fyrsta konunglega höllin í landinu sem var opnuð fyrir gestum og gangandi en eigandinn Prins Chumbhot var mikill listaverkasafnari. Hangir því fjöldi verka á veggjum þeirra fimm húsa sem skapa þessa hallarumgjörð. Að auki má þar sjá mikið og gott safn sjávarskelja. Loftlest að Phaya Thai stöð. Opið 9 – 16 alla daga. Gjald er 400 fyrir fullorðna en 300 fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

>> Sunthorn safnið (Sunthorn Museum) – Eitt undarlega safnið til í flóru Bangkok. Hér gefur að líta ýmsa verðmæta forngripi úr ótrúlegustu áttum eins og mótorhjól úr seinni heimsstyrjöldinni og innanstokksmuni ýmsa sem sómt gætu sér í torfkofum Íslendinga fyrr á öldum. Mjög forvitnilega einkasafn en á mann renna tvær grímur þegar í ljós kemur að allir hlutir safnsins eru til sölu fyrir rétt verð. Aðeins opið á laugardögum. Prísinn 800 krónur. Heimasíðan.

>> Baráttusafn verkamanna (Thai Labour Museum) – Blóði, tárum og svita tælenskra verkamanna hér gerð skil í máli og myndum. Safn tileinkað vinnuaðferðum og þróun starfa í landinu frá örófi. Afskaplega spennandi fyrir forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands en varla aðra. Myndband hér. Opið miðviku- til sunnudags milli 10 og 16:30. Aðgangur frír.

>> Þjóðháttasafnið (Thai Life Permanent Exhibition Hall) – Athyglivert safn um sögu þjóðarinnar. Margvísleg þemu tekin fyrir frá aldaöðli og til dagsins í dag. Þróun tungumálsins, matarsiða og þeirra hefða sem hér fyrirfinnast. Áhugvert öllum er áhuga hafa fyrir menningu landsins. Safnið er hluti af Menningarsetri Tælands á Ratchadaphisek götu. Aðeins opið virka daga milli 9:30 og 16:30. Aðgangur frír. Heimasíðan.

>> Listasafn Búdda (Museum of Buddishm Art) – Ágætt safn tileinkað guðinum Búdda sem Tælendingar trúa einatt á. Margir fallegir munir hér en gallinn helst sá að allir ferðamenn í Tælandi verða vitni að Búddalíkneskjum og gripum tileinkuðum honum á hverju einasta götuhorni og reyndar víðar en það. Þess vegna þarf áhuginn að vera fyrir ofan meðallag til að bæta við sig hér. Safnið er í Suan Luang hverfinu á Phatthanakan götu. Opið 10 – 17 alla daga nema sunnudaga. Aðgangur þúsund krónur.

>> Ríkislestarsafnið (State Railway Hall of Fame) – Lestir og saga lesta í Tælandi sögð hér og nokkrar eimreiðar og lestir til sýnis af ýmsum stærðum. Safnið staðsett við vesturenda Chatuchak garðsins við Khamphaeng götu. Opið um helgar milli 8 og 15. Frítt inn.

Til umhugsunar: Siðir og venjur Tælendinga eru mjög frábrugðnar vestrænum hefðum. Undir engum kringumstæðum lítilsvirða umgengisreglur í musterum eða við heilaga staði í Tælandi. Það getur kostað fangelsisdóm. Klæðast skal alklæðnaði enda stuttbuxur bannaðar og vera í alvöru skóm.

>> Wat Prah Kaew og Miklahöll (Wat Prah Kaew & Grand Palace) – Vinsælasti ferðamannastaður í Bangkok er Miklahöll og musterin við Wat Prah Kaew. Hið síðarnefnda er í raun samansafn fjölmargra mustera og annarra fallegra bygginga og er helgasta musteri landsins. Er svæðið allt tiltölulega stórt og umkringt fallegum garði. Þá er hér eitt helgasta staka búddalíkneski í öllu Tælandi; Smaragðsbúddinn sem aðeins er 70 sentimetrar á hæð. Er þetta eitt af örfáum musterum í landinu þar sem engir munkar stunda trú sína. Gefa sér góðan tíma hér. Harðar reglur um fatnað og öll myndataka bönnuð. Að skoðun lokinni ganga gestir beint út að Mikluhöll sem einnig er skoðunar verð. Mikilfenglegt húsið, sem er merkileg blanda evrópsks og tælensks stíls, var bústaður konungsfjölskyldu Tælands fram til ársins 1946 og er enn notað við hátíðlegar athafnir. Hægt er að skoða hluta hússins að innan. Skemmtilegast að komast hingað með fljótabát að Tha Chang bryggju en strætisvagnar 44, 47 og 91 stoppa rétt hjá. Opið daglega 9:30 til 15:30. Aðgangur 850 krónur fyrir einstakling fyrir bæði musterið og höllina. Sjá myndband hér.

Til umhugsunar: Algengt er að svindlarar séu á vappi kringum svæðið. Eitt helsta trix þeirra er að tilkynna að Miklahöll og Wat Prah Kaew sé lokað og bjóðast til að sýna þér aðra áhugaverða staði í borginni. Þeir eru afar sannfærandi en eru að ljúga.

>> Wat Po musterið (Wat Po) – Örskammt frá Wat Prah Kaew er þetta musteri sem einnig er með þeim stórfenglegri í landinu. Eins og Wat Prah er þetta í raun fjöldi mustera með litríkum þökum og skreytingum. Þarna er líka að finna stærsta búddalíkneski í Tælandi, hinn liggjandi Búdda, sem er 46 metrar á lengdina. Fljótabátur að Tha Chang bryggju eða strætisvagnar 44, 47 og 91. Opið 8 – 17 daglega. Aðgangur 150 krónur.

>> Wat Arun musterið (Wat Arun) – Þriðja musterið sem þess virði er að skoða í Bangkok er þetta musteri við árbakka Chao Phraya en nafnið táknar musteri morgunskímunnar. Hér þykir mest um vert að fjóra 82 metra háa turna sem musterið umkringja. Þá koma margir hingað til kvölda tekur enda þykir ekki ónýtt að ná spegilmynd turna musterisins í ánni þegar sól hnígur til viðar. Allir túristbátar á ánni fara hér framhjá en hingað verður einnig komist með strætisvögnunum1, 25, 44, 47 og 62 sem stoppa allir á Maharat götu sem er við musteri þetta. Opið alla daga 8:30 til 17:30. Aðgangur 120 krónur. Heimasíðan.

Til umhugsunar: Önnur minni en forvitnileg musteri í Bangkok eru Wat Saket, Wat Mahathat, Wat Bowon Niwet og Wat Rachaburana.

>> Minnismerki Rama konungs I (King Rama I the Great Memorial) – Ekkert ramakvein heldur risavaxið minnismerki um Rama I konung en sá gerði Bangkok að höfuðborg þess sem þá var Síam. Minnismerkið var reist 1932 í tilefni 150 ára afmælis borgarinnar. Hér er einnig Brú Rama konungs I en þess má ennfremur geta að borgin er kjaftfull af minnisvörðum um konunga landsins gegnum tíðina. Fáir þeirra eru af því taginu að gera sér sérstaka ferð eftir. Fljótabátur til Saphan Hut bryggju. Opið daglega. Aðgangur ókeypis.

>> Þjóðarminnisvarðinn (National Memorial) – Byggður til minningar um þá er fallið hafa fyrir land sitt en hér eru líka veggmyndir sem sýna merkilegar stundir í sögu þjóðarinnar. Hér er súla hins eilífa elds en sú er byggð úr náttúrulegum kristalssteini sem finnst í Tælandi. Ofan á honum er jarðmold frá þeim svæðum sem hörðustu bardagar Tælands hafa átt sér stað. Safnahúsið sjálft að mestu úr gleri og afar fallega. Minnisvarði þessi er aðeins örskammt frá Don Muang flugvelli í Phatum Thani. Opið virka daga frá 9 – 15:30. Frítt inn.

>> Lysti- og almenningsgarðar – Því trúir sennilega enginn fyrr en á reynir að stuttur og nettur göngutúr í hitanum og stækjunni sem alltaf er í Bangkok nægir til að það fossi svita af fölbleikum Íslendingum. Þjóðráð til að slaka á þeim tilfellum er að setjast í einn af fjölmörgum görðum borgarinnar. Í þeim flestum er litríkur gróður og fallegur sem gefur smá skjól fyrir umferðarnið og annarri hávaðamengun. Þá er í mörgum þeirra skúlptúrar og minnisvarðar sem gott er að hvíla augun á. Helstu garðarnir eru:

  • Benchasiri garður er á Sukhumvit götu við Soi 24. Ekki stór en fallegur og miðsvæðis mjög. Flottur skúlptúr. Opinn daglega 5 – 18. Enginn aðgangseyrir.

  • Chatuchak garður er á horni Phahonyothin og Vibhavadi Rangsit gatna. Opinn 5 – 18. Enginn aðgangseyrir.

  • Garður Sirikit drottningar er austan við Chatuchak garð en einnig við Phahonyothin götu. Yndisleg flóra lótusblóma og fallegir gosbrunnar í miðju garðsins. Opinn 5 – 18. Frír aðgangur.

  • Lumpini garður finnst á götu Rama hins fjórða, Rama IV. Risastór og vinsæll. Opinn 5 – 19 daglega. Frír aðgangur.

  • Rommaninat garður er byggður á lóð gamals fangelsis og þar er lítið fangelsissafn. Staðsett við Mahachai götu í grennd við Wat Suhat musterið. Opinn frá 5 – 20. Safnið opið alla daga nema mánudaga milli 8:30 og 16:30. Frír aðgangur.

  • Suan Luang garður er enn einn helgaðu meðlimi konungsfjölskyldu Tælands. Hér er ótrúlegt úrval planta. Garðurinn stendur við Sukhumvit Soi 103. Opinn daglega 5 – 19. Aðgangseyrir 80 krónur.

>> Dýragarðar – Slíkir garðar skipta tugum hér í Bangkok enda dýralíf afar fjölbreytt á þessum slóðum og um það eru ferðamenn forvitnir. Því miður er þó aðbúnaður þeirra margra afar slæmur og margir þekkja sögur af slæmri almennri meðferð á fílum svo dæmi sé tekið. Enn finnast betlarar sem vafra um stræti borgarinnar með fíla sína í von um að freista ferðamanna. Fer það ægilega með stór dýrin að þvælast á þann hátt um mengaða borg. Þá er meðferð dýra í betri dýragörðum borgarinnar heldur ekki eins og best verður á kosið.

  • Dusit dýragarðurinn (Khao Din) – Þessi elsti dýragarður borgarinnar og sá vinsælasti er staðsettur við hlið Konungshallarinnar, Royal Plaza, á Rama VI götu 71. Þar eru til sýnis vinsæl spendýr víða að úr heiminum í fallegri umgjörð. Meðferð dýranna þó miður góð og það sést á þeim mörgum. Strætisvagnar 5, 18, 28, 510 og 516. Opið daglega milli 8 og 21. Aðgangur 400 krónur fullorðnir og 200 krónur fyrir smáfólkið. Heimasíðan.

  • Minningarstofnun Saovabha drottningar (Queen Saovabha Memorial Institute) – Vissulega undarlegt nafn en hér um að ræða einu snákastofnun landsins þar sem lögum og reglum er fylgt í hvívetna. Rekið í samstarfi við Tælenska Rauða krossinn enda hér sem snákaeitri er safnað úr þúsundum snáka dag hvern til að útbúa móteitur. Sem safn er það ekki ýkja merkilegt. Aðeins nokkur búr með mismunandi tegundum snáka til sýnis. Raunverulegt aðdráttaraflið og þá sérstaklega fyrir börn er þegar mjólkunin fer fram milli 11 og 14:30 og í kjölfarið þegar hægt er að handlanga sumar slöngurnar en tugi snáka í Tælandi eru eitraðir. Loftlest til Saladaeng eða jarðlest til Samyan. Stofnunin er á horni Henri Dunant og Rama IV götum. Opið virka daga milli 8:30 og 16:30 en milli 8:30 og 13 um helgar. Aðgangur 800 krónur en 300 fyrir börn.

  • Dýraheimurinn (Safari World) – Stærsti dýragarður Tælands er reyndar meira eins og búgarður en dýragarður. Þessi nær yfir risastórt svæði þar sem dýr af öllum tegundum þvælast um eins og þeim er eiginlegt. Hægt er að keyra um garðinn á eigin bíl eða fara með lest sem fer reglulegar ferðir. Stór og mikill og hálfur dagur hér hið minnsta og lengur ef smáfólk er með í för. Garðurinn er strangt til tekið rétt utan við borgina. Einfaldast er að fara skipulega ferð með leiðsögn sem flest hótelin geta leiðbeint um. Leigubíll er möguleiki en nokkuð dýrt. Að síðustu er hægt að taka strætisvagn 26 frá Victory minnismerkinu að Ram Indra vegi km. 9. Þaðan ganga reglulega skutlur til garðsins. Fjölmörg spennandi spendýr og sjávardýr og margs konar sýningar reglulega. Opið alla daga milli 9 og 16:30 og klukkustund lengur um helgar. Aðgangur 2700 krónur en helmingur fyrir smáfólkið.

  • Krókódílagarðurinn (Samutprakarn Crocodile Farm) – Stærsti krókódílagarður heims og sannarlega heimsóknar virði. Þá er hér einnig lítið risaeðlusafn. Hálfur dagur hið minnsta. Aftur vænlegast að fara skipulagða ferð sem hótelið aðstoðar þig við enda safn þetta 30 kílómetra frá borginni í Samutprakarn. Leigubíll annar kostur hingað. Opið daglega 7 – 18. Aðgangur 1200 krónur.

>> Skemmtigarðar – Enginn skortur er á skemmtigörðum í Bangkok. Fyrir utan slíka leikgarða í velflestum stærri verslunarmiðstöðvum borgarinnar er fjöldi smærri og stærri slíkra garða um alla borg.

  • Dream World – Sennilega vinsælasti skemmtigarður borgarinnar og fátt sem ekki er hægt að finna hér. Opinn daglega frá 10 – 16 og klukkustund lengur um helgar. Strætisvagn 538 frá stöðinni við Victory minnismerkið. Aðgangur 1600 krónur en fyrir 4000 krónur eru gestir sóttir á hótel og fá hlaðborð í kaupbæti við aðgangseyrinn. Heimasíðan.

  • Siam Park City – Gríðarstór vatnsleikjagarður og lítill dýragarður og fiðrildasafn. Staðsettur í Min Buri úthverfinu á Sukhapiban stræti númer 2. Opið alla daga 9 – 18. Aðgangur 900 krónur. Heimasíðan.

Annað áhugavert

Væri samkeppni um bestu og mestu dekurborgir heims má víst að Bangkok væri þar ofarlega og líklega efst á blaði jafnvel. Helgast það af gríðarlegu úrvali dekurmiðstöðva og gildir þá einu hvaða þýðingu menn leggja í það orð. Ekki síður er billegt að láta dekra við sig hér. Ekkert hótel með snefil af virðingu býður ekki upp á fyrsta flokks nudd eða spa þjónustu og er hægt að láta dekra við sig heilu dægrin fyrir brot af því sem það kostar í vestrænum borgum.

Séu peningar ekkert vandamál er dekurþjónusta á öllu flottustu hótelum borgarinnar engu minna en stórkostleg upplifun. Það kostar þó skilding og má gera ráð fyrir að fyrsta flokks pakki á fyrsta flokks hóteli kosti tugi þúsunda. Eitt þekktasta dekurlind heims er til dæmis Oriental í Mandarin Oriental hótelinu. Af heimasíðunni að dæma kostar þriggja til sex tíma dekur þar milli 40 og 130 þúsund krónur. Öllu auðveldara á veskjum ferðamanna eru heilsulindir sem ekki tengjast hótelunum borgarinnar.

Almennt má reikna með að mjög frambærilegt dekur í klukkustund á slíkum stöðum kosti kringum fimm þúsund krónur klukkustundin. Ódýrasta leiðin er að skjóta sér inn í smærri nuddstaði sem finna má um alla borg. Auðvitað er íburður þar lítill en á flestum má fá indælis nudd og meira eða minna dekur með í klukkustund fyrir þúsund krónur. Margir eru hræddir við að lenda á kynlífsbúllum við slíkar kringumstæður en auðvelt er að þekkja sundur raunverulegar nuddstofur og svo hinar þar sem gert er út að kynlífið. Nuddstúlkur þeirra fyrrnefndu fara ekki í bækur fyrir fegurð eða kynþokka öllu jöfnu heldur eru stæltar og sterkar og jafnan í hvítum sloppum.

Golf

Golf er æði vinsæl iðja ferðamanna í Tælandi öllu og heimamenn verið fljótir að átta sig á því. Mikil uppbygging golfvalla hefur átt sér stað undanfarin ár og þykja þeir flestir góðir og stöku vellir eru í heimsklassa. Einir 20 vellir finnast í eða við höfuðborgina. Þeir eru:

  1. Bangkok Golf Club
  2. Thana City Golf and Country Club
  3. Muang Keaw Golf Course
  4. Pinehurst Golf and Country Club
  5. Panaya Golf Club
  6. Panaya Indra Golf Club
  7. Northern Rangsit
  8. Dynasty Golf Club
  9. Natural Park Ramindra
  10. Navatanee Golf Course
  11. Thai Country Club
  12. Bangkok Royal Country Club
  13. Bangsai Country Club
  14. Kiarti Thani Country Club
  15. The Rose Garden Golf Club
  16. Bangpoo Golf Club
  17. Green Valley Country Club
  18. Kristada Golf Hills

Verslun og viðskipti

Þeir miklu töfrar Tælands og Bangkok sem tælt hafa ferðamenn til landsins gegnum árin eru ekki einskorðaðir við fegurð landsins, heillandi og auðvelt kvenfólkið eða sand og sæ sem eru á pari við það besta á veröldinni. Hreint ekki. Verðlag á hlutum og þjónustu hér hefur alltaf heillað verslunaróða vesturlandabúa og ekki síður hið mikla úrval varnings sem hér hefur ætíð verið til sölu. Það er til dæmis Tæland sem selur einna mest allra landa heims af dýrum hvers konar. Mest af því er ólöglegt með öllu en viðgengst engu að síður. Safnarar hvers konar dýra finna hér gósenheim og þarf ekki lengra að fara eftir sjaldgæfu fiðrildi eða eðlu í útrýmingarhættu en á næsta markað í Bangkok. Og engir markaðir í heimi eru eins og markaðir í Bangkok.

Til umhugsunar: Ritstjórn Fararheill vill beina til ferðamanna að láta kaup á dýrum eiga sig með öllu. Ekki aðeins er siðlaust að kaupa og selja fágæt dýr heldur er mikið lagt á dýrin að ferðast óravegu milli landa í hinum og þessum felustöðum fyrir utan þá döpru aðstæður sem þau búa við í prísund sinni. Ólöglegt með öllu er að koma með dýr til Íslands.

Það er ekki auðvelt að benda á einhvern einn stað til verslunar í Bangkok. Margir karlar sem þangað fara með betri helmingnum finna fljótt út að veigamiklar áætlanir um skoðun og skemmtun fara fyrir lítið þar sem úrval verslana er svo yfirgnæfandi að jafnvel gallhörðustu mínimalistar æða þar á milli eins og mýs í Ostabúðinni. Vörur eru almennt ódýrar á vestrænan mælikvarða og á það sérstaklega við um fatnað. Slepptu fjölskyldumeðlim lausum með nokkur þúsund baht kringum Síam torgið og sá skilar sér aftur þegar hjálp þarf við að bera poka.

Markaðir Verslunarmiðstöðvar finnast um allan heim. Það sem gerir Bangkok sérstaklega einstaka eru hinir gríðarlegu markaðir sem þar fara fram undir beru lofti.

>> Chatuchak helgarmarkaðurinn (JJ Market) – Þessu fyrirbæri verður vart gerð orð skil svo vel sé enda má hér valsa um vikum saman án þess að rekast á sama básinn tvisvar. Til að gefa einhverja hugmynd um stærð þessa markaðar sem aðeins er opinn um helgar má ímynda sér stóra evrópska útimarkaði. Slíkir þykja afar stórir með 3000 sölubása. Í Chatuchak eru básarnir yfir 20 þúsund talsins. Staðsettur í norðurhluta borgarinnar en auðvelt að komast með loft- eða jarðlest. Stígðu út við stöðvarnar við Khamphaeng og þú hefur fundið staðinn. Hann lokar klukkan 18.

>> Suan Lum næturmarkaðurinn (Suan Lum Night Bazaar) – Annar risastór markaður og annar af tveimur í borginni sem opnar þegar kvölda tekur. Það hljómar kannski fáránlega en það er góð ástæða fyrir vinsældum slíks markaðar. Hitinn og stækjan minnkar til muna þegar sólin er horfin bak við sjónarrönd og gerir alla verslunarreynslu töluvert skemmtilegri. Hér eru ennfremur margir bjórgarðar sé hitinn samt sem áður að trufla. Nýtískulegur markaður en vörur hér almennt 20 prósent dýrari en í Chatuchak.

>> Patpong næturmarkaðurinn (Patpong Night Market) – Þessi er vafalítið sá vinsælasti meðal ferðamanna sem skýrist af því að hann er staðsettur í rauða hverfi borgarinnar umkringdum börum og nuddstofum sem aldrei fengju starfsleyfi annars staðar í heiminum. Iðandi mannlíf og tonn af vafasömu fólki sem reynir að hafa pening af fölbleikum ferðalöngum. Sama gildir um sölufólk markaðarins. Þessi er áberandi dýrastur markaða í borginni og enginn skal kaupa neitt hér á uppsettu verði heldur prútta fram í rauðan dauðann. Fáir heimamenn versla hér.

>> Sapan Phut næturmarkaðurinn (Sapan Phut Night Market) – Annar vinsæll næturmarkaður en ferðamenn eru hér sjaldséðir enda er um flóamarkað að ræða. Forvitnilegt að tölta í gegn enda einn elsti markaður borgarinnar og rekin með gamla laginu þó það heilli kannski lítið að kaupa notaðar vörur. Opinn frá 19 til miðnættis alla daga. Leigubíll að Sapan Phut brúnni og markaðurinn er þar fyrir neðan. Myndband hér.

>> Wat Sai flotmarkaðurinn (Wat Sai Floating Market) – Annar af tveimur stórum mörkuðum borgarinnar á vatni. Hér sérhæfa menn sig í mat og bændur koma gjarnan hingað með brakandi ferska uppskeru sína daglega. Mikið af góðum kryddum og ýmsu góðgæti sem fæst ekki víða annars staðar. Sérstakur og heillandi markaður. Hingað er best að koma með fljótabátum frá flestum helstu bryggjum á Chao Phraya ánni. Opinn daglega frá 6 til 14.

>> Taling Chan flotmarkaðurinn (Taling Chan Floating Market) – Þetta er vinsælasti flotmarkaður borgarinnar meðal ferðamanna en hann er aðeins opinn um helgar. Fyrst og fremst matarmarkaður en einnig úrval handverksmuna og glingurs.

Verslunarsvæði

  • Ploenchit-Ratchaprasong – Á þessu svæði eru allar helstu stórverslanir borgarinnar á litlum bletti og allnokkrar götur í allar áttir sem eru pakkfullar af stærri og minni verslunum. Götusalar einnig algengir hér og iðandi mannlíf alla tíma sólarhringsins. Þá eru hér líka stærstu handverksverslanir landsins ef minjagripi á að versla.

  • Silom-Surawong-Patong – Ef hægt væri að tala um eina aðalgötu í þessari merkilegu borg er það Silom gata en Surawong gata liggur henni samhliða meðan Patong liggur þvert á þær báðar. Séu sérvörur á óskalistanum er hvergi meira úrval en hér. Þá má finna fjölda enskumælandi klæðskera á þessum slóðum.

  • Silom-Mahesak-Charoenkrung – Í aðra átt frá Silom götu er Mahesak og Charoenkrung en sú síðastnefnda liggur meðfram Chao Phraya ánni. Þarna er mikið um verslanir en flestar í dýrari kantinum. Einn af fáum stöðum þar sem þú gengur að því vísu að kaupa ekki kött í sekk í formi eftirlíkinga. Verðin eru náttúrulega eftir því.

  • Sukhumvit – Deila má um hvor er mikilvægari gata í Bangkok þessi hér eða Silom en hér enn og aftur finnast ógrynni verslana af ýmsu tagi. Verðlag hér þó almennt í lægri kanti og mikið af ódýrum veitingastöðum hér líka.

  • Pratunam-Phetchaburi – Í Pratunam hverfinu er sennilega hvað mesta úrvalið af fatnaði. Allar helstu tískuverslanir bæði þekktar og óþekktar.

  • Baiyoke – Við hlið hæstu hótelbyggingar Bangkok er þessi turn sem er helsti áfangastaður heimamanna sjálfra hvað fatnað varðar. Mikið úrval og hér finna menn líka klæðnað eins og heimamenn ganga í.

  • Chinatown – Bangkok eins og aðrar stærri borgir heims hefur sitt Kínahverfi. Veitingastaðir margir hér en einnig gullsmiðir og glingurverslanir.

Matur og mjöður

Bangkok sjálf er heimsborg mikil og víðast hvar í borginni má finna veitingastaði sem bjóða allt frá heimatilbúnum sveitamat upp í sérinnfluttan íslenskan lax með styrjuhrognum. Engir nema staurblindir ferðamenn komast hjá að rekast reglulega á ágæta matsölustaði en alls óhætt er að tölta inn í fátæklega staði því maturinn er undantekningarlítið hreint ágætur þó umhverfið fái lága einkunn.

Auðvitað er hægt að fylla mallakút hér fyrir fokdýra prísa á allra bestu hótelum og veitingastöðum en gróflega má fullyrða að góð máltíð á hefðbundnum matsölustað kostar vart meira en þúsund krónur. Sé um vestrænan mat að ræða gæti verðið skoppað í tvö þúsund. Þá er og hægt að metta svengd á næsta götuhorni enda matarvagnar algengir á götum úti. Þar fást ágætir smáréttir fyrir hundrað krónur og minna og sé fólk ævintýragjarnt eru steikt skordýr víða í boði.

Hvað næturlíf varðar er vert að muna að orðið var fundið upp yfir þá gengdarlausu stemmningu sem finna má í nokkrum hverfum allar nætur langt fram á morgun. Hinir frægu strippklúbbar eru hér í tonnatali ef svo má að orði komast og eru Silom og Patpong hverfin þar fremst meðal jafningja. Þó hafa yfirvöld verið að beita nýjum lögum sem meina börum og skemmtistöðum að hafa opið lengur en til klukkan eitt á næturnar. Þó er fjöldi smærri bara sem opið hafa eins lengi og kúnnar vilja fá drykk eða félagsskap.

Til umhugsunar: Hafðu með þér afrit af vegabréfi ef djamma á frameftir. Lögregla á það til að loka heilu stöðunum og kanna vegabréf og jafnvel gera fíkniefnaleitir af engu tilefni. Útlendingar eru í sérstaklega slæmum málum finnist tangur af fíkniefnum á þeim. Hér fá menn fangelsisdóm fyrir kannabisneyslu og jafnvel margra ára dóma fyrir neyslu eða vörslu sterkari efna.

Vændi er afar algengt og virðist það vera samdóma álit flestra að kynlíf er hér falt hjá flestum þeim er næturlíf stunda á annað borð. Hafa skal varann á sér öllum stundum því rányrkja er einnig tíð hér og aldrei fara út á lífið með kort eða vasa fulla af peningum. Eftir því er tekið strax. Stelpustrákar Bangkok eru heimsþekktir og margir láta blekkjast þangað til í svefnherbergið er komið. Nokkuð er litið niður á homma og lesbíur í Tælandi öllu en þó eru allnokkrir barir og skemmtistaðir sem sérstaklega er beint að þeim á Silom svæðinu. Finni vestrænn ferðamaður stúlku eða strák til félagsskaps er það óskrifuð regla að hinn vestræni greiði fyrir allt kvöldið í mat, drykk, leigubíla og allt annað sem á eftir kemur.

Hús yfir haus

Hér má finna nokkur af frægustu og bestu en jafnframt dýrustu hótelum heims og skammt frá sóðaleg gistihús sem leigja viðbjóðsleg herbergi niður í 20 mínútur í senn. Langflest hótelin leyfa að komið sé heim með gest en þá er líka bætt við 3000 krónum við herbergisreikninginn vegna þess. Aðalatriðið þegar velja á gistingu er að gæta þess að staðsetja sig nálægt jarðlesta- eða loftlestakerfinu til að komast fljótt milli staða. Í stystu máli má segja að Khao San gata er draumaveröld bakpokaferðalanga. Á bökkum Chao Phraya árinnar eru öll helstu og bestu hótel borginnar en mesta úrval gististaða og hótela á sanngjörnu verði er kringum Sukhumvit götu.

Líf og limir

Þrátt fyrir allt er Bangkok ekki ýkja hættuleg borg og beinar árásir á ferðamenn eru sjaldgæfar. Þó er mikið um svindl og svínarí algengt og virðing fyrir ferðamanninum almennt lítil orðin í höfuðborginni ólíkt því sem gerist víða á strjálbýlum svæðum landsins. Þá er venja fremur en undantekning að erlendir ferðamenn greiði hærra verð fyrir þjónustu en heimamenn og getur þar munað töluverðum upphæðum. Það sem helst ber að varast í Bangkok er eftirtalið:

  • Undir engum kringumstæðum lenda í átökum við heimamenn. Ekki aðeins ganga margir um með hnífa og eggvopn og hika ekki við að nota slíkt í átökum heldur standa Tælendingar alltaf saman gegn útlendingum og sé ráðist á einn þeirra koma tíu aðrir strax og hjálpa viðkomandi.

  • Öll tilboð sem hljóma ótrúlega eru það. Tuk Tuk bílstjórar bjóða gjarnan rúnt um borgina fyrir smápeninga en rúnturinn sá er aðallega milli ákveðinna verslana þar sem bílstjórinn fær prósentur af sölu.

  • Algengt svindl er að segja ferðafólki að einhver staður sé lokaður og vísa þeim annað í staðinn. Þetta er nánast alltaf lygi jafnvel þó viðkomandi sé klæddur og merktur sem leiðsögu- eða lögreglumaður.

  • Tælendingar sem nálgast þig að ástæðulausu á götum úti eru undantekningarlaust að reyna að plata þig. Ekki virða þá viðlits.

  • Stöku vafasamir barir bjóða „útvöldum“ upp á sérstaka sýningu bakatil eða annars staðar í húsinu. Lofa ódýru áfengi og ódýrari stúlkum. Áfengið er yfirleitt ódýrt en slíkar sérsýningar geta kostað tugi þúsunda og enginn fer út aftur án þess að greiða uppsett verð.

  • Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar eru svindlarar. Rútufyrirtæki sem lofa fögru eru oftar en ekki að svindla. Sé þörf að fara út fyrir borgina skal nota rútur frá BKS til að forðast slíkt.

  • Vændi er löglegt svo lengi sem seljandinn er átján ára. Kynlíf með yngra fólki en það þýðir fangelsisdóm ef upp kemst.

  • Kranavatn og óunninn mat skal forðast í öll lög. Vatnið er afar mengað og varast skal að nota klaka á veitingastöðum þess vegna. Ekki skal einu sinni bursta tennur upp úr kranavatni.