M erkilegt nokk finnast þau enn þorpin á Kanarí, Gran Canaria, þar sem lífið gengur sama vanagang og var áður en eyjan varð mekka evrópska ferðamanna fyrir 30 árum síðan. Hæsta þorp eyjunnar, Artenara, í 1232 metra hæð er eitt af slíkum þorpum og þeir ferðamenn sem þó aka hingað fyrir forvitnis sakir gera lítið annað en virða þorpið fyrir sér gegnum bílrúðuna.
En það er ýmislegt merkilegt að sjá hér fyrir utan víðsýnt útsýnið. Hér búa nefninlega allnokkrir í hellum sem grafnir hafa verið inn í bergið í fjöllunum og ekki aðeins er um íbúðahella að ræða heldur er hér heil hellakapella og reyndar tvær slíkar; Ermita de la Virgen de la Cuevita og Ermita de la Candelaria.
Þá er hér ágætt fornleifasafn. Complejo Arqueológico de Acusa, en svæðið kringum bæinn er talið hið merkasta á eyjunni hvað fornleifar varðar. Safnið samanstendur af öldnum hellahíbýlum.
Héðan er sérdeilis fínt að fara í gönguferðir hvort sem er ofar í fjöllin og skoða þjóðgarðinn Roque Nublo þar sem eitt frægasta tákn eyjunnar, 80 metra hár steindrangur, stendur keikur.
Hins vegar er líka þjóðráð að labba niður á við að vesturströndinni en hér er eina sandströndin á þessum slóðum. Punta Gongora, á eynni. Er hún reyndar kolbikasvört sökum hafstrauma og fámennið nýta sér náttúrusinnar mikið og valsa hér um á afmælisklæðunum einum saman. Aðeins er göngufært þangað og ekki fært bílum. Göngutúrinn er drjúgur.