Þ að eru tveir staðir sérstaklega í Danmörku þar sem Íslendingar hafa um langa hríð gert sig heimakomna mjög að Kaupmannahöfn frátalinni. Annars vegar strandbærinn Horsens á vesturströnd landsins og hins vegar Árósar á austurströnd landsins. Munurinn á þeim tveimur er næsta ógnvekjandi. Horsens er dauðyfli en Árósar makalaust lifandi.

Fyrst og fremst er borgin Árósar þægileg. Þægilega lítil og nánast hægt að rölta um allan miðbæinn á einum góðum degi fyrir frískt fólk. Nógu stór samt til að hér skapast mikið líf á sumrin og ekki síður er næturlífið allgott í miðbænum sem tekið hefur stakkaskiptum til hins betra undanfarin ár. Stuðið helgast ekki síst af því að meðalaldur íbúa í borginni er einn sá lægsti í veröldinni enda mikill fjöldi skólafólks sem hingað sækir.

Borgaryfirvöld hafa undanfarin tíu ár reynt að gera Árósa heimsborgaralegri með ágætum árangri. Söfnum hefur fjölgað og eru betri. Þá hefur verið viðhaldið gömlum byggingum með frábærum hætti á upprunalegum stöðum sínum.

Hér er indælt að vera og hinir 300 þúsund íbúar taka yfirleitt ágætlega á móti Íslendingum.

Til og frá

Tirstrup flugvöllur, Aarhus Lufthavn, er í um 45 mínútna fjarlægð frá borginni og ganga þangað rútur frá lestarstöðinni og víðar á hálftíma fresti dag hvern. Fargjaldið er 2000 krónur aðra leið fyrir fullorðna en 1400 fyrir börn yngri en 14 ára. Miða er hægt að greiða um borð. Frekari upplýsingar um rútuferðir hér.

Völlurinn sjálfur er nettur sveitavöllur og ekki stór en á móti kemur að umferð er tiltölulega lítil og aðallega um innanlandsflug að ræða. Reyndar hefur aukist síðustu tvö árin að lágfargjaldaflugfélög hafa fjölgað ferðum hingað.

Leigubílar og bílaleigubílar eru ávallt til reiðu á vellinum fyrir komur. Gróflega áætlað má ætla að leigubíll á dagtaxta til miðborgar Árósa kosti 6.000 krónur.

Margir koma hingað með Intercity lestum DSB frá Kaupmannahöfn. Lestarferð á milli tekur þrjár klukkustundir og kostar miði 6500 krónur. Lestarstöðin er í miðborginni og mörg hótel og gististaðir í göngufæri. Gnótt leigubílar er alltaf þar að finna.

Þá er líka stemmning að koma til Árósa með svifbátum Mols Linien en það eru hraðskreiðir en afar þægilegir farkostir sem fara milli Árósa til Odden og Kalundborgar á Sjálandi. Tekur hver ferð aðeins 65 mínútur til Odden en rúmar tvær klukkustundir til Kalundborgar. Kostar ferð fyrir manninn 3500 krónur en 7000 krónur ef ferðast er með bíl.

Samgöngur og snatterí

Í raun er Árósar svo lítil að sé gist í miðbænum er engin þörf að eyða peningum enda velflest merkilegt innan göngufæris. Engu að síður er samgöngukerfi bæjarins til mikillar fyrirmyndar. Hér ganga reyndar aðeins strætisvagnar en það er nóg af þeim allan sólarhringinn og þeir ganga ört. Hér má sjá leiðakerfi vagnanna í Árósum bæði daga og nætur. Borginni er skipt í fjögur svæði og kostar miði milli tveggja þeirra 400 krónur. Sé lengra farið kostar miðinn meira.

Auðvelt er að aka um í Árósum eins og víðast hvar í Danmörku. Umferð ekki of þung neins staðar og danskir ökumenn ekki að deyja úr stressi nema þá heslt í Kaupmannahöfn. Bílaleigubílar eru þó tiltölulega dýrir og vart þörf á þeim nema um fjölskylduferð sé að ræða.

Hjólreiðar virðast vera áhugamál númer eitt, tvö og þrjú hjá íbúum hér og ótrúlega margir nota ekki annan fararmáta. Eru enda sérmerktar hjólabrautir um allan bæ. Hægt er að leigja bæjarhjól, bycykel, víða í miðbænum en þau eru ókeypis. Aðeins þarf að setja hundrað krónur danskar í lásinn sem fæst til baka þegar hjólinu er skilað. Hér má sjá hvar slík hjól er að finna.

Söfn og sjónarspil

>> Gamli bærinn (Den gamle by) – Í um tíu mínútna göngufjarlægð frá miðbænum á Viborgvej 2 finnst Gamli bærinn. Þar á tiltölulega litlum bletti hafa bæjaryfirvöld komið fyrir 75 húsum af gamla skólanum og það er, ólíkt Árbæjarsafninu, stórskemmtilegt safn. Mikið að sjá og ávallt einhver skemmtun í gangi. Opið 10 – 17 alla daga. Aðgangur 2700 krónur. Heimasíðan.

>> ARoS listasafnið (ARoS Aarhus Kunstmuseum) – Eitt glæsilegasta listasafn Norðurlanda og eitt það stærsta er á Aros Allé í tíu mínútna göngufæri frá lestarstöðinni. ARoS  fer vart hjá neinum sem á leið um miðborgina og sýningar þar bæði fróðlegar og fjölbreyttar. Ómissandi stopp. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga og til 22 á miðvikudögum. Aðgangur 2000 krónur sléttar. Heimasíðan.

>> Moesgård safnið (Moesgård Museet) – Ekki tileinkað barþjóninum Moe úr Simpson þáttunum eins og furðu margir vona. Allt um sögu Danmerkur frá fyrri tímum og tvennt hér alveg einstakt úr grárri fornöld; eða allavega járnöld. Annars vegar ótrúlega heillegur mannslíkami sem fannst í mýri fyrir mörgum árum. Gråbolle maðurinn er sjón að sjá. Hins vegar ýmis víkingavopn sem fundust æði heilleg og eru fallegir gripir. Strætisvagn 6 fer beint að safninu. Opið 10 – 17 daglega. Aðgangseyrir 1300 krónur. Heimasíðan.

>> Kvennasafnið (Kvindemuseet) – Við Dómkirkjutorgið er þetta merkilega safn og lætur ekki mikið yfir sér. Hér eru miklar upplýsingar um konur og gjörðir og þátt þeirra í Danmörku gegnum tíðina. Opið 10 – 16 alla daga nema mánudaga og til 21 á miðvikudögum. Prísinn 850 fyrir fullorðna en frítt fyrir yngri en fjórtán ára. Heimasíðan.

>> Dómkirkjan (Århus Domkirke) – Þessi fer ekki hjá neinum sem stígur fæti í miðbæinn enda staðsett á Dómkirkjutorginu og á því ágæta torgi er oftar en ekki líflegt um að litast. Kirkjan sjálf fær engin fegurðarverðlaun en hún er lengsta og jafnframt hæsta kirkja Danmerkur. Heimasíðan.

>> Frúarkirkjan (Vor Frue Kirke) – Bakvið verslunarmiðstöðina Magasin er þessa kirkju að finna sem er meðal allra elstu, ef ekki elsta, steinkirkja á öllum Norðurlöndunum. Merkilegt grafhýsi í kjallara hennar. Heimasíðan.

>> Tónlistarhúsið (Musikhuset) – Við hlið ARoS stendur tónlistarhöll borgarbúa. Forvitnileg smíð og þétt dagskrá í boði allan ársins hring. Heimasíðan.

>> Ráðhúsið (Århus Rådhus) – Önnur forvitnileg bygging þvert á móti Tónlistarhúsinu og sérstök fyrir marmarann sem það klæðir og ekki síður fyrir klukkuturninn.

>> Háskólagarðurinn (Universitetsparken) – Dásamlegur og stór garður á lóð Háskólans í Árósum. Hér eru staðsett þrjú minniháttar söfn en fyrst og fremst er hér gott að koma og annaðhvort upplifa stemmningu í loft eða lúta í gras og tyggja strá.

>> Skemmtigarðurinn Friheden (Tivoli Friheden) – Einn vinsælasti fjölskyldustaðurinn í Árósum er þessi skemmtigarður með tívolí yfirbragði í suðurhluta borgarinnar. Opnunartími afar misjafn en alltaf milli 11 og 18. Aðgangur 1600 krónur plús aukagjald í tæki. Heimasíðan.

Verslun og viðskipti

Margar ágætar verslanir er hér að finna en Árósar hefur alltaf verið í dýrari kantinum í Danmörku og ekki hefur það batnað með falli krónunnar íslensku.

Fyrsta stopp margra er verslunarmiðstöðin Magasín sem er eins miðsvæðis og hægt er að vera í Árósum. Úrvalið töluvert en prísarnir heilla fáa þessa dagana. Magasín er staðsett við Strikið, sem er helsta verslunargata borgarinnar, en þar er einnig stórverslunin Salling og fjölmargar smærri verslanir.

Þá eru ennfremur ágætar en enn dýrari verslanir ofar nálægt lestarstöðinni.

Djamm og djúserí

Sökum þess hve margt ungt fólk býr hér er eðli málsins samkvæmt stuð á kvöldin og helgar hér nánast látlaust. Fjölmargir barir og klúbbar eru víða og eru þeir afar mismunandi. Þar finna allir eitthvað við hæfi. Miðbærinn er besti kosturinn en bari má finna í flestum götum.

Til umhugsunar: Prófaðu bjórtegundina Ceres en sá mjöður er framleiddur hér og á stundum finnst römm brugglykt yfir allri miðborginni enda bruggverksmiðjur Ceres skammt þar frá.

Sérstaklega er skemmtilegt að heimsækja borgina þegar Skemmtivikan, Festuge, stendur yfir. Þá er öllu tjaldað til að gera borgina enn skemmtilegri en ella.

Líf og limir

Ekkert stress hér. Borgin örugg eins og bílaumboðið Brimborg.