Skip to main content

Á n þess að vilja gera lítið úr athöfnum annars fólks er það orðið vægast sagt hvimleitt á vinsælum og jafnvel ekki svo vinsælum ferðamannastöðum, að hvergi er orðið þverfótað fyrir fólki sem er að taka myndir af sjálfu sér. Nú hafa fræðingar staðfest að eilífar sjálfsmyndir, selfies, er skýrt merki um alvarlega geðröskun.

Fræðingar kalla fyrirbærið „selfitis“ og fyrstu rannsóknir á þessari hegðun fólks benda til að þeir sem geta ekki á sér heilum tekið nema taka sjálfsmyndir lon og don þjáist mjög líklega af geðröskun.

Um þetta má til dæmis lesa hér hjá Independent, hér hjá Quartz, hjá PsychologyToday og hér hjá LifeHacker svo fáar greinar séu nefndar. Þá þarf ekki að gúggla neitt lengi til að finna sífellt fleiri greinar um vafasöm geðræn áhrif þess að taka sjálfsmyndir út í eitt alla daga og auðvitað monta sig af í kjölfarið.

Verst kannski líka að þó sýnt þyki fram á þeir eða þær sem taka flestar sjálfsmyndir séu annaðhvort himinlifandi með sig eða bullandi óánægðir þá sýna enn aðrar rannsóknir að fáum finnst skemmtilegt að sjá selfies á samfélagsmiðlum. 82 prósent aðspurðra í rannsókn sem birt er í ritinu Frontiers in Psychology segja lítt gaman að skoða selfies annarra og kjósa heldur venjulegar myndir eða engar.

Hættu þessu rugli. Það er öllum slétt sama um hvað þú ert dugleg/-ur að labba fjöll, fækka kílóum eða borða eitraða snáka. Annaðhvort ertu að gera hlutina fyrir sjálfa/-n þig eða þú ert feik út í eitt.