V eitingastaðir í Bandaríkjunum eru æði margir vel undir þeim heilsuverndar- og hollustukröfum sem gerðar eru annars staðar í heiminum. Sérstaklega hafa staðir í New York margir fallið á prófinu en nú geta viðskiptavinir gengið úr skugga um gæði staðarins áður en þeir setjast að borði.

Vertu viss um að borða á góðum stað í New York. Notaðu einkunnakerfi heilbrigðisyfirvalda.

Vertu viss um að borða á góðum stað í New York. Notaðu einkunnakerfi heilbrigðisyfirvalda.

Flestir vita að rottur, mýs, kakkalakkar og ýmis meindýr önnur hafa um áraraðir verið stórt og feitt vandamál í New York. Sömuleiðis hafa laun í veitingabransanum sjaldan verið upp á marga fiska og því erfitt að fá hæft og gott fólk sem aftur getur leitt til vandamála varðandi óþrifnað og kæruleysi.

Árið 2010 gripu borgaryfirvöld til sinna ráða eftir að salmonellusýkingum hafði fjölgað í borginni ár frá ári lengi vel.

Þau tóku upp á því að fara tvívegis árlega í skyndiheimsóknir á alla veitingastaði með starfsleyfi og gera úttekt á stöðunum. Ekki nóg með það heldur eru niðurstöður úttektanna birtar opinberlega á síðu heilbrigðisyfirvalda. Staðirnir fá einkunnir eftir hollustu og þrifnað frá A til C. A-einkunn þýðir allt hið besta, B-einkunn þýðir að laga þarf ýmislegt og hreinlæti ábótavant og C fá þeir staðir þar sem fleira er í ólagi en í lagi og verulega mikið að.

Þú getur gengið úr skugga um hvernig veitingastaðurinn stendur sig því stöðunum er skylt að setja upp miða á áberandi stað, oftast við innganginn, með einkunn sinni. Þar er líka hægt að sjá samandregnar niðurstöður heilbrigðisyfirvalda frá síðustu könnun. Finnist enginn slíkur miði er ráðlegt að halda annað án þess að hugsa það meira. Það eru nefninlega aðeins þeir sem slugsa á hreinlætinu sem fá C-einkunn og margir þeirra kjósa ekkert að auglýsa þá einkunn.

Allra best er að þetta er að virka frábærlega og hefur síðan fækkað mikið tilfellum sýkinga sem rekja má til matar á veitingastöðum. Sömuleiðis sýna tölur að rúmur þriðjungur þeirra veitingastaða sem oftar en einu sinni fengu C í einkunn hafa lokað endanlega.

Aldeilis frábært framtak og vert að hafa í huga næst þegar labbað er inn á veitingastað í borginni. Þannig er ekki hægt að kenna neinum öðrum um en sjálfum þér ef niðurgangur og magapest eyðileggur ferðalagið um New York.