S kammt frá hinum glæsilega þjóðgarði Yosemite í Kaliforníu er að finna bæ einn góðan sem einnig hefur ýmislegt spennandi upp á að bjóða. Ekki hvað síst að spila golf eða veiða í soðið meðan stórhættulegir svartbirnir fylgjast spenntir með.

Krakkar í golfi í Mammoth Lakes og birnirnir fylgjast grannt með. Skjáskot
Vitum ekki um ykkur þarna úti en okkur hér finnst það ekkert minna en dásamlegt að njóta útiveru og vitna villt dýr í leiðinni. Það jafnvel þó hin villtu dýr geti verið stórhættuleg.
Það vita þeir sem hafa stundið golf eða veiði í Flórída að alligatorar og slöngur eru næsta algengar hvar sem vatn er að finna og vötnin yfirleitt nokkur á vinsælli golfvöllum fylkisins. Það því ekkert stórkostlegt tiltökumál að rekast á eitt stykki slöngu hlykkjast eftir níundu braut eða eitt stykki alligator að hvíla sig við grínið á tólftu.
Báðar dýrategundir dauðhræddar við mannskepnuna og forða sér jafnan fljótt ef við komum arkandi með settin eða akandi á golfbíl með tilheyrandi látum og veseni. Það á þó ekki við um svartbirnina í Kaliforníu. Nánar tiltekið í og við vinsæl útivistarsvæði við bæinn Mammoth Lakes til austurs af Yosemite í Kaliforníu. Svæðið líka heimili hundruða svartbjarna sem merkilegt nokk fá að vera næsta alfarið í friði þó hættulegir séu og búi gjarnan um sig innan bæjarmarkanna.
Ólíkt því sem gerist á farsæla Fróni þar sem hver einasti hvítabjörn sem bjargað hefur lífi sínu með því að fljóta alla leið hingað frá Grænlandi á völtum ísjaka er umsvifalaust drepinn með köldu blóði af blóðþyrstum fávitum hafa íbúar Mammoth Lakes aðra sýn á hættulega birnina. Þeir eiga sama rétt og fólkið á svæðinu og birnirnir velkomnir svo lengi sem vel er fylgst með þeim. Þeir fá sitt pláss til athafna og er ekki gert mein á meðan þeir gera mannfólkinu ekkert mein.
Og viti menn! Ferðamenn flykkjast nú til Mammoth Lakes EINMITT vegna þess að hér má finna stóra birni um allar trissur. Meira að segja á aðalgötu bæjarins nokkuð reglulega. Þeir líka algengir á golfvelli bæjarins og vitaskuld þvælast þeir um við vötnin í grennd þangað sem veiðimenn venja komur sínar.
Vissulega er stakur vörður á vappinu alla daga ársins til að gæta bæði fólks og bjarnanna svo enginn fari sér að voða en þrátt fyrir að hundruðir bjarndýra búi hér í nánu sambýli við mannfólkið er hending að eitthvað alvarlegt gerist í bænum. Þvert á móti eiginlega. Birnirnir hafa vanist fólkinu og fólkið vanist björnunum og til marks um það finnst engum neitt vesen að senda börn og ungmenni í golfkennslu þó vitað sé að tugir svartbjarna eigi sér samastað við sama golfvöll.
Svona á að gera hlutina ef hægt er. Lifa í sátt og samlyndi við falleg dýrin og leyfa dýrunum að njóta vafans. Jafnvel þó þau séu talin hættuleg. Þau eru nefninlega sjaldan eða aldrei jafn hættuleg og manneskjan sjálf.