Þ að er eitt sérstaklega sem hartnær hver einasta ferðalangur til Marokkó, Alsír, Túnis, Senegal, Egyptalands eða Líbíu lætur sig dreyma um. Það er að taka styttri eða lengri ferð út í Sahara eyðimörkina.

Tjöld á borð við þau sem ferðafólki er boðið upp í eyðimörkinni í bæði Marokkó og Alsír

Tjöld á borð við þau sem ferðafólki er boðið upp í eyðimörkinni í bæði Marokkó og Alsír

Þar er vafalítið um að kenna rómantískum hugmyndum úr kvikmyndum enda Sahara sem slík ekki ýkja ákjósanlegur áfangastaður. Þar liggur við að skinnið bráðni af beinagrindinni í mesta hitanum á daginn og kuldar að næturlagi nísta jafn grimmilega inn í merg og bein og stinningskaldi í Grímsey í desember.

Engu að síður eru vinsælustu ferðirnar frá þessum löndum tveggja til fjögurra daga ferðir út í eyðimörkina þar sem dvalið er í búðum Berba og Bedúína og stundum hjá ættflokki Túarega.

Hægt er að velja milli þess að fara í litlum hópum þar sem 20 til 40 dvelja í einum og sömu búðunum meðan á ferðinni stendur eða leigja einkabílstjóra á betri bifreið og hafa þá meira um að segja hvert farið er og hvað lengi.

Þó töluvert sé gert úr því að búðirnar séu ekta og þar séu raunverulegir íbúar eyðimerkurinnar er það í raun ekki svo heldur oftar sviðsett fyrir ferðafólkið. Vissulega er tjöldin ekta og stöku gestgjafar eru jafnan menn sem tilheyra ættbálkum þeim er valsa um eyðimörkina en þá er það upptalið að mestu.

Gaskútar veita birtu og yl sem ekki er reyndin í raunveruleikanum. Matur er yfirleitt á borð borinn og fer milli mála hvort steiktur kjúklingur er raunveruleg fæða eyðimerkurfólks. Þá er vart að finna eyðimerkurbúðir fyrir ferðamenn án þess að sérstakt klósetttjald með tilheyrandi plastklósetti sé til staðar en slíkt er ekki staðalbúnaður eyðimerkurættbálka Sahara. Þá eru sérstakir hnakkar á öllum kameldýrum sem ferðamönnum býðst að nota meðan á dvölinni í búðunum stendur en þá notar enginn án aðstoðar.

Einfaldasta leiðin fyrir Íslendinga að prófa eyðimerkurdvöl er líklega gegnum Marokkó enda stutt þangað frá Spáni og Portúgal plús stöku ferðir annars lagið með innlendum ferðaskrifstofum.

Frá Tangier og Marrakesh eru mýmargar eyðimerkurferðir í boði en þær stystu eru dagsferðir þar sem dvalið er eina nótt og svo haldið til baka. Varast skal slíkar ferðir því eyðimörkin er í töluverðri fjarlægð. Frá Tangier er um sex tíma rúntur að sandinum og sjö klukkustundir er lágmark frá Marrakesh. Er það einfaldlega of langur akstur til að njóta einnar nóttu liggjandi á sandinum undir stjörnubjörtum himninum.

Frá Marokkó má gera ráð fyrir að stuttar eins eða tveggja daga hópferðir kosti milli 10 þúsund og sautján þúsund og er þá innifalinn akstur, dvöl í búðunum, kvöldmatur og lítilræði í morgunmat auk aðgangs að kameldýrum þann tíma sem dvalið er í búðunum. Þá er og einhver dagskrá yfirleitt á kvöldin yfir varðeldi en það er þó misjafnt.

Sé leigður bíll með fararstjóra, sem er betri kostur, má gera ráð fyrir að greiða milli 25 og 50 þúsund eftir lengd ferðar. Hafa skal þó í huga í báðum tilvikum að gert er ráð fyrir að greiða þjórfé bæði bílstjórum og eins þeim Berbum eða Bedúínum sem gist er hjá. Er það að sjálfsögðu undir hverjum og einum komið en sá kostnaður er tíu til fimmtán þúsund í viðbót. Kostnaðurinn frá öðrum löndum er ekki ýkja frábrugðin þessum verðum.

Hafa skal í huga að hafa með sér vatn á leiðinni og jafnvel eitthvað matarkyns því ekki eru sjoppur mikið í grennd við eyðimörkina. Þá er ráð að vera í þykkum buxum ef kamelreið er á dagskránni því fætur og rass nuddast gjarnan við grófhára dýrin og mynda sár fljótlega á ólíklegustu stöðum. Þá skal klæða sig vel því þótt teppi og dýnur sé að finna í tjöldunum kemur grimmur næturkuldinn mörgum verulega á óvart. Ef vindur blæs að næturlagi í Sahara gætirðu eins verið að leggja þig í frystikistu á Norðurpólnum, svo mikill er kuldinn.

Á hinn bóginn er myndavél nauðsyn því ógleymanlegt er að leggjast í sandinn við sólarlag eða sólarupprás og er það eitt og sér næstum því fyrirhafnarinnar virði.

Þrjú fyrirtæki sem þykja í betri kantinum hvað slík ferðalög varðar frá Marokkó eru: