F egurð er í augum sjáandans og sitt sýnist hverjum um velflest undir sólinni. En flestir geta líklega sammælst um að fátt er yndislegra en þessi litlu krúttlegu þorp sem finna má utan þjónustusvæðis á Ítalíu.
Þessi þorp þar sem líf bæjarbúa gengur sinn gang hvort sem inn í bæinn þvælast ferðamenn eður ei. Þar sem helsta þjónusta er til staðar svo enginn á neitt sérstakt erindi út úr bænum. Þorp þar sem engum dettur í hug að opna „lundaverslun“ til að græða nú smá á túristanum eða breyta ásýnd bæjarins með flottum hótelum. Nei, hér verður ekkert uppnám þó túristum þyki mikið til koma. Og það er þess vegna sem túristanum þykir mikið til koma.
Slík þorp er að finna um alla Ítalíu og staðsetning margra þeirra himnesk í djúpum grænum dölum ellegar í klettahömrum við ströndina. En sum þeirra eru yndislegri en önnur og á Ítalíu vill svo til að þau er auðveldara að leita uppi en annars staðar sökum þess að til er opinber listi í landinu yfir „yndislegustu þorpin.“
I Borghi Piú Belli d’Italia heitir listinn atarna á máli frumbyggja og var upphaflega listi yfir þau miðaldaþorp í landinu sem státuðu af einhvers konar varnarvirki. Á síðari tímum hafa bæst í hópinn þorp sem ekki eru eða voru varin í bak og fyrir en þykja þó dæmi um þorp eða bæi sem tekist hefur að viðhalda sérkennum sínum og sjarma að mestu eða öllu leyti. Með öðrum orðum: gamalt og gott.
Á þessum lista er að finna tæplega 300 þorp alls en nokkur þeirra eru ívið meira heillandi að okkar mati en önnur. Þau eru:
TRIORA, Impería, Ligúría

Þetta 400 mann þorp í brattri hlíð og umlukið fallegri á er sérstaklega frægt á Ítalíu fyrir nornaveiðar á Endurreisnartímabilinu. Mynd Wikipedia
NOVARA DI SICILIA, Messina, Sikiley

Bær hinna mörgu nafna. Novara hefur kallast fjórtán öðrum nöfnum gegnum tíðina. Mynd Tripmomo
COREGLIA ANTELMINELLI, Lucca, Toskana

Í um klukkustundar fjarlægð frá Flórens finnst þessi fallegi bær sem þykir með þeim fallegri í annars geysifallegu Toskana héraði. Mynd Gio Taderdi
MORESCO, Fermo, Marche

Nafn Moresco þýðir Márar og lengi hefur verið deilt um hvort Márar hafi gert strandhögg hér á sínum tíma. Flott staðsetning og útsýni vel til hafs. Mynd TurismoMarche
TORRE ALFINA, Acquadepende, Viterbo

Heillegri verða þeir vart miðaldakastalarnir á Ítalíu og í þorpinu Torre Alfina. Ekki skemmir heldur fyrir að hér er framleiddur hinn besti ítalski ís. Mynd Di Monte
ATRANI, Amalfi, Salerno

Eitt af þessum kostulegu klettaþorpum á hinu einstaka Amalfi svæði. Atrani á heiðurinn af að vera minnsta þorp landsins því það stendur á 0,12 ferkílómetrum alls. Mynd TurismoAmalfi