Þ að er mat margra að kanadíska borgin Toronto sé sú allra skemmtilegasta í þessu stóra landi. En hvað er spennandi að sjá eða gera þar?
Segja má að Toronto hafi tvennt sérstaklega framyfir aðrar borgir Kanada. Annars vegar er þetta fjármálahjarta landsins. Hér eru allar helstu fjármálastofnanir landsins sem og höfuðstöðvar helstu banka. Sem er reyndar mínus að okkar mati því það gerir allt dýrara. Hins vegar er Toronto langmesti suðupottur landsins. Hér er mannlífið fjölbreyttara en nokkurs staðar annars staðar í landinu og þótt víðar væri leitað. Sem í okkar bókum er frábær plús.
En hvað er það markverðasta að sjá eða gera hér í stuttri ferð?
Innflytjendaþorpið
Til Ontario á sínum tíma komu hundruð þúsunda innflytjenda sem sóttust eftir betra lífi ekki ólíkt Íslendingunum sem héldu til Winnipeg á árum áður. Black Creek Pioneer Village er tileinkað þeim en hér komu margir þeirra sér fyrir og þær 40 byggingar sem hér standa eru nákvæmar eftirgerðir af húsum sem hér voru upphaflega byggð. Að sumarlagi eru settar á svið sýningar hér sem eiga að endurspegla lífið í fyrndinni. Heimasíðan.
Kálbærinn
Kálbær, Cabbagetown, er sá bæjarhluti kallaður sem eitt sinn var kjörlendi fyrir grænmetisræktun fátækra innflytjenda og þar var einfalt kálið í meiri metum en annað. Nú er hér að finna eitt skemmtilegasta hverfi borgarinnar með byggingum velflestum í Viktoríustíl og stóra og mikla garða við öll hús. Reyndar vilja borgaryfirvöld meina að hér sé stærsta samfellda byggð húsa í þeim stíl í allri Norður Ameríku. Töluvert er hér líka af smærri börum og matsölum. Hverfið nær gróflega frá Queen strætinu og norður að Wellesley stræti.
Frægðarsetrið
Þjóðaríþrótt Kanadamanna er íshokkí og þar eiga þeir margar stjörnur bæði fyrrverandi og núverandi. Á þessu ágæta safni, Hockey Hall of Fame, má sjá allt um þá frægu kappa og ekki síður mikinn fróðleik um íþróttina og uppgang hennar í landinu. Hér er líka geymdur hinn frægi Stanley bikar í þau skipti sem kanadískt lið vinnur þann titil. Safnið er í miðborginni á horni Yonge og Front gatna nálægt CN turninum. Heimasíðan.
CN Turninn
Frægasta tákn Toronto borgar var jafnframt hæsti frístandandi turn heims um tíma. Ofarlega í honum í 345 metra hæð er útsýnispallur og ágætur veitingastaður þar fyrir neðan en turninn í heild er 553 metrar á hæðina. Útsýnispallurinn er ekki fyrir alla því það er glerbygging og margir lofthræddir sem þó þora upp yfirgefa ekki lyftuna. Þaðan er stórfenglegt útsýni yfir alla borgina. Turninn er í göngufæri frá miðbænum en hann er staðsettur norður af Bremner breiðgötunni. Með jarðlest skal fara út við Union stöð. Heimasíðan.
Listasafn Ontario
Afar glæsilegt safn í miðbæ Toronto hannað sérstaklega af hinum heimsþekkta Frank Gehry og ómissandi stopp öllu listáhugafólki. Fjölbreytt verk hér til sýnis hverju sinni í mörgum mismunandi sölum en hlýlegt umhverfið er fullkomið til að njóta listaverkanna. Þá er ekki síður gott útsýni héðan til allra átta í borginni og auðvitað eru veitingar í boði. Heimasíðan.
York virkið
Safn til minningar um styrjaldir þær er áttu sér stað um landsvæði Kanada fyrr á öldum. Þetta endurgerða virki var sett upp sérstaklega til að vernda hinu nýju byggð í Toronto á sínum tíma og hér var háð ein mikilvægasta orrusta í sögubókum þegar Bretar gerðu hér mikla árás 1813. Reglulegar uppákomur til að minnast þessa tíma og ekki síður þeirra sem börðust gegn Bretum og misstu líf sitt. Að sumarlagi er reglulega eitthvað sérstakt um að vera og stöku sinnum heilu orusturnar settar á svið. Heimasíðan.
Loma kastalinn
Þurfi að velja úr allra fallegustu byggingu Toronto er hætt við að Lomo kastalinn verði alltaf ofarlega á blaði, ef ekki bara efst á blaði. Þetta er kastali í evrópskum miðaldastíl, oft kallað húsið á hæðinni af heimamönnum, sem hefur verið endurbættur að fullu og nú afar vinsæll til viðburða af ýmsu tagi. Kastalinn og garðar hans þó yfirleitt alltaf opnir ferðafólki yfir daginn. Kastalinn upphaflega byggður af vellauðugum Kanadamanni sem þótti mikið koma til kastala Evrópu og ákvað að byggja einn slíkan. Heimasíðan.
Skósafnið
Kannski merkilegasta safn Toronto og Kanada í leiðinni er Bata Shoe Museum sem eins og nafnið gefur til kynna er risastórt skósafn. Hér hafa menn safnað saman skóm af ýmsu tagi hvaðanæva að úr veröldinni og setja á pall eins og um gríðarleg menningarverðmæti sé að ræða. Sem það kannski er fyrir skóaðdáendur. Þó má gera að því skóna að aðrir en aðdáendur gætu alveg haft gaman af að kíkja hingað inn á þetta sérstæða safn sem er hýst í fallegri byggingu líka. Heimasíðan.
Textílsafnið
Annað sérstakt safn sem ómissandi er áhugasömum er Textílsafnið, Textile Museum of Canada, sem staðsett er við Centre Avenue. Sýningar taka ört breytingum en alltaf er hægt að skoða textílverk frá öllum þjóðarbrotum Kanada og það bæði gömul og ný. Ágæt sneiðmynd af þeim fjölbreytta kúltúr sem finna má í þessu stóra landi. Heimasíðan.
Sýningarsvæðið
Sá staður í Toronto sem trekkir að hvað mestan fjölda fólks á ársgrundvelli er Sýningarsvæðið sem svo er nefnt eða Toronto Exhibition á frummálinu. Þetta er stórt svæði við Ontaríó vatn þar sem finna má á einum bletti sýningar, samkomuhús, bari og íþróttaleikvanga auk annars. Hér fara fram sýningar nánast allan ársins hring og sérstaklega að sumarlagi. Hér er líka heimavöllur fyrsta knattspyrnuliðs borgarinnar FC Toronto. Heimasíðan.