Þ ær eru nokkrar borgirnar frönsku sem geta státað sig af flottri staðsetningu og enn fleiri bæir og þorp sem standa á ótrúlega fallegum stöðum í landinu. Af borgunum fer Grenoble þó klárlega í hóp þeirra allra fallegustu.

Mitt í fjallasölum Alpanna stendur Grenoble og getur ekki annað 🙂

Grenoble auglýsir sjálfa sig sem „höfuðborg Alpanna“ og þó ýmsar aðrar borgir í eða við þann mikla fjallgarð geri athugasemdir við þann titil er Grenoble vel að titlinum komin. Borgin er nánast klæðskerasaumuð í djúpum og fremur þröngum dal milli hárra fjallanna á alla kanta en nýtur þess líka að tvær ár hlykkjast um borgina þvera og endilanga og skapa kjöraðstæður fyrir hreint ágætt borgarlíf. Engin tilviljun að háskólinn hér í þessari annars litlu borg, 160 þúsund íbúar, er sá þriðji vinsælasti í Frakklandi öllu og hér staðsett nokkur af hátæknifyrirtækjum landsins.

Staðsetningin, rösklega klukkustundar akstur frá borginni Lyon til suðausturs, merkir að hér er ævintýralega ljúft veðurfar á sumrin því háir fjallagarðarnir skýla borginni fyrir vindum úr velflestum áttum. Á köflum pínu mollulegt vissulega en á móti kemur að á veturna kemst fólk í eðalfínar skíðabrekkur á augabragði.

Fararheill mælir eindregið með túr hingað og dvöl ef kostur er á. Náttúrufegurð mikil og þess utan töluvert að sjá í borginni sjálfri. Þar helst:

Bastillan (Bastille)

Mynd Torsten Hoefler

Í 500 metra hæð yfir borginni, í fjallinu Jalla, stendur það sem er óumdeilanlega magnaðasta mannvirkið á þessum slóðum. Það er Bastillu-virkið sem byggt var að stærstum hluta árin 1601 til 1606 og auðvitað til að verja borgina óprúttnum þess tíma. Allnokkuð eimir enn eftir af virkinu atarna en hér líka töluvert verið endurnýjað og gert aðgengilegt almenningi enda hreint kostulegt útsýni héðan yfir borgina og fjallgarðana í kring. Hér má á íðilskýrum degi sjá topp Mont Blanc ef vel er gáð. Aðeins ofar má finna hellahvelfingu, Mandrin-hellana, sem grafnir voru af mannahöndum frá A til Ö og voru viðbót við varnir Grenoble. Fyrir utan magnað útsýnið héðan er virkið að hluta notað til mannfagnaða og viðburða reglulega og hér líka er einn elsti veitingastaður héraðsins staðsettur. Hingað er komist á þrjá vegu: göngufólk getur valið allnokkrar gönguleiðir upp að virkinu beint úr borginni, hægt er að keyra alla leið upp þröngan og brattan veg eða það sem meirihluti ferðafólks gerir; tekur kláfferju upp og niður. Ekki bara hvaða kláfferju sem er heldur elstu kláfferju í Frakklandi. Hún reyndar verið betrumbætt og komið inn í nútímann svo engar áhyggjur af aldrinum. Klukkustund eða tvær duga vel til að sjá mestallt virkið og taka inn útsýnið svo vel sé.

Alpahersafnið (Musée des Troupes de Montagne)

Mynd Tourisme de Grenoble

Það segja sögur í Frans að engir hermenn í sögu landsins jafnist á við Alpahermenn þá er vörðuðu Frakkland á fjöllum uppi á fyrri tímum. Hermenn sem þurftu ekki aðeins að standast grátlega litla matarskammta og þrauleiðinlega yfirmenn heldur og nístandi kulda og vosbúð á skjóllitlum stöðum hér og þar um fjöllin við Grenoble. Þetta safn er tileinkað þessum fjallahermönnum og er líka að finna í ofangreindri Bastillu en hér þarf reyndar að greiða sérstakan aðgangseyri. Gestir fá glugga inn í heim þeirra hermanna sem gættu hæstu landamæra Frakklands, hvernig líf þeirra var og ekki síst hvaða búnað þeir þurftu að paufast með á hinn og þennan fjallstind á köflum. Ómissandi fyrir þá sem forvitnir eru um hernað hvers kyns en svona la-la fyrir alla aðra. Enginn ætti þó að sjá eftir þeim 200 krónum sem hér kostar inn.

Listasafn Grenoble (Musée de Grenoble)

Mynd Musée de Grenoble

Það mega Frakkar eiga að virðing þeirra fyrir listum og menningu er þvílík að jafnvel listasöfn í bæjum sem varla finnast á korti eru oftar en ekki kjaftfull af dýrindis listaverkum sem velflestum söfnum annars staðar í veröldinni væri mikill sómi að hengja upp á vegg. Að líkindum hefur eitthvað með þetta að gera að frægasta listasafn heims finnst í París og Frakkar afar góðu vanir. Listasafn Grenoble er klárlega eitt þeirra. Safnið ekki stórt á neinn mælikvarða en miðað við hvað borgin þykir nú ekki með þeim allra merkilegustu í landinu er safn verka til sýnis hér alveg stórkostlegt. Alls rúmlega 800 verk til sýnis á hverjum tíma og öll verkin í tímaröð. Hér hanga verk stórlistamanna á borð við Gauguin, Rubens og Monet svo fáir séu nefndir. Ef það dugar ekki til að ýta við þér eru hér líka þekkt verk eftir Picasso og Matisse að ógleymdum Andy Warhol. Verk manna sem yfirleitt finnast aðeins í allra merkilegustu söfnum. Tólf hundruð kall inn er bara brandari 🙂

Fornleifasafnið (Musée Archélogique Grenoble)

Mynd Musée Archéologique

Víst hafa ekki allir lyst á að hanga inni á söfnum lon og don en Fornleifasafnið ætti að vera undantekningin og það jafnvel þó ferðalangar hafi takmarkaðan áhuga á sögu borgarinnar. Sagan er töluvert merkileg og margvíslegir heillegir munir fundist við uppgröft hér og í nágrenninu. Hér hollt ferðalöngum að muna að sögufrægasti hellir heims, Grotte Chauvet, sem í hafa fundist langelstu hellateikningar sem vitað er um í Evrópu er ekki ýkja langt frá Grenoble. Illu heilli er ekki hægt að heimsækja Chauvet sökum þess hve sá hellir er einstakur en það má finna minjar úr minna þekktum hellum hér á þessu ágæta safni. Alls óhætt að reka inn nefið og ekki síst vegna þess að það kostar ekkert inn. Ekki skemmir neitt heldur að húsakostur safnsins á sér líka merkilega sögu sem þú kemst að þegar þú mætir.

Touvet kláfurinn (Funiculaire de Saint-Hilaire de Touvet)

Tæknilega séð er þetta merkilega fyrirbæri ekki í Grenoble sjálfri heldur lítið eitt í burt. Nánar tiltekið í 10 mínútna fjarlægð á bíl. Þetta er lestarkláfur af gamla skólanum sem var á sínum tíma eina tenging fjallaþorpsins Saint Hilaire de Touvet við byggðir á sléttunni fyrir neðan. Ástæðan einfaldlega sú að bærinn stendur í 600 metra hæð og snarbratt er niður á flatlendi. Þess vegna hlaut kláfur þessu frægð á sínum tíma sökum þess að þetta var lengi vel brattasti kafli sem nokkur kláfur heims fór um. Hversu bratt var það? Ekki nema 83 prósenta halli þar sem verst lætur. Settu það í samhengi við að okkur flestum finnst nóg um að aka upp eða niður fimmtán gráðu halla í bíl. Kláfferðin vissulega túristaleg enda komnir vegir nú heimamenn nota frekar en brattinn og ekki síður útsýnið er svo stórkostlegt að þetta verður að prófa. Gerðu samt ráð fyrir að punga út rúmum þrjú þúsund krónum per mann.