R eglulegt áætlunarflug til Anchorage, höfuðborgar Alaska fylkis í Bandaríkjunum, var í boði héðan um skeið.  Og þó borgin eigi ýmislegt sameiginlegt með öðrum slíkum á norðurslóðum er það misskilningur að þangað sé ekkert að sækja sem ekki finnist til dæmis hérlendis.

Anchorage er kannski ekki á listanum yfir staði að upplifa áður en dauðinn knýr dyra en þar er samt æði margt athyglisvert. Mynd Eugene Marulescu

Anchorage er kannski ekki á listanum yfir staði að upplifa áður en dauðinn knýr dyra en þar er samt æði margt athyglisvert. Mynd Eugene Marulescu

Hér eru topp tíu hlutir að sjá eða gera í Anchorage og nágrenni.

1. PORTAGE GLACIER – Þó við Íslendingar séum ekki ókunnug ísjökum og jöklum af ýmsum stærðum og gerðum er ekki til sá staður á Íslandi þar sem hægt er að komast á nokkrum klukkustundum í tæri við 60 mismunandi jökla. Það er hægt frá Anchorage en Portage jökullinn er sá sem næst er. Þangað er komist með útsýnisbát alla leið að ísveggnum á röskum 40 mínútum frá borginni.

2. MOUNT MCKINLEY (DENALI) – Það kann að þykja merkilegt að klífa Hvannadalshnjúkinn okkar sem nær rúmlega tvö þúsund metra upp til himins. Öllu merkilegra er þó að klífa hæsta tind Norður-Ameríku sem rís þrefalt hærra. McKinley fjallið, nú Denali, í Alaska er tákn Alaska fyrir marga en það er á góðviðrisdögum vel sjáanlegt frá Anchorage. Ekki þarf fjallgöngugarpa til að skoða það í nærmynd. Útsýnisferðir að fjallinu eru í boði bæði með þyrlum og flugvélum frá Anchorage.

3. ALASKA NATIVE HERITAGE CENTER – Að margra mati besta safnið í allri borginni en þó háð því að fólk hafi áhuga á landi og þjóð. Hér er gerð grein fyrir öllum þeim mismunandi þjóðfélagshópum sem sest hafa að í Alaska og kallað föðurlandið. Meðal annars má hér sjá híbýli fólks fyrr og nú í raunstærð auk fjölda merkilegra muna sem hafa gert lífið auðveldara hér á hjara veraldar. Frí skutla er til og frá safninu frá miðborginni.

Það sem virðist vera gamalt fallegt þorp er í raun einn helsti gullgrafastaðurinn í Alaska á öldum áður. Mynd Eric Teela

Það sem virðist vera gamalt fallegt þorp er í raun einn helsti gullgrafastaðurinn í Alaska á öldum áður. Mynd Eric Teela

4. CROW CREEK MINE – Þekki fólk sögu Alaska þá vita menn að svæðið komst fyrst á kortið fyrir gullgröft. Hingað komu tugþúsundir manna með glýju í augum og einstaka menn urðu vellauðugir fyrir vikið. Þessi náma við Crow ánna er skammt frá Anchorage og var einn af helstu stöðunum til gullleitar á sínum tíma. Í boði er fyrir áhugasama að prófa sig og tæki og tól leigð út en hér má einnig fræðast ítarlega um gullgrafartímabilið.

5. LEST TIL SEWARD – Alaska er undurfallegt land eins og auðvelt er að komast að með því að skoða myndir þaðan. Ein allra besta leiðin til að sjá djúpa dali, jökla, fossandi ár og ósnerta skóga á skömmum tíma er úr þægindum um borð í lest frá Anchorage og Seward. Ágætt sædýrasafn er að finna hér.Túrinn tekur fjórar stundir og hægt að taka bát til baka aftur.

6. HELGARMARKAÐURINN – Einhver með lyst á hreindýrapylsum? Hvað þá með laxapönnukökur? Hljómar kannski misvel í eyrum fólks en þetta er meðal þess sem hægt er að sjá og bragða á helgarmarkaðnum sem fram fer í Anchorage alla laugar- og sunnudaga yfir sumartímann. Sá markaður þokkalega stór og til sölu ýmis varningur sem ferðamönnum gæti þótt spennandi. Ekki laust við túristabragð hér en þó þess virði.

7. ANCHORAGE MUSEUM – Stærsta safn borgarinnar er tileinkað fylkinu öllu en ekki aðeins borginni. Fróðleikur um allt er viðkemur Alaska, fólkinu sem þar býr, sögu fylkis og borgar og hér er ennfremur sérstök deild rekin af Smithsonian. Stórt safn og mikið og sannarlega skoðunar virði.

8. SHIP CREEK – Og við sem héldum að Reykjavík væri einstök fyrir að hafa alvöru laxveiðiá innan borgarmarkanna. Það reynist rangt og hægt að bregða sér í betri stígvélin og út í Ship Creek ánna í Anchorage því til staðfestingar. Veiðileyfin setja heldur engan á hausinn því aðeins fjögur þúsund krónur kostar að hanga með stöng við ánna dagsstund eða svo.

9. WILDLIFE CONSERVATION CENTER – Rétt utan borgarmarkanna reka góðgerðarsamtök miðstöð villtra dýra. Hér verða allir dýravinir að reka inn nefið til að sjá á einum stað öll helstu dýr sem í Alaska finnast í tiltölulega náttúrulegu umhverfi. Elgir, ernir, birnir og allt þar á milli og aðgangseyrir aðeins um 1.500 krónur.

10. STRANDLENGJUTÚRINN – Ekki þarf að ræða að útivistarfólk ætti að vera á heimavelli í Anchorage. Stutt í glæsilega náttúru nánast í allar áttir. Þá er auðsótt mál að leigja ágæt hjól og þvælast um en kannski verra að ákveða nákvæmlega hvaða hjólareiðastíga á að velja. Aðeins um 200 kílómetra af slíkum stígum að ræða en strandlengjutúrinn, Coastal Trail, er þeirra vinsælastur.