Það hljómar fráleitt að halda því fram að einhver spennandi leyndarmál finnist enn á Mallorca. Eyju sem hefur verið gegnsósa af túrisma um 40 ára skeið. Það er samt sem áður raunin.

Einn af þeim fallegu stöðum Mallorca sem fáir eða engir ferðamenn eru sjáanlegir. Mynd g.e.o.r.g.e.

Einn af þeim fallegu stöðum Mallorca sem fáir eða engir ferðamenn eru sjáanlegir. Mynd g.e.o.r.g.e.

Líklega er þó of mikið að tala um leyndarmál. Nær lagi að tala um staði sem þrátt fyrir að hafa aðdráttarafl er ólíklegt að rekast á marga ferðamenn eða þess lags hópa og það jafnvel ekki einu sinni á háannatíma.

CALA BANYALBUFAR er einn slíkur. Lítil skeljalaga klettótt strönd fyrir neðan afskaplega fallegt gamalt sveitaþorp. Hogginn steinstigi liggur frá þorpinu og niður að sjávarmáli en ströndin þó ekki sú besta til sólböðunar enda lítið af sandi og meira af steinum og klettanippum. Hins vegar streymir hér niður hlíðina lækur einn sem sannarlega tifar létt um máða steina og gott betur því við ströndina fellur hann niður í fjöru svo til verður fínasta náttúrusturta.

LLUCARCARI er annar staður þar sem tíðindum sætir að sjá ferðafólk á vappi. Heitið á við um lítið þorp sem hér stendur en hér skammt frá eru nokkrar litlar þröngar víkur. Það hjálpar lítið að hér er allt bæði bratt, fjalllent og strendur flestar helst til grófar til að njóta vel. Sömuleiðis hér fellur ferskvatn til sjávar og myndar litla fossa í klettunum. Á einni ströndinn sérstaklega, Es Canyaret, þykir heimamönnum fátt betra en nudda sér upp úr grófum sandinum sem er sérstaklega leðjukenndur og sturta svo af undir vatnsföllunum. Sagan segir að þetta sé nokkurra meina bót.

COLONIA DE SANT PERE er sá þriðji sem er heimsóknar virði. Sá er kannski ekki svo frábrugðinn öðrum fínum strandbæjum á Mallorca nema fyrir þær sakir að þetta er staður númer eitt, tvö og þrjú hjá Mallorca-búum sjálfum. Það er hér sem mjög eftirsótt er að eiga sumarhús sem útskýrir nánast algjöra lömun yfir vetrartímann því hér búa aðeins tugir allan ársins hring. Eins og ritstjórn Fararheill hefur brýnt fyrir fólki þá er það algild regla alls staðar í heiminum að staðir sem heimamenn sækja sjálfir í miklum mæli eru alltaf pottþéttir.