Sé einhver Frónbúi á leið til Lettlands til að spóka sig og njóta er æði margt vitlausara en taka skrefið, eða bílinn, til bæjarins Sigulda í Vidzeme héraðinu í um klukkustundar fjarlægð frá höfuðborginni Ríga.

Æði yndislegir þjóðgarðar í næsta nágrnni við Ríga í Lettlandi

Æði yndislegir þjóðgarðar í næsta nágrnni við Ríga í Lettlandi

Sigulda er það svæði í Lettlandi sem bæði heimamenn sjálfir og þeir erlendu ferðamenn sem hingað villast líkja umsvifalaust við Sviss og fagra nátturuna þar. Er ekki leiðum að líkjast þar enda Sviss svo kjaftfullt af stórkostlegri náttúru að það ætti að varða við lög.

Fyrir utan bæinn Sigulda með sín fallegu hús og götur er varla gengið um svæðið í kring án þess að rekast á gamla niðurnídda kastala og minjar hér og þar í og við vötn og skóga sem hér eru.

Skammt frá er þjóðgarðurinn Gauja og þó klisjukennt sé að segja er sá þjóðgarður hrein gersemi fyrir gangandi. Stígar liggja um allt og útsýnið fegurra en orð fá lýst.

Ritstjórn Fararheill gafst aðeins færi á hálfum degi hér um slóðir á för sinni um Lettland en sá hálfi dagur dugði einungis til að stórauka lystina til skoðunar. Er það ekki bagalegt að þó ferðafólk sé töluvert hér á ferli er svæðið svo stórt að lítið verður þess vart.

Meðal þess sem hér er að sjá er Sigulda kastalinn sem er mun magnaðri berum augum en á ljósmyndum. Sigulda kirkjan er gullfalleg og nánast endalaust hægt að rekast á smærri en fallega kastala og minjar aðrar sem ekki eru sérstaklega auglýstar en yndislegt að labba fram á. Meðal þeirra eru leifar Turaida kastalans en sá kastali er nátengdur frægri goðsögn tengdri ástinni í Lettlandi. Ófeimin að forvitnast um þá goðsögn hjá heimafólki.

Sé lítil nenna eða geta í fólki að hreyfa sig á tveimur jafnfljótum er líka útsýniskláfur hér. Þar sitja áhugasamir sem fastast og njóta útsýnisins.

Til Sigulda er komist bílandi eða með lest eða rútu frá Ríga. Ferðatíminn er klukkustund og tíu mínútur sé farið frá Aðallestarstöðinni eða rútubílastöðinni í miðborg Ríga. Þær eru hlið við hlið og auðfundnar við hlið stórverslunarinnar Stockmann. Til Gauja þjóðgarðsins tekur rúma hálfa klukkustund í viðbót.

Til umhugsunar: Sé aurarnir af skornum skammti er vert að hafa í huga að verðlag í Lettlandi er nokkuð lægra en gerist og gengur í Evrópu. Ritstjórn Fararheill gisti eina nótt á ágætu fjögurra stjörnu sveitahóteli við Gauja þjóðgarðinn fyrir aðeins 7.600 krónur með morgunverði.