Þ eir eru margir frábærir markaðirnir í borgum og bæjum heims en slíkir markaðir gefa oft glögga svipmynd af stöðu lands og þjóðar hverju sinni. Fólk fer jú ekki með sín dýrustu djásn á markað nema skóinn kreppi fjárhagslega.
Gamli markaðurinn í Skopje efalítið einn sá merkilegasti í álfunni. Mynd mkskopje

Gamli markaðurinn í Skopje efalítið einn sá merkilegasti í álfunni. Mynd mkskopje

Í Balkanríkinu Makedóníu hafa landsmenn hægt og bítandi komist úr sárri fátækt hin síðari ár og áratugi en landið þó enn eitt það fátækasta í Evrópu. Við viljum meina að það sé ástæða þess hve gamli markaðurinn í borginni Skopje sé svo æði frábær. Ekki síst hvað varðar antík og fornmuni.

Sá markaður finnst við austurbakka Vardar árinnar sem liðast um Skopje og þar finnast á litlum bletti bæði götusalar og forngripaverslanir í hverjum kofa. Hvarvetna gefur að líta forvitnilega muni frá hinum ýmsu tímum.

Markaðssvæðið tiltölulega stórt og vel hirt. Bita og gogg og öl með víða að finna.

Til dæmis hluti á borð við raunverulegar rómverskar brynjur og herklæði. Hlutir sem væru á safni í öllum ríkari löndum heims. Hér í landi eru þó fjárráð til varðveislu slíkra hluta takmörkuð sem skýrir hvers vegna slíkt finnst hér í næstu antíkverslun.

Fyrir aðdáendur gripa frá Síðari heimsstyrjöld er hér gnótt muna sem færu vel í safnið. Herbúningar, vopn, medalíur og alls kyns ómerkilegt og merkilegt drasl sem tilheyrði þeim slæma tíma.

Markaðurinn er vel sóttur af ferðafólki en hér er mikið af heimamönnum líka sem staðfestir að hér er ekki einungis gert út á hinn erlenda ferðamann eins og í sumum borgum sem við þekkjum vel.

Alveg ómissandi stopp ef þú finnur þig í Skopje og alveg óhætt að gefa sér þrjár til fjórar stundir hið minnsta til að skoða ekki nema brot af því sem hér finnst. Þá er verðlag hér vægast sagt lágt og alveg óhætt að prútta.