Þ að hefur varla farið fram hjá Kanaríunnendum að golf nýtur sívaxandi vinsælda þar suðurfrá enda frábær leið til að eyða tíma með skemmtilegu fólki og njóta smá heilsubótar svona sem mótvægi gegn því að sumbla út í eitt og slafra í sig á hræódýrum veitingahúsum daginn út og inn.

Allar flatir með fyrsta flokks útsýni á Tecina Golf á Kanaríeyjum. Mynd Tecino

Allar flatir með fyrsta flokks útsýni á Tecina Golf á Kanaríeyjum. Mynd Tecino

Þó velflestir golfvellir á eyjunum séu sallafínir fyrir meðalmanninn í golfinu og stöku vellir séu hreint og beint frábærir er aðeins einn, að okkar viti, sem fellur undir það að vera stórkostlegur.

Sá er stórkostlegur fyrir ómetanlegt útsýni. Stórkostlegur fyrir að vera þó nokkuð afsíðis. Stórkostlegur fyrir að henta bæði leiknum og lötum og stórkostlegur fyrir skemmtan út í eitt.

Völlurinn sem við erum að tala um heitir Tecina Golf og þér fyrirgefst ef þú kannast ekkert við hann. Hann er nefninlega eini golfvöllurinn á einni af fáum eyjum Kanaríeyja sem ekki er alveg gegnsósa af túrisma ennþá. Eynni La Gomera.

Náttúrufegurð og ekki þarf að tala neitt um loftslagið á Kanaríeyjunum. Mynd Tecina

Náttúrufegurð og ekki þarf að tala neitt um loftslagið á Kanaríeyjunum. Mynd Tecina

Aðdáendur Tenerife sem skoðað hafa kort kannast ábyggilega við staðinn. La Gomera er næsta eyja við Tenerife og nokkuð tíðar siglingar á milli þeirra tveggja af hálfu skipafélagsins Fred Olsen.

Það er einmitt fyrirtækið atarna, Fred Olsen, sem á og rekur Tecina Golf og hótel þar við á suðurströnd La Gomera. Og það er sama fyrirtæki sem býður nokkuð reglulega tilboð á siglingu og golfi og eða siglingu, golfi og gistingu frá Los Cristianos á Tenerife.

Frá Adeje er nokk hægt að skjótast með morgunferju yfir til La Gomera, rúnta með skutlu eða bílaleigubíl í stundarkorn um hæðótta suðurströnd eyjunnar, klára einn góðan hring, stúta einum köldum í rólegheitum á nítjándu og ná samt heim á hótel aftur á Tenerife síðdegis.

Golfbíll er næsta nauðsyn á Tecina Golf þó ekki sé nema vegna þess að fyrsta braut er í 500 metra hæð frá golfskálanum en jafnvel þeir allra lötustu í golfinu ættu að gleðjast þegar á fyrstu braut er komið. Völlurinn er nefninlega allur niður í mót eftir það. Hver einasta braut vallarins liggur niður á við alla leið niður að skála. Hann er því sáraauðvelt að labba að því gefnu að fólk fái skutl að fyrsta teig. Nema labb niður á við sé of mikið fyrir litla hjartað. Þá er kannski tími til kominn að selja golfsettið og taka upp frímerkjasöfnun heima á Langanesi.

Ýmis tilboð eru í gangi allan ársins hring gegnum Fred Olsen eða Jardin Tecina hótelið. Algengt verð fyrir átján holu golfið er átta til tíu þúsund krónur en finna má tilboð með golfi, siglingu og jafnvel bílaleigubíl með niður í sextán þúsund utan annatíma.

Golfvöllurinn hér og Fred Olsen hér.