Þ að er afskaplega rík hefð fyrir því hjá móður náttúru að hafa sandstrendur sem allra, allra næst sjávarmáli svona heilt yfir. Á því er þó minnst ein undantekning.

Sérdeilis merkilegt náttúrufyrirbrigði. Ein einasta „sandströnd“ á vesturströnd Kanarí. Mynd fotosaereasdecanarias
Þeir eru fáir sem láta sig hafa þvæling um vesturströnd Kanarí, Gran Canaria, þegar dvalist er á þeirri ágætu eyju. Það helgast fyrst og fremst af því að nánast allur vesturhlutinn er fjöll og firnindi, klettar og skorur.
Ægifagurt allt saman en lítt spennandi fyrir þreytta ferðalanga frá nyrsta ballarhafi. Jafnvel þó áhugi sé fyrir hendi er sterk sólin og hár hitinn fljótur að telja fólki hughvarf.
En ef þig langar að sjá dálítið æði merkilegt og raunar einstakt á þessum slóðum þá læturðu þig hafa túr, labbandi eða með báti, að Punta Arenas sem svo er kallað.
Svo heitir lítill tangi sem slefar út í sjó frá snarbröttum fjöllunum og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ljósi bletturinn ætti varla að fara framhjá nokkrum lesanda. Þar er þessi líka fyrirtaks sólbaðssandur í tonnavís.
En það sem sést ekki á þessari mynd er að þessi hreint ágæta sandströnd, líklega eina galtóma strönd Kanarí, nær ekki til hafs. Það er 25 metra hæðarmunur á „ströndinni“ og sjó.
Vísindamenn fullyrða að einhvern tímann í fyrndinni hafi þessi sandtunga náð til sjávar enda ekkert annað sem getur útskýrt hvers vegna hér er þessi sallafíni sandur eins og skratti úr sauðalegg. Á einhverjum tímapunkti hafi eyjan þó risið ellegar sjávarmál lækkað nóg til að tungan situr eftir og getur ekkert annað.
Hingað er hægt að komast auðveldlega með báti en túrar hingað eru nokkuð tíðir að sumarlagi. Hin leiðin er að ganga og sá túr stemmir við ljóð Tómasar Guðmundssonar: Urð og grjót. Ef þú lætur verða af gætið þið notið strandlífs alein og yfirgefin á Punta Arenas. Það er sérstök upplifun á einhverjum vinsælasta dvalarstað í Evrópu.