Skip to main content

K öfun er sport sem mjög sækir í sig veðrið og er sá hópur fólks er það stundar einn af stærstu minnihlutahópum sem ferðaskrifstofur margar einbeita sér að.

Barracuda Point þykir magnaður staður til köfunar enda dýralíf allt um kring í allar áttir.

Barracuda Point þykir magnaður staður til köfunar enda dýralíf allt um kring í allar áttir.

Enda er það svo að þeir sem fengið hafa bakteríuna alvarlega láta sig ekki muna um að ferðast heimshorna á milli ár hvert til að komast á bestu staðina til þess arna.

En hverjir eru besti köfunarstaðir heims?

Sitt sýnist auðvitað hverjum um það en lesendur köfunartímaritsins Scubatravel völdu þessa í fimm efstu sætin nýlega:

♥  Yongala, Ástralíu » Ekkert jafnast á við Kóralrifið mikla við Ástralíu þegar kemur að köfun. Rifið sjálft er sjón að sjá í allri sinni dýrð en ekki síður er það heimili þúsunda tegunda sjávardýra og fiska af öllum stærðum og gerðum. Þá skemmir heldur ekki að þar eru inn á milli flök skipa sem frábært þykir að komast í tæri við í tiltölulega hlýjum sjónum. Ekki hvað síst flak skipsins SS Yongala.

♥  Palau, Mikrónesíu » Palau er hundrað kílómetra langur eyjaklasi og sjávarlífið þar eins fjölbreytt og kostur er í hafinu. Þá þykja gríðarmiklir hamraveggir í djúpinu heillandi og margir neðansjávarhellar eru þar líka. Blue Corner kallast sá staður sem mest heillandi þykir.

Margir ægifagrir köfunarstaðir í Rauðhafinu og þangað tiltölulega ódýrt að fara. Mynd Wetpic

Margir ægifagrir köfunarstaðir í Rauðhafinu og þangað tiltölulega ódýrt að fara. Mynd Wetpic

♥  Sipadan, Malasíu » Sipadan er einasta eldfjallaeyjan í Malasíu og er hvorki meira né minna en 600 metra hátt frá botni. Sjávarlíf ríkt og fjölbreytt og umhverfið allt ofansjávar og neðan einstakt á heimsvísu. Svo einstakt reyndar að eyjan hefur komið til greina sem ein af Sjö nýjum undrum veraldar. Besti köfunarstaðurinn er Barracuda Point.

♥  Rauða hafið, Egyptalandi » Það er engin tilviljun að Rauða hafið er á tíu árum orðin mekka ferðalanga norðan úr ballarhafi. Ekki aðeins sómir maður sér mætavel á ströndinni undir brennandi sólinni heldur þykir köfun á þessum slóðum fyrsta flokks. Sjórinn kristaltær og mýmörg flök að finna á hafsbotninum víða. Stórkostlegast þykir flak breska skipsins Thistlegorm.

♥  Yolandarif, Egyptalandi » Annar staður í sama hafi en þarna ekki um flak að ræða heldur kóralrif. Fiskgengd mikil og höfrungar og skjaldbökur áberandi. Þó þykir dálítill ljóður á að hér hefur safnast saman töluvert af rusli á botninum enda ekki langt frá vinsælum strandsvæðum.